Sigmundur Davíð

Sigmundur Davíð kom sem frelsari inn í Framsóknarflokkinn sem maður breytinga. Hann náði engum árangri þannig. Fjórum árum síðar er hann kominn í klassískan Framsóknarham og hefur aldrei verið vinsælli. Hann kom einhvern veginn inn í pólitík með ágætis pælingar um borgarskipulag og endar sem formaður Framsóknarflokks.

Nú verð ég að byrja að segja að ég hef ekkert álit á Sigmundi Davíð. Einhver sagði að maður ætti allavega að gefa honum að hann væri snjall en ég bara sé það ekki.

Augljósa ástæðan sem er merkilega Icesave. Ef við hefðum tapað Icesave málinu þá væri Framsókn fylgislaus. Mér er eftirminnilegt fréttirnar kvöldið þegar Icesave dómurinn kom og Sigmundur Davíð tók fram að hann hefði nú ekki verið viss um að við myndum vinna. Ástæðan var sú að hann taldi alþjóðadómstóla, sérstaklega evrópska, mjög vafasama (man ekki orðrétt). Ég man að ég spurði hvar í ósköpunum maður gæti fundið betri alþjóðadómstóla en í Evrópu en því miður heyrði Sigmundur Davíð ekki í mér í gegnum sjónvarpið.

Sigmundur hefur einu sinni tekið gríðarlega áhættu með því að veðja á Icesave málið og hann græddi á því. Núna er hann aftur að fara að veðja með draumkenndum kosningaloforðum og 30% þjóðarinnar ætlar að styðja hann í því. Ég vildi að ég gæti veðjað gegn honum en mögulega verð ég neyddur til að fjármagna veðmálið. Ég tek fram að ég er með verðtryggt íbúðalán og yrði rosalega glaður ef ég gæti trúað því að þetta gengi upp hjá honum. Ég geri ráð fyrir að það séu margir, mögulega verr settir en ég, sem hafa ákveðið að leyfa sér að trúa honum þvert á betri dómgreind.

Núna er spurt um menntun Sigmundar og það er látið eins og það sé voða ósanngjarnt. Ég veit ekki hvort það sé af því mönnum yfirsést hvers vegna er spurt. Það er ekki af því að það skipti máli hvort hann sé í raun búin með allt sem hann segist vera búinn með heldur hvort hann hafi sagt satt. Þegar ég les svörin hans frá því fyrir tveimur árum þá get ég ekki látið þau ganga upp. Ég sé einfaldlega ekki að hann hafi haft yfirhöfuð tíma fyrir öll þessi ár í háskóla frá því að hann útskrifaðist úr Háskóla Íslands árið 2005.

Það er skrýtið þegar menn tala um að ósamlyndi í ríkisstjórnarflokkunum, sérstaklega VG, sé að koma þeim í koll þegar Sigmundur Davíð náði á sama tíma að splundra flokknum sínum og þingflokknum þó hann væri í stjórnarandstöðu. Ef ekki væri fyrir aukið persónufylgi hans vegna Icesave dómsins þá myndum við í dag sjá klofinn Framsóknarflokk en vegna dómsins hafa menn fylgt sér á bak við Sigmund. Hvernig mun þessum manni ganga að stýra ríkisstjórn miðað við þetta? Forystu- og samvinnuhæfileikar eru ekki til staðar.

Af Thatcher og úreltum víglínum stjórnmála

Thatcher dó. Það skiptir okkur máli af því að hennar stjórnmálastefna mengaði okkar þjóðfélag frá 1991-2009. Ég segi hennar stjórnmálastefna því að mér hefur alltaf þótt íslenskir nýfrjálshyggjumenn hafa litið meira til hennar en t.d. Bandaríkjanna.

Mér finnst þetta ágætt tækifæri til að rifja upp hvað skiptir máli í stjórnmálum. Það sem skiptir mig máli er allt sem Thatcher réðst á: Menntakerfið, heilbrigðiskerfið og velferðarkerfið. Einhverjir geta spurt hvort að atvinnulífið skipti ekki máli líka og svarið er jú en ég held um leið að atvinnulífið þurfi á þessum stoðum að halda til að blómstra. Atvinnulífið þarf líka reglur til að starfa eftir – bankahrunið er jú arfleifð Thatcher. Þessar reglur snúast þá um að fyrirtæki geti ekki farið illa með starfsfólk sitt, viðskiptavini sína eða umhverfið. Umhverfið er líka lykilmál. Það er sama hvernig ég sný hlutunum þá er enginn flokkur, ekkert stjórnmálafólk, sem er nær mér en VG.

Nú vita menn að þegar ég hef verið ósáttur við flokkinn hef ég ekki hikað við að kvarta (þó vælið hafi frekar farið fram á Facebook en hér). Síðast var það augljóslega vanhugsað útspil Ögmundar í netmálum. Hins vegar hef ég í sjálfu sér engar praktískar áhyggjur af því að eitthvað verði úr því máli enda var það eiginlega kjarninn í gagnrýni minni að þetta gæti aldrei virkað. Þetta voru óraunhæfar hugmyndir sem verða skotnar niður þegar á að reyna að vinna úr þeim (sumir hafa eftir á haldið að það hafi verið komið fram frumvarp um málið en Ögmundur var ekki kominn lengra að ætla að skipa nefnd til að athuga málið).

Ég tel líka að ríkisstjórnin hafi unnið stórvirki á síðasta kjörtímabili. Það segja okkur allar tölur. Það er grátlegt að ríkisstjórnarflokkarnir muni ekki njóta þess. Ekki það að ég hafi verið glaður með allt sem var gert en yfir heildina er þetta ekkert annað stórkostlegt. Ég játa að ólíkt mörgum þá læt ég ekki stjórnarskrármálið fara í taugarnar á mér. Í fyrsta lagi skilaði stjórnlagaráð af sér stjórnarskrá sem var vitað að yrði ákaflega erfitt að koma í gegnum þingið og pönkast (fyrirgefðu Valli) síðan á ríkisstjórninni fyrir að klára ekki ókláranlegt mál. Þau spenntu bogann of hátt. Þau hefðu getað komið með góðar tillögur til breytinga á gömlu stjórnarskránni sem hefði verið hægt að koma í gegn en kusu að koma með draumóratillögur. Í öðru lagi hafa efasemdir mínar um stjórnarskránna aukist eftir því sem á leið.

Þau nýju framboð sem hafa komið fram hafa það sameiginlegt, frá mínu sjónarhorni, að vera uppfull af rugludöllum og/eða dramadrottningum þó þar sé líka gott fólk (sem er af einhverjum ástæðum minna áberandi). Þeir sem gengu úr VG vilja kalla sig villiketti en dramadrottningar eru meira lýsandi. Í stað þess að reyna að vinna við að reyna ýta stefnu ríkisstjórnarinnar lengra til vinstri þá fóru þau í fýlu, skelltu hurðum, og gerðu VG almennt erfiðara fyrir að koma fram stefnumálum sínum. Þegar vinstriflokkur er í samstarfi við flokk þar sem sumir þingmennirnir eru í raun hægri menn þá er ákaflega erfitt að koma málum í gegn án þess að gera erfiðar málamiðlanir. Það er skítaverk og þá þarf fólk sem er tilbúið að verða drullugt. Aðrir geta staðið hjá hvítklæddir og heilagir kvartandi yfir lyktinni.

Helsta ástæðan fyrir því að VG hefur ekki náð að gera ríkisstjórnina nógu vinstrisinnaða, umhverfissinnaða og hvaðeina er að þessar hugmyndir hafa ekki nægan stuðning á þingi. Þessar hugmyndir hafa ekki nægan stuðning á þingi af því að það er ekki nógu margt fólk sem hefur kosið VG. Það er því ótrúlega þversagnakennt að ætla að kjósa ekki VG fyrir að koma ekki stefnumálum sínum í gegn af því þetta er (flest) fólkið sem er að berjast fyrir þessum málum. Rökréttast væri að fara út á göturnar og hvetja fólk til þess að kjósa flokkinn. En ætli flestir stuðningsmenn VG séu ekki dáltið eins og ég, þreyttir og pirraðir eftir erfitt kjörtímabil.

Ég játa að það kitlaði mig alveg þegar Píratar fóru af stað því þar var margt gott fólk sem ég veit að eru jafnvel nær mér í skoðunum en flokksfélagar VG. Þetta er frjálslynt fólk, margt til vinstri á stjórnmálavængnum og umhverfissinnað (og meira að segja vísindasinnaðir umhverfissinnar). Ég veit síðan Evrópuþingmenn systurflokka Pírata eru oft frekar vinstrisinnaðir. En það var tilætlunarsemi af mér að ætla að gera þá að vinstriflokki. Íslensku Píratarnir standa fyrir utan hægri og vinstri. Það sem er jafnvel verra er að ég tók fljótlega eftir þarna söfnuðust inn samsærissinnaðir rugludallar þarna. Í mínu kjördæmi er mér t.d. boðið upp á mann í efsta sæti sem hefur ákaflega undarlegar hugmyndir um hlýnun jarðar. Það væri ekkert minna en stórslys að sá maður kæmist á þing.

Það er örugglega nærri áratugur síðan ég fór að tala um það að ég hefði meiri trú á Katrínu Jakobsdóttur en öðrum stjórnmálamönnum. Ekki af því að við séum alltaf sammála heldur af því að ég tel að hún sé heiðarleg og klár. Fyrir síðustu kosningar kostaði hún örugglega flokkinn einhver atkvæði þegar hún sagði að á kjörtímabilinu þyrfti bæði að hækka skatta og skera niður. Fólk varð fúlt þrátt fyrir að það væri fullkomlega augljóst að það þyrfti að hækka skatta og skera niður. Sumir (mjög margir) vilja bara láta ljúga að sér frekar en að heyra sannleikann.

VG, ESB og „flóttinn“

Nú hef ég sjálfur ákaflega litla skoðun á aðild Íslands að ESB. En ég er í flokki sem hefur barist gegn aðild vegna þess að a) ESB er markaðsdrifið fyrirbæri og b) að í raun stendur ESB í vegi fyrir almennilegri alþjóðahyggju. Ástæðurnar eru oft fleiri og dýpri en þessar sem ég nefni tel ég í samræmi við þau gildi sem við viljum almennt að flokkurinn hafi. Það má síðan ekki gleyma að í VG er líka fullt af fólki sem er hlynnt inngöngu í ESB.

Í VG hefur síðan komið fólk, sérstaklega fyrir síðustu kosningar, sem er á móti ESB aðild vegna þess að það er þjóðernissinnað (ekki rasískt en rembingslegt oft á tíðum). Ég hef enga samúð með síðastnefnda hópnum og fagna því þegar það yfirgefur flokkinn.

Ég veit reyndar að sumir rugla minni skoðun á því að það sé nauðsynlegt að tryggja innlenda matvælaframleiðslu við þjóðerniskennd. Sú skoðun mín hefur hins vegar ekkert með þjóðerniskennd að gera og ég tel ekki að íslenskur matur sé betri en annar matur. Ég tel það einfaldlega skyldu okkar gagnvart sjálfum okkur og umheiminum að vera okkar sem mest næg um mat. Hér spilar inn hugmyndir um umhverfisvernd, flöktandi matvælaverð og margt fleira.

Ég sakna fólksins sem yfirgefur VG af því að það telur flokkinn ekki nógu vinstrisinnaðan. Ég játa að söknuðurinn er meira á mínum forsendum en þeirra. Mér þykir þetta fólk hafa gert vel í að ýta flokknum til vinstri á köflum þó það hafi kannski haft óraunhæfar væntingar um hve langt til vinstri það væri hægt að koma Samfylkingunni í stjórnarsamstarfinu.

Stórar og litlar undanþágur

Það er undarlegt að fólk lýsi því yfir að stærðin á landinu sem Kínverjar ætluðu að kaupa skipti ekki máli varðandi undanþágur. Að sjálfsögðu skiptir stærðargráða undanþágu ákaflega miklu máli þegar um er að ræða undanþágur frá lögum og reglum.

Ef við tökum nýlegt dæmi þá var kanadískum dreng vísað úr landi. Í því tilfelli hefði, ef ég man rétt, verið hægt að veita undanþágu. Hann var víst um tveimur mánuðum of ungur til að fá dvalarleyfi. Í því tilfelli var stærðargráðan á undanþágunni ákaflega lítil og á þeim forsendum hefði ég einmitt stutt hana. Tveir mánuðir til eða frá skipta voðalega litlu máli í þroska. Ef hann hefði hins vegar verið tveimur eða fjórum árum yngri en kveðið var á um þá hefði undanþágan verið stór. Um leið hefði opnast stór glufa fyrir alla þá sem eru á sama aldursbili vegna fordæmis. Lögunum hefur í raun verið breytt ef fordæmið stendur.

Að sjálfsögðu gildir það sama um kínversku landakaupin. Ef einhver utan EES vildi kaupa einhvern smáskika þá væri það lítil undanþága frá lögunum. Ef einhver ætlar að kaupa stórt landsvæði þá er fordæmið slíkt að lögin missa allt vægi sitt. Ef fólk er í sjálfu sér á móti lögunum þá á það að leggja til breytingu á þeim en ekki kvarta yfir því að farið sé eftir þeim.

Kínverjarnir

Hin einfalda staðreynd er að ég treysti ekki kínverskum stjórnvöldum (af augljósum ástæðum) og ég treysti ekki því fólki sem er í náðinni hjá þessum mjög svo vafasömu stjórnvöldum. Ofan á þetta bætast sögur af undarlegum landakaupum Kínverja hér og þar í heiminum (ég var einmitt á áhugaverðum fyrirlestri Saskia Sassen þar sem fjallað var um þetta hjá á SIEF ráðstefnunni í vor) sem verða til þess að tortryggni mín vex enn frekar. Á maður að bæta við að fyrirætlanir um uppbyggingu á Grímsstöðum virðast ákaflega undarlegar? Ég sé allavega ekki hvernig þær áttu að geta gengið upp. Sér í lagi þegar menn eru farnir að spá hruni í kínverska hagkerfinu.

Þetta leiðir mig að áhugaverðum pistli Eiríks Arnar Norðdahl frá því í gær. Þar ber hann saman umfjöllun um heimsóknir vinstrimanna og verkalýðsforkólfa til Sovétríkjanna í fortíðinni og heimsóknir Íslendinga til Kína í nútímanum. Pælið aðeins í því sem hann skrifar.

Leyni ESB klúbburinn

Það er magnað að lesa um atkvæðagreiðslur Sjálfstæðisflokksins um að draga aðildarumsóknina til baka. Fyrst samþykkja menn það en hafna því tvisvar þegar atkvæðagreiðslan er leynileg og að lokum er einhver málamyndartillaga samþykkt sem er svona eiginlega gegn aðild en samt í raun ekki. Það er alveg spurning hvort hann Benedikt hefði ekki bara átt að bjóða sig fram til formanns gegn frænda sínum. Það hefði örugglega gengið upp ef atkvæðagreiðslan hefði verið leynileg.

Af sigri viljans

Með góðum vilja er hægt að finna svona út (komment af bloggi Davíðs Stefánssonar):

Þú hlýtur að sjá að ástandið í þjóðfélaginu er mikið verra nú en fyrir tveimur árum. Og hverjum er það að kenna? Flokknum sem var hent burt úr ríkisstjórn fyrir tveimur árum?

Eða flokkunum sem eru búnir að sitja í ríkisstjórn síðan?

Hvernig í ósköpunum geta menn sannfært sig um svona vitleysu? Halda menn til dæmis að í kreppunni eftir hrunið 1929 þá hafi allt verið verst fyrstu mánuðina? Nei, að sjálfsögðu ekki. Hún varð mikið verri áður en ástandið fór að batna. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn fór frá þá voru áhrifin einfaldlega rétt byrjuð að koma fram.

Trúir svona fólk í alvörunni þvælunni úr sjálfu sér?

Bjarni Harðar og smölunin

Það þarf ekki að minna fólk á að það hvernig Bjarni Harðarson sturtaði sjálfum sér út af þingi með því að stinga félaga sinn í bakið. Því miður skolaði honum síðan á strendur VG og af einhverjum ástæðum komst hann á lista. Sorglegt en satt. En Bjarni er ekki hættur að plotta. Eftir að hafa birt færslu gærdagsins um aðferðir Evrópuandstæðinga við að taka yfir VGR fékk ég sögu.

Í síðustu viku var Bjarni Harðar á N1 á Ártúnshöfða mjög æstur að tala í símann og sagði „það verður bara að smala, þið verðið að smala á þetta helvíti“.

Reyndar hélt sá sem heyrði þetta að Bjarni væri að tala um smölun á þing ungra Framsóknarmanna um helgina en þar voru Evrópuandstæðingar líka að reyna að taka yfir. Sjálfur tel ég líklegra að Bjarni hafi verið að plotta um smölun á aðalfund VGR. Ég get ekkert fullyrt um sannleiksgildi sögunnar en ég veit að ungum Framsóknarmönnum brá við þetta.

Það er svo frábært að Bjarni Harðar sé kominn í VG.

Hverjir tóku yfir VGR?

Fyrir aðalfund VGR tók ég eftir að Facebook vinur minn Hjalti Sigurðsson boðaði komu sína þangað. Ég hélt satt best að segja að þetta væri brandari þar sem Hjalti er stjórnarmaður í Frjálshyggjufélaginu. En það var fyrir fundinn. Svona var greinilega smalað. Hjalti kom væntanlega á fundinn til að styðja félaga sína úr Ísafold, félagi ungra ESB andstæðinga, í kosningunum.

Svo heldur fólk því fram að það hafi verið einhver „grasrót“ sem mætti þarna á fundinn. Skítabrögð og ekkert annað. Á í alvörunni að fara að stunda SUS aðferðir í VG (og fá SUSara í flokkinn til að kenna þær almennilega)? Ég get bara ekki trúað því að meðlimir VG samþykki að þessar aðfarir.