Djóksíðan Einkabílahatrið

Fyrir svona hálfu ári eða svo tók ég eftir að vinir mínir voru að deila, og læka, síðunni Einkabílahatrið. Ég skoðaði hana og dró þá eðlilegu ályktun að þetta væri brandari á kostnað einkabílasinna. Ég geri ráð fyrir að allavega einhverjir vinir mínir hafi dregið þá ályktun líka. En eftir smá tíma sá maður að það var einhvers konar einlægni í kjánaskapnum og mér sýndist að það væri væntanlega alvara á bak við þetta. Ég aflækaði þó ekki síðuna af því að hún er ógeðslega fyndin (óvart).

Á þriðjudaginn birtist þarna frétt um hækkun sekta við stöðubrotum, þar á meðal í stæði fyrir hreyfihamlaða. Ég skrifaði athugasemd við fréttina sem mig minnir að hafi hljóðað orðrétt svona: „Frábært!“ Næst þegar ég kíkti á síðuna var athugasemd mín horfin og ég sviptur réttinum til að skrifa fleiri athugasemdir. Þetta er væntanlega minnsta þol fyrir gagnrýni sem ég hef séð á nokkurri síðu.

En djókurinn er ennþá fyndinn því það var búið að bæta við einni línu í textann sem fylgdi hlekknum og hef ég breiðletrað hann hér ykkur til skemmtunar:

Ofbeldið heldur áfram í borginni..

Sektir fyrir stöðubrot hækka úr 5.000 krónum í 10.000 í Reykjavík. Borgarráð samþykkti tillögu þessa efnis í dag. Sekt fyrir að leggja í bílastæði hreyfihamlaðra hækkar í 20.000 krónur úr 10.000.

Sko, það er ofbeldi að sekta fólk fyrir að leggja ólöglega. Það má lengi gengisfella hugtök.

Netljósmyndabanki í lýðvistun

Það eru nokkrir Facebook hópar þar sem fólk dælir inn gömlum íslenskum myndum. Þar ræðir fólk um myndirnar og það sem á þeim sést. En væntanlega hverfa myndirnar, og upplýsingarnar sem koma fram, bara ofan í einhverja hít.

Það væri verðugt verkefni fyrir einhvern, mögulega þá sem sjá um ljósmyndir á Þjóðminjasafninu en helst bara minjasöfn og skjalasöfn í sameiningu, að setja upp vef þar sem fólk getur sett inn gamlar myndir. Kerfið þyrfti þá að vera þannig að notendurnir sem setja inn myndirnar geti skráð lýsigögn, s.s. nafn ljósmyndara, ár, staðsetningu og hverjir séu á myndinni. Um leið þyrfti að vera möguleiki fyrir þá sem skoða myndirnar að koma með tillögu að breytingum eða viðbótum við þessi skráningaratriði.

Ég er ekki að segja þetta sé einfalt verk en þetta gæti skilað ótrúlegum árangri.

Dulnefni og notendanöfn

Lengst af virkaði netið bara þannig að maður þurfti að velja sér notendanöfn þegar maður skráði sig á t.d. spjallborð eða önnur spjallkerfi (Irc, Messenger og svo framvegis). Það var frekar sjaldgæft að maður notaði eigin nafn. Ein ástæða er sú að maður mátti sjaldnast nota íslenska stafi. En það var líka þannig að ef fleiri Íslendingar voru á svæðinu þá var ólíklegt að maður gæti notað eigin nafn. Sumir leystu það með því að bæta við tölum, t.d. fæðingarári, við á eftir nafninu. Flestir bjuggu sér einfaldlega til eitthvað nafn sem var fljótlegt að skrifa.

Þessi nöfn voru í sjálfu sér ekki dulnefni því þau þjónuðu ekki því hlutverki að dylja það hver væri þar á ferðinni heldur þvert á móti að segja hver þar væri á ferð. Það hvort fólk gæfi upp hver væri á bak við notendanafnið var persónu- og aðstæðubundið. Þegar fólk hefur aldrei sérstaklega leynt því hver væri á bak við notendanafn á netinu þá er ekki hægt að kalla það dulnefni.

Kannski er þessi færsla fullmikið skrifuð í þátíð en það virðast margir eiga erfitt með að skilja hvernig vefurinn virkaði áður en Facebook kom til og hvernig sumir hlutar hans, og netsins, virka ennþá.

Svívirt látin eiginkona á Facebook – eða hvað?

Ég sá núna áðan heimskulega athugasemd við frétt á Vísi. Ég kíkti á Facebook síðu gamla mannsins sem skrifaði athugasemdina. Þar var mynd af gamalli konu sem gamli maðurinn var að tala um að hann saknaði. Við myndina voru síðan alveg ótrúlega ósmekklegar athugasemdir á kostnað konunnar.

Ef ég hefði ekki haft efasemdir þá hefði ég tekið skjáskot af þessu og hneykslast á þessu. En efasemdirnar voru til staðar. Ég fletti upp nafni gamla mannsins og hann er hvorki til í þjóðskrá né Íslendingabók. Ég gúgglaði síðan myndina af honum og þá kom í ljós að hún er bandarísk. Reyndar gat maður séð þegar maður opnaði myndina að bolur mannsins var merktur liði í bandarískum fótbolta.

Þannig að maður verður stundum að skoða Facebook, og þar af leiðandi athugasemdir sem birtast á t.d. DV og Vísi, með rannsakandi auga ef maður ætlar ekki að falla í gildrur trollarana.

Fölsuð vara á Ali Express

Ég hef eins og margir verslað dáltið við kínversku vefverslunarmiðstöðina Ali Express. Ég hef almennt verið ánægður. En ég pantaði líka minniskort og lykla sem voru vafasamir. Ég gerði þau mistök að athuga þessar vörur ekki strax og lenti því í að gögn sem ég var með á þeim spilltust. Þegar það gerðist fann ég forrit sem heitir H2testw sem prufar minniskort og lykla. Það kom í ljós að 8 GB kortið sem ég keypti var í lagi en 64 GB minniskortið og 64 GB minnislykillinn voru með innan við tíunda þess pláss sem auglýst var.

Ég hafði því miður þegar staðfest að vörurnar væru komnar og hafði misst af tækifærinu að opna „deilu“ við seljandann. En í gær fékk ég annan 64 GB minnislykil (sem ég hafði pantað áður en ég áttaði mig á hinu). Ég tékkaði og þá kom í ljós að plássið var falsað. Ég opnaði strax deilu við seljandann, heimtaði endurgreiðslu og neitaði að endursenda kortið. Ég fékk nokkrum klukkutímum seinna tilkynningu um að ég fengi endurgreiðslu.

Það er rétt að taka fram að það er hægt að nýta þessi fölsuðu kort og lykla. Ef maður formatar bara nýtilegt svæði á þeim þá virkar það. Ég ætla samt ekki að geyma neitt verðmætt á þeim.

Það er líka rétt að taka fram að ég hef áður fengið endurgreiðslu frá Ali Express vandræðalítið. Þá hafði ég fengið frá þeim usb-sjónvarpskort sem var ekki með réttu tengi. Ég náði reyndar síðan að redda réttu tengi með smá fiffi þannig að það var lítið mál.

Að lokum er rétt að benda á að samkvæmt mínum heimildum eru minniskort og lyklar þær tölvuvörur sem mest álagning er á hér á landi.

Tvær Truflanir í viðbót

Ég er þá búinn að bæta við tveimur bloggurum í viðbót á Truflun.

Sá fyrri er Arngrímur Vídalín, fræðimaður og skáld. Hann bloggar um veginn og þurfti ég að standast freistinguna að breyta því þannig að hann bloggaði um vegginn.

Sá seinni er hvorki meira né minna en frægasti og besti bloggarinn Stefán Pálsson.

Báðir koma þeir af Kaninkunni sem var áður mitt bloggheimili. Mér skilst að hún sé að líða undir lok sem er nú frekar dapurlegt.

Truflun rís á ný

Fyrir stuttu var ég spurður hvort ég hefði pláss fyrir blogg á Truflun. Það varð til þess að ég ákvað loksins að þrífa til hérna og færa bloggin á annan hýsingaraðila.

Til að byrja með er rétt að taka fram að mér þykir ennþá vera pláss fyrir blogg í Facebook veröld. Ég tel líka þörf á bloggum sem eru ekki í umsjá fyrirtækja. Ég er mjög glaður að hafa allt mitt á minni eigin könnu. Facebook er lokaður heimur, blogg eins og hér eru hluti af hinum opna vef. Það er ennþá pláss hérna fyrir fólk sem vill vera með.

En já, yfirfærslan.

Tvö blogg voru með gagnagrunnsvillu sem ég þurfti að laga. Merkilegt nokk næ ég alltaf að fikta mig framúr gagnagrunnveseni þó ég segist aldrei kunna neitt í því.

Fjögur blogg voru með ruglaða íslenska stafi. Því var reddað að mestu með find/replace en bloggeigendur ættu endilega að lesa yfir til þess að sjá hvort eitthvað stafabrengl leynist þar enn.

Ég henti út ótal ruslpóstkommentum og lokaði á athugasemdir á færslur sem eru meira en tveggja vikna á öllum bloggum sem eru hér.

Mögulega hefur eitthvað efni týnst í flutningum en það ætti allt að vera einhvers staðar til. Ég er með afrit af gagnagrunnum og öllum möppum þannig að það ætti að vera hægt að finna allt.

Ég endurskipulagði forsíðuna út frá því hve líklegt mér þykir fólk til að blogga á ný. Þið sem eruð í neðri línunum megið endilega koma mér óvart. Sá sem er á leiðinni inn er með spurningamerki en mun vonandi detta inn sem virkasti bloggarinn á svæðinu.

Það eru líklega meira en sjö ár síðan þetta lén var fyrst skráð og ég hef lært heilmikið af þessu bralli og ég sé ekki fyrir mér að ég fari að hætta í bráð.

Hér er blogg

Þið sjáið auðvitað ekki neitt en þessi vefur hefur verið fluttur heimshorna á milli frá því ég skrifaði síðast. Sama er að segja um hin Truflunarbloggin. Reyndar eru tvö þeirra enn í einhverju gagnagrunnsrugli sem ég þarf að reyna að laga. Set upp forsíðuna aftur bráðum.

Sigurbjörn Svavarsson sendir mér mikilvægt skjal

Þegar ég hraðlas þetta skeyti í símanum áðan féll ég næstum fyrir því. Bara næstum samt. Þegar ég endurlas frá orði til orðs varð strax augljóst að þetta var kjaftæði. Skeytið er augljóslega Google þýðing. Það er síðan alltaf varúðarmerki. Ef maður setti músina yfir hlekkinn sem var í skeytinu sást að slóðin var á vef sem bíður upp á styttar slóðir og sendir mann síðan áfram á einhverja aðra síðu. Svoleiðis hlekki opna ég bara aldrei og skil ekki hvers vegna fólk notar þetta í heiðarlegum tilgangi.

Það er aðallega íslenska nafnið sem gerir þetta meira sannfærandi en venjulega ruslið.

mikilvægt skjal

Sigurbjorn Svavarsson <s.svavarsson@gmail.com> 14:43 (29 minutes ago) to bcc: me Halló, Vinsamlegast skoða skjal sem ég hlaðið fyrir þig að nota Google docs, Smelltu hér til að beina til tryggt skjal Google vefsíðunni að sækja skrá því það er mjög mikilvægt. Hafa a mikill dagur,

Fólk kann ekki á tölvupóst – ekki senda viðhengi

Fólk kann almennt séð ekki á tölvupóst. Helsta birtingarmynd þess er þegar maður fær tölvupósta með Word skjölum eða öðrum viðhengjum á textaformi sem allt eins hefði verið hægt að setja í tölvupóstinn sjálfan. Ég er hér ekki að tala um það þegar fólk er að senda einhver vinnuskjöl fram og til baka heldur þegar það er að dreifa upplýsingum. Eina góða ástæðan sem þú getur haft fyrir því að senda upplýsingar í viðhengi sem hefðu allt eins getað verið í texta tölvupóstsins sjálfs er sú að þú viljir í raun ekki að fólk sjái ekki þessar upplýsingar. Þú ert nefnilega að setja upp vegg umhverfis upplýsingarnar sem gerir fólki erfiðara að nálgast þær.

Þetta hefur alltaf verið galin leið til að dreifa upplýsingum en í dag er þetta í raun verra en áður því fólk er sífellt í meira mæli að nota snjalltæki til að skoða tölvupóstinn sinn. Ég veit ekki einu sinni hvort ég hef eitthvað forrit til þess að opna Word skjöl í símanum mínum enda er síminn minn galið tæki til þess að nota til þess að opna Word skjöl.

Ég held að þetta sé angi af því að fólk vill að stafræn skjöl séu eins og skjöl á pappír. Hvernig ætti maður annars að geta skilið vinsældir PDF skjala sem eru ekki til neins gagnleg nema að búa til skjal sem á að prenta? Texti á stafrænu formi virkar best þegar hann fær að flæða og getur aðlagast þeim tækjum sem hann er skoðaður í. Þetta er ótrúlegur kostur en fólk nær einhvern veginn að sannfæra sig um að þetta sé galli.

Sumsé: Aldrei senda viðhengi þegar þú getur afritað upplýsingarnar beint í meginmál tölvupóstsins. Þetta er ekki umsemjanlegt heldur föst regla.