Sigmundur Davíð skrópgemlingur

Sigmundur Davíð hefur verið gagnrýndur fyrir að mæta sjaldan í vinnuna. Ég hef heyrt af því að hann segist sjálfur í raun tekið þátt í um 90% af starfi þingsins. Skoðum þau gögn sem eru til staðar.

Á Alþingisvefnum kemur fram hve oft hann hefur tekið þátt í atkvæðagreiðslum.

Fjöldi já-atkvæða: 192
Fjöldi nei-atkvæða: 14
Greiðir ekki atkvæði: 43
Fjarverandi: 206

Hann var sumsé fjarverandi í rúmlega 45% atkvæðagreiðslna. En það segir ekki alla söguna. Ástæðan fyrir því að hann er með svona góða prósentu er að hann mætti á þingfundi þar sem voru mjög margar atkvæðagreiðslur. Hann mætti 22. desember til að greiða atkvæði í sumum málum. Hann var næst mættur í atkvæðagreiðslu þann 16 maí. Þarna er hálft ár þar sem hann mætir aldrei til að kjósa. Hann er síðan duglegur, á sinn mælikvarða, að mæta til að kjósa næsta hálfa mánuðinn.

En það sem er áhugaverðara er að skoða mætingu hans á fundi Utanríkismálanefndar. Það voru 29 fundir á árinu og Sigmundur mætti tíu sinnum. Af þessum tíu fundum sem hann mætti voru fjórir í maí sem var greinilega langbesti mánuðurinn hans.

Það vekur líka athygli að Sigmundur mætti aldrei á réttum tíma. Tvisvar var hann innan við tíu mínútum of seinn sem er afsakanlegt (á íslenskan mælikvarða). Yfirleitt var hann svo seinn að nemandi í grunn- eða framhaldsskóla hefði fengið skróp í kladdann. Einu sinni náði hann að vera 101 mínútu of seinn á fund og var viðstaddur síðustu nítján mínúturnar.

Þá er rétt að benda á að hér er ekki um fjarveru sem er afsökuð á einhvern hátt. Þarna hefur hann ekki kallað inn varamann. Hann var ekki að erindast erlendis.

1. fundur: Fjarverandi

2. fundur: Fjarverandi

3. fundur: 45 mínútum of seinn. 30 mínútur á fundinum.

4. fundur: Fjarverandi

5. fundur: 56 mínútu of seinn. 64 mínútur á fundinum.

6. fundur: Fjarverandi

7. fundur: 101 mínútum of seinn. 19 mínútur á fundinum.

8. fundur: Fjarverandi

9. fundur: Fjarverandi

10. fundur: Fjarverandi

11. fundur: 20 mínútum of seinn. 67 mínútur á fundinum.

12. fundur: Fjarverandi

13. fundur: Fjarverandi

14. fundur: Fjarverandi

15. fundur: Fjarverandi

16. fundur: Fjarverandi

17. fundur: Á réttum tíma. 37 mínútur á fundinum.

18. Fjarverandi

19. Fjarverandi

20. fundur: 28 mínútum of seinn. 32 mínútur á fundinum.

21. fundur: 17 mínútum of seinn. 73 mínútur á fundinum.

22. fundur: 13 mínútum of seinn. 122 mínútur á fundinum.

23. fundur: Fjarverandi

24. fundur: Fjarverandi

25. fundur: 4 mínútum of seinn. 26 mínútur á fundinum.

26. fundur: Fjarverandi

27. fundur: Fjarverandi

28. fundur: Fjarverandi

29. fundur: 8 mínútum of seinn. 52 mínútur á fundinum.

Playstation 2 úr Góða hirðinum

Um daginn var ég að rölta um Góða hirðinn með sonum mínum og við rákumst á nokkrar Playstation 2 leikjatölvur. Þær kostuðu fimmhundruð krónur. Við ræddum þetta og þótti tilboðið lokkandi. Við keyptum tölvuna og nokkra leiki á hundraðkall. Við tókum líka eitt minniskort á fimmhundruðkall.

Stóri gallinn var að það fylgdi ekki snúra í sjónvarp. Ég las mér til og sá að besti kosturinn væri að kaupa HDMI breytistykki. Ég fann eitt svoleiðis á AliExpress. Næsta skref var að bíða.

Í dag fórum við feðgar á pósthúsið og náðum í pakka frá Ali. Það var ekki bara breytistykkið heldur líka tvær fjarstýringar. Ég tók þá tölvuna og stakk öllu í samband. Og ekkert gerðist. Ég prufaði fleiri HDMI snúrur en ekkert virkaði. Ég stakk heyrnartóli í samband við hljóðtengið sem er líka á breytistykkinu og þá heyrði ég skýrt og greinilega að tölvan var í gangi og leikurinn virtist líka virka. En það er ganglítið þegar maður sér ekki neitt.

PS2 með verðmiðum úr Góða hirðinum. Aftan úr tölvunni vinstra megin sést breytistykkið. Það fær straum úr USB-tenginu á tölvunni. Einnig sjást þráðlausu fjarstýringarnar.

Lukkulega búum við á netöldinni þannig að ég fór að gúggla. Auðvitað hafði einhver lent í sama vandamáli áður og var búinn að setja lausnina á YouTube. Þarna sýnir maður hvernig maður getur breytt myndmerkinu sem PS2 gefur frá sér þannig að breytistykkið geti numið það.

Alveg frábært. Nema að ég var ekki með upprunalegu snúruna svo ég gat ekkert séð valmyndirnar til að breyta stillingunum. En þá hafði einhver annar einmitt lent í þessu sama og hann hafði kommentað með runnunni sem maður þurfti að slá inn á fjarstýringunni til þess að breyta möguleikunum.

Niður, X, (bíða) niður þrisvar sinnum, X, vinstri, X, O.

Ég sló inn töfraþuluna á fjarstýringuna og bingó. Myndin birtist. Þá er allt komið í gang og virkar.

 

Vodafone stelur af mér

Nú í vikunni fékk ég tilkynningu frá Vodafone um að „Risafrelsið“ sem ég keypti mér væri að renna út. Ég var hissa af því að ég hef aldrei keypt svoleiðis af því að það er ógeðslega vont tilboð og gagnamagnið rennur út á mánuði. Ég keypti hins vegar 5 gígabæta skammt af venjulegu frelsi sem rennur út á hálfu ári. Ég sendi þeim harðorða kvörtun, enda þá er þetta ekki í fyrsta skiptið sem fyrirtækið rukkar mig vitlaust og ég efast mjög um að það sé óvart. Allavega hef ég aldrei verið óvart rukkaður um of lítið.

Í gær fékk ég síðan þetta svar:

Þetta er bara ósatt. Ég athugaði í heimabankanum og þar sést, svart á hvítu (eða öllu held í þessum ömurlega ljósgráa lit sem fólk heldur í alvörunni að sé boðlegt að nota í staðinn fyrir svart), að ég borgaði 2980 sem er verðið fyrir venjulegt 5 gígabæta niðurhalsfrelsi (og 2000 kr. fyrir símafrelsi). Þarna var ég að undirbúa mig fyrir ferðalag um landið.

Það sem meira er þá var ég líka búinn að kíkja í Vodafone appið og þar stendur greinilega að ég fékk bara 5 gígabæta niðurhal og átti nóg eftir.

Ég sendi þeim þessi tvö skjáskot en fékk ekkert svar. Í staðinn fékk ég símtal sem ég svaraði ekki af því að ég var í vinnunni og líka bara af því að mér líkar betur að hafa alla svona hluti skriflega (sérstaklega ef ég fer lengra með málið).

Í dag kíkti ég síðan á Vodafone-appið og sá að ég á engan niðurhalskvóta eftir þar. Vodafone stal honum.

Það sem mér finnst skrýtnast í öllum mínum samskiptum við Vodafone í gegnum árin er að þeir virðast halda að þeir geti grætt á því að svindla á viðskiptavinum sínum. Þeir virðast ekki telja neins virði að gera viðskiptavini sína ánægða og koma vel fram við þá.

Ég tók það hamingjuskref fyrir nokkru að færa ljósleiðaratenginguna mína til Hringdu. En ég hélt áfram að vera með símann hjá Vodafone (Voðafón) af því að það hentaði að ýmsu leyti vel og mér líkar einfaldleikinn að vera með frelsi. Ætli þetta hafi verið lokahnykkurinn?

Ég hef tvær spurningar fyrir þá sem lásu þetta:

  • Hvaða kæruleiðir eru í boði?
  • Hvar er gott að vera með farsíma þegar maður notar síma alveg voðalega lítið?

Stories of Iceland – Nýtt hlaðvarp (podcast)

Stories of Iceland
Ísland er kind. Sættið ykkur við það.

Eftir miklar vangaveltur og vesen varðandi Vídeóspólu-heimildarmyndina þá er ég loksins kominn með góða aðstöðu til upptöku. Það er í fundarherbergi í kjallara blokkarinnar okkar. En ég get ekki haldið áfram að taka upp viðtöl strax því að það eru núna háværar framkvæmdir í gangi. Það er slæmt að bjóða einhverjum í viðtal þegar hætta er á að borar yfirgnæfi viðmælandann.

Þannig er ég svona fræðilegu skapandi tómi. Ég hef gert nokkra útvarpsþætti og hef því verið nokkuð spenntur að prufa að gera svona hlaðvarpsþætti. Vandinn var auðvitað að finna nálgun sem er ekki löngu kominn. Síðan tók ég upp puttaferðalang og sagði honum endalausar sögur af Íslandi og þá var hugmyndin komin.

Í hlaðvarpsþáttunum Stories of Iceland ætla ég að fjalla um íslenska sögu, menningu og þjóðfræði á ensku. Þættirnir eru ætlaðir útlendingum sem hafa áhuga á Íslandi og ég ætla að reyna að fara aðeins dýpra og vera með aðeins öðruvísi vinkil en þessi hefðbundna landkynning.

Fyrsti þátturinn kallast Troublemaker-Valley og er umfjöllunarefnið Svarfaðardalur og sögur tengdar honum.

Illugastaðir 2017

Við tókum eina máltíð úti við

Miðvikudaginn 26. júlí lagði ég af stað í leiðangur. Fyrsti áfangastaður var Vopnafjörður þar sem fjölskyldan beið. Ég keyrði af stað en ekkert áhugavert gerðist fyrr en rétt utan við Borgarnes þar sem ég sá mann á puttanum. Ég hafði ekki tekið upp puttaferðalang í mjög langan tíma enda yfirleitt með fjölskyldufylltann bíl.

Þetta var rétt rúmlega tvítugur franskur strákur á leið til Akureyrar. Rétt eftir að ég hafði tekið hann upp í þá stoppaði Vegagerðin okkur. Reyndar var þar á ferðinni drengur með skilti sem stóð á Stop. Ekki draumastarfið en hann hafði allavega síma og stól. Við biðum meðan Vegagerðarbíll leiddi bílaröðina sem kom á móti okkur. Þetta var til að takmarka grjótkast. Þegar Vegagerðarbíllinn hafði snúið við þá sneri drengurinn í stólnum skiltinu sínu við og þá stóð Go.

Spjall okkar náði um heim og geima. Ég var ekki lengi að segja honum frá fjölskyldutengslum mínum við Frakkland og hann tók það ekkert nærri sér. Fljótlega fórum við að tala um franska pólitík og ég talaði illa um Le Pen sem var ekkert sérstaklega djarft enda var puttaferðalangurinn, eins og hann útskýrði seinna, barn franskrar móður og föður frá Kongó. Ég veðjaði sumsé réttilega á að hann væri ekki stuðningsmaður Front National. Það gladdi mig svolítið þegar puttaferðalangurinn spurði mig um svart fólk á Íslandi. Ég gat sagt honum frá blámönnum, Hans Jónatan, bandarískum hermönnum og fyrsta skiptinu sem ég sá fullorðinn svartan mann. Hann sagði mér líka frá því þegar hann fór í heimaþorp föður síns þar sem börnin bentu á hann og kölluðu, á sinni tungu, „hvítur, hvítur“.

Ég uppfræddi þann franska um íslenskan mat. Þar á meðal benti ég honum á að eina mögulega ástæðan fyrir því að borða hákarl væri að geta sagt einhverjar karlmennskusögur af sjálfum sér. Ef hann vildi borða ekta mat heimamanna þá ætti hann að fá sér hamborgara með frönskum á milli eða djúpsteikta pylsu. Ég nefndi líka að lambakjöt væri líka boðlegt og þá sérstaklega hangikjöt.

Ég skutlaði franska drengnum á tjaldstæðið á Akureyri en byrjaði þá fljótlega að heyra undarleg hljóð úr bílnum. Ég þorði ekki að keyra mikið lengra og gladdist í hjarta mínu að bíllinn væri leiðinlegur á Akureyri. Ég gat nefnilega hringt í Svavar frænda sem reddaði mér inn á verkstæðið með litlum fyrirvara. Þar kom í ljós að undir bílnum var óhóflegt magn af steinum og tjöru. Því var sópað undan og ég gat haldið áfram ferðinni, óendanlega þakklátur frænda og hans fólki.

Eftir að hafa borðað hamborgara með frönskum á milli dreif ég mig austur. Það var tíðindalítið ferðalag. Það var þoka á heiðum og ég varð hálfringlaður þegar ég kom niður að þorpinu því vegurinn hafði ekki verið tilbúinn síðast þegar ég kom. Það var mikil gleði hjá drengjunum þegar ég kom og líka hjá mér. Ég hafði alveg saknað þeirra. Eygló var líka glöð að sjá mig en ekki jafn óstjórnlega og þeir tveir.

Ég eyddi fimmtudeginum á Vopnafirði, fór í sund og hitti tengdafólk. Ég hafði reyndar náð að missa af besta veðri sumarsins þarna fyrir norðan og austan og var einmitt að missa af besta veðrinu fyrir sunnan. Á föstudag fórum við síðan af stað í átt að Illugastöðum þar sem við höfðum leigt sumarbústað. Það gekk allt vel. Drengirnir þægilegir ekkert óhóflega margir ferðamenn á veginum. Við hentum dótinu okkar inn á Illugastöðum og, eftir að hafa hlustað á ofurjákvæðni Gunnsteins, þá drifum við okkur til Akureyrar þar sem við keyptum nauðsynjar í Bónus. Kvöldmaturinn var síðan snæddur á Bryggjunni.

Laugardagur í sumarbústað var leti. Við byrjuðum á sundi og afrekuðum síðan sem minnst. Við lærðum líka aðeins á heita pottinn. Þegar hér var komið við sögu þá var jákvæðni drengja farin að minnka. Skortur á netsambandi var þar ofarlega á kvörtunarblaði. Það var víst ekki hægt að vita hve mörg myndbönd Unspeakable væri búinn að setja á YouTube meðan við vorum þarna í menningarleysinu. Ég endaði sjálfur á því að sogast inn í einhvern breskan þátt um matráðskonu sem stal lottómiða. Það var hálfdapurlegt hvað ég var farinn að taka þetta allt nærri mér. Við Eygló enduðum síðan kvöldið á að horfa á laugardagsmyndina á RÚV saman.

Sunnudagur byrjaði á sundi og síðan lagði Eygló til að við myndum fara til Grenivíkur. Ég reyndi að fá skýringu á þessari undarlegu hugmynd en hún vildi bara sjá þorpið. Ég veit ekki hvers vegna. En þarna fórum við. Við komust þangað og keyrðum um þorpið allt og stoppuðum síðan við skólann þar sem ætlunin var að drengirnir myndu hreyfa sig aðeins. Gunnsteinn var mjög glaður en Ingimar hafði vaknað eitthvað pirraður og samþykkti enga skemmtun. Á meðan á þessu stóð keyrðu þorpsbúar allir framhjá okkur og störðu. Mér leið svolítið eins og ég væri í Stephen King bók.

Til að reyna að gleðja Ingimar skruppum við í Jónsabúð til að kaupa ís. Hann vildi ekki koma með þannig að við Gunnsteinn fórum einir inn. Ég valdi trúðaís handa Ingimari og ætlaði að sigra hann þannig. Það var hins vegar óstjórnlega rangt hjá mér. Hann vildi velja ísinn sjálfur. Eygló náði að hugga hann og fá hann til að velja nýjan ís meðan sá gamli byrjaði að bráðna. Reyndar fékk trúðaísinn ekki að verða að mauki því að Ingimar var til í að fá smá auka ís þegar hann var búinn með sinn útvalda. Gunnsteinn fékk líka af honum.

Ein helsta gleðin við að fá trúðaís er auðvitað að fá flautu til að gera fullorðna brjálaða. En þegar Gunnsteinn ætlaði að losa sína flautu gekk það ekkert. Ingimar var fljótur að bjóða fram sína þjónustu, sagðist geta gert þetta og stóð við. Þetta var síðan endurtekið á hinni flautunni. Ingimar er greinilega harðhentastur.

Við enduðum á Akureyri þar sem við bættum aðeins við nauðsynjar og fórum aftur á Bryggjuna sem var greinilega orðin eftirlætisstaður hjá drengjum, og svo sem okkur líka.

Mánudagurinn var hefðbundinn með sundi og síðan komu Hafdís og fjölskylda í heimsókn og grill. Það var alveg ógurleg gleði hjá krökkunum en þó voru Sunna og Gunnstein sérstaklega ánægð að leika saman. Við reyndum að fara í mínígólf staðarins en það gekk ekkert rosalega vel af því að flugurnar reyndu að éta okkur. Sérstaklega okkur Hafdísi og börnin á meðan Mummi og Eygló sluppu mun betur. Ég var næstum búinn að missa mig yfir helvítisflugunum.

Á þriðjudag var farið í Mývatnssveit (eftir hið daglega sund), sem hljómar reyndar ekki sem góð ákvörðun miðað við ævintýri mánudagsins. Við borðuðum á Daddapizzu sem var mjög gott en ekki ódýrt nema á mælikvarða Mývatnssveitar. Við fórum síðan og röltum um Dimmuborgir. Gunnsteinn var voðalega glaður fyrst að sjá jólasveinahelli en þolinmæðin var ekki algjör meðan við gengum rúmlega tveggja kílómetra hring. Ég hafði ekki komið í Dimmuborgir lengi og þótti voðalega skrýtið að sjá þetta svona túristavætt. Það skánaði aðeins þegar við vorum komin þarna lengra inn.

Eftir Dimmuborgir komum við við í Samkaup og keyptum okkur ísa. Það var erfið ákvörðun hvað ætti að gera næst en við ákváðum að Fuglasafnið yrði fyrir valinu. Ég reyndi auðvitað að ljúga því að drengjunum að þeir væru að ruglast og þetta væri í raun flugnasafn – sem væri auðvitað miklu meira viðeigandi. En Fuglasafnið sló í gegn. Það boðaði líka gott þegar önd rölti á undan okkur inn. Ingimar heillaðist af haferni en Gunnsteinn var meira að pæla í heildinni. Eftir þetta var bara farið beint í bústaðinn.

Miðvikudagur byrjaði á hinu hefðbundna sundi en síðan fórum við á Akureyri að hitta Rósu og Lindu í Kjarnaskógi. Ég skrapp reyndar fyrst á nýopnaðan skyndibitastað sem heitir Aleppo. Það er var voðalega indælt að sjá aðeins koma fjölbreytt líf í göngugötu heimabæjarins. Í Kjarnaskógi var nýr leikvöllur prufaður eftir að við höfðum náð að hrekja vinnuvélar á brott. Síðan var völundarhús skoðað. Það er líklega ekki nýtt en líklega er ekki langt síðan það náði boðlegri hæð. Eftir það var farið inn í Hrafnagil að hitta Hafdísi og fjölskyldu aftur.

Á fimmtudag höfðum við stór plön um að fara í Ásbyrgi og Axarfjörð og jafnvel að Dettifossi. Það var hins vegar voðalega lítil stemming fyrir langferð þannig að við enduðum með að dúlla okkur, eftir sundið, og að síðan fórum við í stutta ferð að Goðafossi. Við fórum alveg að fossinum sem stendur auðvitað fyrir sínu. Það er skrýtið að vera umvafinn ferðamönnum þarna. Við versluðum aðeins á Fosshól og það voru mistök. Það var rándýrt og nær ekkert var verðmerkt. Þá kom í ljós að mjólkin sem við keyptum þarna var ónýt.

Eins og venjulega tókum við kvöldið í pottinum, allavega við strákarnir. Við vorum sammála um að lágmarkshitinn væri full hár þannig að við tókum okkur til og stilltum pottinn á næturhita. Hægt og rólega fór hitastigið niður í tæpar 29° sem var notaleg tilfinning. Heiti potturinn þarna var reyndar af frekar leiðinlegri tegund. Hann er mjög óreglulegur sem er ætlað til þess að maður geti setið og legið í ýmsum stellingum en aðallega varð það til þess að maður rann auðveldlega til og misteig sig þegar maður var á ferðinni. Þar að auki var óþolandi vesen að þrífa hann enda rann vatnið ekkert almennilega úr honum heldur festist bara í öllum þessum kimum.

Við tókum föstudagsmorgun í sundlauginni, við strákarnir. Ég synti reyndar nær ekkert enda þurfti athyglin að vera á Ingimari. Við bjuggum í annað skiptið til „hatt“ úr kleinuhringjum og pylsu. Það vakti mikla lukku. Reyndar hafði Eygló fengið hláturskast þegar ég fór fyrst inn í þetta daginn áður. Eftir að hafa þrifið og drifið allt draslið í bílinn keyrðum við til Akureyrar. Bryggjan varð fyrir valinu. Reyndar hafði Ingimar fyrst sagt flatt nei við því en að lokum áttuðum við okkur á því að hann vildi endilega fá franskar og vissi ekki að það væri alveg hægt að panta þær þarna. Þegar hann var upplýstur um stöðu fransknanna þá tók hann gleði sína á ný og samþykkti Bryggjuna.

Drengirnir voru yndislegir í bílnum. Við tókum bara eitt pissustopp enda var gulrót við enda leiðarinnar til Reykjavíkur, KFC í Mosfellsbæ. Maturinn þar er vissulega alveg ágætur, og það fást franskar, en aðallega er það leiksvæðið sem heillar.

Það var mikil gleði að komast heim nema að blokkin er að missa græna litinn og orðin full hvít sem er full ljótt.

Fr̦ken Fix Рheilasprengja upprunans

Í hversdagslegu dúlli mínu á Tímarit.is þá rakst ég á nokkuð sem sprengdi heilann minn, en þó ekki bókstaflega. Svo virðist sem að meðfylgjandi mynd sýni hina upprunalega Fröken Fix. Hún var persónugerving þvottaefnis.

Þessi auglýsing er frá árinu 1939 en þvottaefnið Fix var fyrst auglýst árið 1935 með frasanum „Fröken Fix“. Elstu auglýsingarnar má t.d. finna í Kirkjuritinu, Sovétvininum og nasistablaðinu Íslandi. Myndin fylgdi þó ekki með fyrr en seinna.

Nasistar (þjóðernis)hreinsa með aðstoð Fröken Fix
Fröken Fix

Samhæft Kodi og Android tónlistarkerfi

Ég keypti mér síma um daginn. Fyrir valinu varð Moto G5 Plus sem ég pantaði mér frá Amazon. Frábær sími, glæný týpa með Android 7 og kostaði rétt um 32 þúsund með gjöldum og sendingarkostnaði.

Að vanda þá þurfti ég að pæla í því hvernig best væri að spila tónlist í honum. Ég er með tónlistarsafnið mitt á flakkara sem er tengdur við Raspberry Pi 3 sem keyrir Kodi. Þó ég noti Spotify reglulega þá er þetta alltaf besta safnið. Þarna eru t.d. allar sólóútgáfur meðlima Queen en margar þeirra vantar á Spotify.

Ég hef lengi notað forritið Yatse til að tengja Kodi við símann minn. Þaðan getur með bæði hlustað og horft á efni úr Kodi í símanum. Yatse getur bæði streymt efni úr Kodi en líka hlaðið því niður. Hér áður fyrr var þetta ekki sérstaklega mikils virði af því að minniskortin voru ekki nógu stór fyrir mikið efni. Núna er ég með 128GB kort þannig að ég geti sett mikið af tónlist þarna inn. Þá minnkar þörfin á að nota streymiþjónustur eins og Spotify.

Ein ástæðan fyrir því að ég nota sjaldan Yatse til að hlusta á tónlist í símanum er að viðmótið er ekki neitt sérstaklega þægilegt fyrir tónlistarspilun. Lukkulega er það þannig að tónlistarsafnið mitt er vel skráð og öll lýsigögn í lagi. Það þýðir að þó að Yatse búi ekki til þægilegt skrárkerfi fyrir tónlistina þegar það hleður henni inn á minniskortið þá getur gott tónlistarforrit lesið lýsigögnin beint og gert efnið aðgengilegt. Í lýsigögnunum hjá mér er ég t.d. með innbyggð plötuumslög þannig að þau birtast vandaræðalaust.

Síminn minn er svo indæll að það fylgdu ákaflega fá forrit frá framleiðandanum. Þarna eru aðallega bara aðal Android forritin. Mér finnst Google Play Music ekki spennandi þannig að ég er að prufa Pi Music Player (ótengt Pæinu í Raspberry Pi held ég). Mér lýst ágætlega á það.

Ég skipti nýlega út fimm diska og einnar kassettu bílgræjunum mínum og setti í staðinn ódýran Aliexpress spilara. Hann er lélegur að mörgu leyti, og ég mæli ekkert með honum almennt, en hann getur skammlaust spilað tónlist í gegnum (Pi Music Player) Bluetooth. Ég nota því forritið MacroDroid, sem framkvæmir sjálfvirkt fyrirfram skráðar skipanir fyrir ákveðnar aðstæður, til þess að ræsa tónlistarspilarann og setja af stað tónlist þegar ég tengist bílgræjunum með Bluetooth.

Það er hægt að gera svipað með önnur tæki. Þannig get ég sagt MacroDroid að kveikja á tónlistinni þegar ég er búinn að ræsa íþróttaforritið mitt og tengja Bluetooth heyrnartólin mín. Maður gæti líka bætt við skipunum þannig að maður gæti sagt spilaranum hvaða tónlist hann ætti að spila. Raddstýringar eru orðnar nógu góðar til að maður geti sagt spilaranum nöfn á spilarlistum eða plötum á ensku en ég er ekki viss um að ég komist upp með að segja honum að spila Ekki verður á allt kosið með Ný Dönsk.

Ég er sumsé á því að framtíðin sé bara núna en ekki alveg á íslensku.

Stjórnarráðið: Hvað er spunnið í opinbera vefi?

Stjórnarráðið var að opna nýjan vef. Í þeirri aðgerð var framinn helsti glæpur sem hægt er að fremja í vefbreytingum. Öllum vefslóðum var breytt og almennt er engin sjálfkrafa aðgerð sem sendir fólk áfram á rétta síðu. Allir hlekkir sem vísuðu á ákveðnar síður hjá íslenskum ráðuneytum eru núna ónýtir.

Ég var ekki hissa þegar ég sá að Sjá, sem hefur séð um „Hvað er spunnið í opinbera vefi?“, segist hafa séð um „að framkvæma notendaprófanir á honum í þróunarferlinu og eins aðgengisúttekt“. Ástæðan er sú að verkefnið „Hvað er spunnið í opinbera vefi?“ er að miklu leyti gagnslaust.

Ég var nefnilega örlítið í þessum málum fyrir nokkrum árum og fór meira að segja á einhverja fyrirlestra hjá þessu fólki. Það sem ég sá var að röðunin á topplistann þeirra var algjörlega galin. Vefir sem uppfylltu yfirborðskennd skilyrði gátu fengið háa einkunn þrátt fyrir að þeir væru illa uppfærðir og illa skipulagðir. Síðan átti þetta að teljast einhver gæðastimpill.

Ég var aðeins að skoða vefinn hjá „Sjá“ og tók hérna skjáskot af einni síðu. Þarna eru margt að. Byrjum á titlinum, sumsé á flipanum. Þar stendur bara Pistlar. Það hjálpar ekki þeim sem er með ótal flipa opna í vafranum sínum. Það hjálpar ekki þegar þú ert að leita í niðurstöðum leitarvéla (Google bjargar þessu reyndar en aðrar leitarvélar sýna bara „Pistlar“).

Ef þið lítið á dagsetninguna þá er hún DESEMBER 1, 2015 (sem sýnir vanvirkni vefsins). Þarna hefur mánaðarheitið verið þýtt en dagsetningin er sýnd á bandvitlausan hátt. Þetta ætti auðvitað að vera 1. desember 2015. Það er ótrúlega einfalt að gera þetta rétt í WordPress sem er vefumsjónarkerfið sem þarna er notað.

Neðst á skjáskotinu sjáið þið síðan að ef þið viljið lesa meira þá smellið þið bara á „Continue reading“. Ég get ekki sagt að það sé til fyrirmyndar. Neðst á síðunni er svo hægt að smella á „Older posts“. Það er ákaflega einfalt að laga svona. Ótrúlega einfalt raunar.

Það sem ég meina er: Hvernig ætti fólk sem getur ekki einu sinni séð um eigin vef sagt öðrum til verka?

Annars þá var svolítið kaldhæðnislegt að ég lenti í svolitlum vandræðum með að finna upplýsingar um verkefnið „Hvað er spunnið í opinbera vefi?“ af því að það er búið að henda öllum síðunum, eða allavega slóðunum. En þá er auðvitað hægt að kíkja á Vefsafnið.

Tónleikasaga mín

Í tilefni þess að ég fór á Rammstein í gær skráði ég hjá setlist.fm hvaða tónleika ég hefði farið á í gegnum tíðina. Týr er á toppnum með 12 tónleika en verst er að ég hef ekki séð þá í nærri átta ár. Ég þurfti að bæta við nokkrum tónleikum þeirra þarna (og um leið nokkrum tónleikastöðum á Íslandi).

Ég ákvað að telja fræga íslenska tónlistarmenn með þannig að Emilíana og Sigur Rós eru þarna. Það vantar reyndar þegar ég laumaðist inn á Emilíönu og Fjallkonuna 1995/6 í Sjallanum og eina tónleika með henni í Háskólabíó. En tónleikar Sigur Rósar árið 1999 á Vopnafirði voru þegar skráðir inn en ég var fyrstur til að skrá að ég hefði verið þar. Ég er ekki hissa enda voru bara svona tuttugu manns þar.

Eyðurnar í tónleikasókn eru greinilegar þarna uppúr 2009 og síðan aftur uppúr 2013. Þið getið giskað hvað veldur.

Maí 20, 2017: Rammstein, Korinn, Kópavogur
Nóv 11, 2016: Nik Kershaw, Harpa – Eldborg, Reykjavík
Okt 14, 2016: Placebo, Store Vega, Copenhagen, Danmörk
Ágú 6, 2016: Muse, Laugardalshöll, Reykjavík
Maí 19, 2016: Emilíana Torrini, Harpa – Eldborg, Reykjavík
Nóv 4, 2012: Sigur Rós Airwaves 2012
Okt 11, 2008: Queen + Paul Rodgers, S.E.C.C., Glasgow, Skotland
Okt 4, 2008: Týr, Nasa, Reykjavík
Okt 3, 2008: Týr, Græni Hatturinn, Akureyri
Okt 2, 2008: Týr, Paddy’s Irish Pub, Keflavík
Júl 9, 2008: Týr, Bryggen, Copenhagen, Danmörk
Maí 27, 2007: Uriah Heep, Laugardalshöll, Reykjavík
Maí 27, 2007: Deep Purple, Laugardalshöll, Reykjavík
Okt 4, 2006: Týr, The Rock, Copenhagen, Danmörk
Júl 30, 2006: Sigur Rós, Klambratún Park, Reykjavík
Júl 27, 2006: Emilíana Torrini, Nasa, Reykjavík
Júl 27, 2006: Belle and Sebastian, Nasa, Reykjavík
Nóv 27, 2005: Sigur Rós, Laugardalshöll, Reykjavík
Júl 23, 2005: Europe, G! Festival 2005
Júl 23, 2005: Týr, G! Festival, Norðragøta, Færeyjar
Júl 5, 2005: Foo Fighters, Reykjavík Rocks 2005
Jún 30, 2005: Duran Duran, Reykjavík Rocks 2005
Jún 7, 2005: Iron Maiden, Egilshollin, Reykjavík
Mar 28, 2005: Queen + Paul Rodgers, Carling Academy Brixton, London, England
Júl 7, 2004: Placebo, Laugardalshöll, Reykjavík
Jún 26, 2004: Týr, Grand Rokk, Reykjavík
Des 11, 2003: Týr, Nasa, Reykjavík
Nóv 23, 2003: Týr, Tjarnarbíó, Reykjavík
Nóv 22, 2003: Týr, Hvíta húsið, Selfoss
Nóv 21, 2003: Týr, Grand Rokk, Reykjavík
Ágú 26, 2003: Foo Fighters, Laugardalshöll, Reykjavík
Apr 6, 2002: Týr, Smáralind, Kópavogur
Jún 15, 2001: Rammstein, Laugardalshöll, Reykjavík
Ágú 14, 1999: Sigur Rós, Mikligarður, Vopnafjörður

Dapurleg örlög Ole Lund Kirkegaard

Svona í ljósi barnabókaumræðu þá er kannski rétt að tala um barnabækur. Ég les eiginlega á hverju kvöldi fyrir Gunnstein. Við klárum Kalla og sælgætisgerðina annað kvöld eða kvöldið þar á eftir.
Ég er kominn með næstu bók. Það er Fúsi froskagleypir eftir Ole Lund Kirkegaard. Ég hlakka dálítið til enda voru þessar bækur mjög góðar í minningunni.
Mér datt í hug að lesa mér aðeins til um hann Ole Lund og varð dapur að lesa um andlát hans. Reyndar lést hann um einum og hálfum mánuði eftir að ég fæddist þannig að flestir hafa samt væntanlega jafnað sig. En hann var víst 38 ára þegar hann dó (sumsé jafngamall mér í dag). Hann varð úti á leiðinni heim af kránni. Mér datt í hug örlög sögupersónu landa hans HC Andersen þegar ég las þetta.
Ég fann í fljótu bragði enga frétt í íslensku blöðum um andlátið árið sem hann lést. Ég veit ekki hvort hann þótti ekki nógu merkilegur á þessum tíma eða fréttirnar hafi bara ekki borist hingað. Rúmu hálfu ári eftir andlát hans var skrifað um hann í Vísi eins og hann væri enn lifandi.
Ég hlakka samt til að lesa bókina.