Hvernig dó He-Man?

Ég var að horfa á þættina The Toys That Made Us á Netflix. Mér þótti auðvitað mest spennandi að horfa á þáttinn um Masters of the Universe. Það voru leikföng minnar kynslóðar. Við sem vorum aðeins of ung til að ná öllu Star Wars dótinu.

Það skýrðist margt í þáttunum. Í fyrsta lagi þá var hugmyndin aldrei að þetta væri hópur sem myndaði samstæða heild sem þreifst í einum ákveðnum heimi. Þetta var svona hippsum happs. Það var bara reynt að búa til eitthvað sem myndi höfða til stráka. Síðan var ákveðið að láta litlu teiknimyndablöðin sem fylgdu með móta baksöguna. Svo voru teiknimyndirnar framleiddar af allt öðru fólki sem bjó til öðruvísi heim og bjuggu til persónuna Adam sem gjörbreytti He-Man. Það er líka magnað að Skeletor byggi á reynslu teiknara af því að sjá alvöru beinagrind. En það sem var áhugaverðast voru pælingarnar um hvers vegna leikföngin hættu skyndilega að seljast.

Ég vil þó byrja á að vísa á hinn dásamlega vef He-Man.org þaðan sem ég stal öllum þessum myndum. Þar er hægt að finna myndir af eiginlega öllu sem gefið hefur verið út af þessum leikföngum og upplýsingar um allt sem þessu tengist.

Fyrsta kynslóð

Upprunalegi He-Man
Upprunalegi He-Man

Upprunalegi Skeletor
Upprunalegi Skeletor

Stratos var kannski ekki svo merkilegur en hann Starri frændi minn náði einhvern veginn að gera hann goðumlíkan
Stratos var kannski ekki svo merkilegur en hann Starri frændi minn náði einhvern veginn að gera hann goðumlíkan

Man At Arms
Man At Arms

Sú skýring sem mér fannst ríma best við mína reynslu var að framleiðandinn, Mattel, hafi lagt of mikla áherslu á að búa til nýjar fígúrur í stað þess að framleiða fleiri af grunntýpunum. Ég fékk minn fyrsta Masterskall jólin 1984. Það var Trap Jaw sem var fyrsta persónan af annarri kynslóð. Hann er ótrúlega flottur en ég eignaðist aldrei upprunlega He-Man. Ég fékk í staðinn He-Man sem var hægt pota í þannig að það birtust rispur á honum.

Ég eignaðist ekki heldur upprunalegan Skeletor. Það var áberandi gap í annars glæsilegu safni. Það voru fleiri af þessum upprunalegu fígúrum sem maður get aldrei fengið. Þeir sem voru yngri en ég hafa væntanlega átt enn erfiðara en ég að eignast þessa kalla.

Önnur kynslóð

Ram-Man þótti mér alltaf frekar asnalegur en það var hægt að ýta honum niður og skjóta honum aftur upp.
Ram-Man þótti mér alltaf frekar asnalegur en það var hægt að ýta honum niður og skjóta honum aftur upp.

Evil-Lyn vakti ákveðnar hvatir hjá mér
Evil-Lyn vakti ákveðnar kenndir hjá mér

Man-E-Faces (ég átti tvo svoleiðis)
Man-E-Faces gat skipt um andlit (ég átti tvo svoleiðis)

 Tri-Klops
Tri-Klops gat skipt um auga

Þriðja kynslóð

He-Man varð ekki hetjulegri við að fá brynju
He-Man varð ekki hetjulegri við að fá brynju

Kobra Khan gat spítt vatni.
Kobra Khan gat spítt vatni.

Orko gat dansað um þegar hann hafði verið trekktur upp.
Orko gat dansað um þegar hann hafði verið trekktur upp.

Buzz-Off var vængjaður
Buzz-Off var vængjaður

Vandinn við nýrri fígúrur var líka að þær komu ekki fram í upprunalega teiknimyndunum. Þessar teiknimyndir voru grunnatriðið í allri markaðsetningunni. Hordak og aðrar persónur sem komu fram í myndinni The Secret of the Sword (sem fjallar um He-Man og tvíburasystur hans sem heitir She-Ra) voru í raun nægilega kynntar til að gera þær spennandi.

Hordak og Snákmenni (fjórða og fimmta kynslóð)

Hordak var flottur vondur kall
Hordak var flottur vondur kall

Grizzlor er eins og Beast-Man á sterum og hárvaxtarkremi
Grizzlor er eins og Beast-Man á sterum og hárvaxtarkremi

Ég á Rattlor ofan í kassa. Hann gat skotið höfðinu fram
Ég á Rattlor ofan í kassa. Hann gat skotið höfðinu fram

 Tung Lashor
Tung Lashor

En það komu fullt af fígúrum sem ekkert voru kynntar. Hugmyndir voru líka margnýttar þannig að það voru t.d. tveir kallar sem bjuggu yfir þeim frábæra hæfileika að breyta sér í stein og tveir kallar sem voru búnir til úr mörgum pörtum.

Endurtekningarsöm fimmta kynslóð

Stonedar
Stonedar

Rokkon
Rokkon

Multi-Bot
Multi-Bot

Modulok var upprunalegi partakallinn
Modulok var upprunalegi partakallinn

Leikföngin sem tengdust Dolph Lundgren myndinni voru jafn ómerkileg og myndin sjálf ku vera. Ég hef sjálfur látið vera að horfa á myndina. Það eitt að sjá hve asnalegir He-Man og Skeletor eru var nóg til að gera mig afhuga henni.

 

Sjötta og versta kynslóðin

Gwildor - Orko fátæka mannsins
Gwildor – Orko fátæka mannsins

Egg sem breytist í asnalegt tígrisdýr
Egg sem breytist í asnalegt tígrisdýr. Þriðja flokks Transformer.

Mosquitor
Mosquitor er reyndar eftirlætið mitt af þessari kynslóð. Hann „saug“ blóð og bringan hans varð rauð.

Þegar Masters voru upp á sitt besta þá var það mögnuð tilfinning að koma inn í Sigga Gumm og skoða alla kallana sem voru í boði. Ég man hins vegar eftir vonbrigðunum sem ég fann fyrir þegar ég kom inn í leikfangadeildina í Amaró, líklega árið 1989, og sá nýju útgáfuna af He-Man og Skeletor. Það var gjörsamlega búið að eyðileggja þá. Ég var tíu ára og áttaði mig á að þeirri gleði að eignast nýja Masterskalla væri endanlega lokið.

Nýi He-Man

Ljóti He-Man
Ljóti He-Man

Ekki ógnvekjandi Skeletor
Ekki ógnvekjandi Skeletor

 

Rick & Morty og He-Man

Roboto var uppfullur af tannhjólum sem snerust fram og til baka
Roboto var uppfullur af tannhjólum sem snerust fram og til baka

Gearhead í Rick & Morty er af plánetu sem er full af fólki sem eru uppfullt af tannhjólum.
Gearhead í Rick & Morty er af plánetu sem er full af fólki sem eru uppfullt af tannhjólum.

 

Mjög svo pólitískt rangi öskudagurinn minn

Árið 1985 vildi ég vera ofurhetja Öskudaginn. Ég hef ekki hugmynd um hvað hún hét en ég hafði þá nýlega séð mynd á videospólu um þessa ofurhetja. Það eina sem ég veit núna er að ofurhetjan var svört og með skikkju. Þannig að ég var málaður brúnn í framan þó ekki alveg í blackface hefðinni. Fyrir nokkrum árum var mynd af mér í þessum búningi á Amtinu ásamt öðrum börnum af Pálmholti. Farðinn var þveginn af mér og þegar átti að halda „ball“ eftir hádegi þá neitaði fóstran að mála mig aftur. Henni fannst of mikill farði fara í það. Ég fór í fýlu en mundi síðan að við höfðum nokkru áður föndrað indíanahöfuðskraut. Ég setti það því á mig og lék indíána á ballinu.

Gagnsleysi hugrekkisins

Ef ég hef einhvern tímann á ævinni verið hugrakkur þá var það þegar ég var í tíunda bekk. Þá sat ég, eins og svo oft, í „skákstofunni“ í frímínútum. Ég heyrði að það var eitthvað um að vera frammi og fór þangað. Ég sá á að það var búið að lemja strák þannig að hann var kominn með blóðnasir og sá sem það gerði ætlaði greinilega að lemja hann meira.

Ég stökk á milli og ýtti þessum árásargjarna í burtu. Einhvern veginn tókst mér þetta án þess að vera laminn sjálfur og þrátt fyrir að vera kannski bara örlítilli skör hærra í samfélagi nemenda en drengurinn var verið að lemja. Hann hafði í mörg ár orðið fyrir heiftarlegu einelti. Ég tók líka eftir á og þurrkaði blóðið sem hafði farið á gólfið svo krakkarnir hefðu ekkert til þess að stara á.

Seinna um daginn gekk drengurinn sem var verið að ráðast á framhjá mér og hvíslaði eitursnöggt, án þess að líta í augun á mér: „Takk“.

Ég var lengi stoltur af þessu þó ég hafi ekki sagt nema örfáum frá þessum. Stoltið hvarf þegar drengurinn framdi sjálfsmorð 23 ára því þá sá ég hvað þetta var lítils virði fyrir hann í raun. Hann náði sér aldrei eftir það helvíti sem grunnskólinn var honum.

Þú ert hommi!

Ég man þegar ég var í Gagganum líklega um 14 ára) og ein bekkjarsystir mín, köllum hana Siggu, kallaði mig homma. Ég hafði þá þegar áttað mig á því að það væri í raun ekkert að því að vera hommi og tók því þessu ekkert illa. Ég vissi samt að hún var að reyna að móðga mig og ákvað að snúa þessu upp á hana og benti henni á að ég hefði fyrir nokkru heyrt hana tala um Pál Óskar og syrgja það að allir hommar væru svo agalega sætir. Ég sagði að hún hefði í raun verið að kalla mig sætan og þakkaði henni hólið.

Ég sá á svipnum hennar að hún fattaði ekkert hvað ég var að fara, hún gat einhvern veginn ekki tengt þetta saman. Um leið hvarf skemmtun mín af þessu hnyttna tilsvari. Ef Sigga hefði skilið hvernig ég hafði snúið þessu við þá hefði hún orðið fúl við mig en hún varð bara ringluð. Væntanlega hefði hún orðið reið ef ég hefði bara sagt á móti að hún væri „tík“ eða „hóra“ en það hefði bara ekki verið minn stíll.

Lexían sem ég lærði þennan dag var að það er ekkert gaman að eiga við fólk sem er mikið heimskara en maður sjálfur því það fattar almennt ekki þegar það hefur tapað. Rétta svarið við því þegar einhver kallar mann homma í von um að móðga mann er því augljóslega „whatever“. Síðan getur maður snúið sér að einhverju áhugaverðara.

22222

Þegar ég var nýfluttur í Melgerði 6 ára gamall þá var ég að leika mér með síma sem var fyrir í húsinu. Við héldum að hann væri óvirkur og ótengdur. Ég tók með því til og hringdi í símanúmer sem ég þekkti vel en hefði aldrei þorað að hringja í. Númerið var 22222. Mér brá þegar svarað var hjá Slökkviliðinu á Akureyri. Ég stundi út úr mér að ég hefði hringt í vitlaust númer. Viðmælandi minn sagði að sér hefði grunað það.

Ég held að ég hafi aldrei sagt neinum frá þessu en mér brá svo þegar svarað var að þetta festist í mér.

Samningaviðræður

Á mínum yngri árum seldi ég fyrsta maí merki í nokkur ár. Eitt árið sannfærði ég þá sem sáu um þetta að hækka hlut sölubarna í hagnaðinum. Úr 25 í 35 krónur fyrir hvert selt merki, ef ég man rétt. Kannski bara í 30 krónur. Þegar ég hafði sannfært umsjónarmanninn um þetta þá sagði hann eitthvað á þá leið að kannski ætti að senda mig til að semja við Einar Odd.

Eiturefnalaus

Einu sinni vann ég hjá Efnaverksmiðjunni Sjöfn sem nú er Mjöll-Frigg. Meðal þess sem ég gerði þar var að fylla á klórbrúsa. Ég var ekkert að vinna með klórgas og ég er ekki einu sinni viss um að það hafi verið gert á þeim tíma. Ég veit að það var gert hér áður en ég vann þar vegna þess að yfirmaður minn sagði mér sögu af því þegar hann varð fyrir eitrun á níunda áratugnum. Viðbrögðin á þeim tíma voru að senda hann heim, keyrandi. Ætli sá sem varð fyrir eitrun núna hafi unnið með mér þarna á sínum tíma?

En það eru nærri átta ár síðan ég var að vinna með eiturefni á hverjum degi. Núna sit ég hér í framhaldsnemarýminu í Odda og þarf ekkert að óttast nema þungt loft og lélegar Strætósamgöngur.

Gömul auglýsing

Það að búið sé að skanna inn Dag út árið 1980 er frábært. Ég er búinn að vera að dunda mér við að skoða blaðið og fann þessa dásamlegu auglýsingu.

sjonvarp.jpg

Þetta er semsagt (eins og) gamla sjónvarpið okkar. Auglýsingin er frá maí 1979.

Óhóf SÓ

Ég fór á fyrirlestur áðan um Óhóf.  Aðalástæðan fyrir því að ég fór þangað var að fyrirlesarinn var hann Sigurður Ólafsson heimspekikennari úr M.A..  Þrátt fyrir harða samkeppni frá Þorláki Axel og Láru Ágústu þá er SÓ, eins og hann var jafnan kallaður, uppháldskennarinn minn úr M.A..

Þegar SÓ kenndi mér þá barst hann reglulega í tal þegar ég kom í mat til afa og ömmu.  Við eigum nefnilega sameiginlegan langafa, hann Gunnlaug Daníelsson.  Það var nokkuð skondið að heyra ömmu tala um hálffimmtuga kennarann minn sem „Sigga litla sem var alltaf í svo miklu uppáhaldi hjá ömmu sinni“.

Fá framhaldsskólanámskeið sem hafa haft meiri áhrif á mig en heimspekin hjá SÓ. Í kúrsinum sem ég sótti síðustu helgar þá var gott að hafa grunn í Kant og geta vitnað í „das ding an sich“ og „das ding an mich“.  Kant var annars með skrýtinn haus.

Fyrirlesturinn var skemmilegur.  Byrjaði á skemmtilegri upprifjun á Aristótelesi og Platóni.  Síðan tókst hann á flug og kom með fjölmargar skemmtilegar athugasemdir um óhóf sem var efni fyrirlestursins.  Eftir á fór ég og þakkaði honum snöggt fyrir og hann heilsaði mér með nafni.  Þótti vænt um það.

Ég ætlaði reyndar að kíkja á þennan sama fyrirlestur hjá SÓ þegar ég var í M.A. um daginn en hafði ekki tíma.  Það hefði verið gaman að fá lesturinn í Gamla skóla.

Fluttur í Odda

Á morgun flyt ég um set. Reyndar bara með bækurnar mínar og önnur lærdómstól. Ég hef fengið úthlutað aðstöðu á þriðju hæðinni í Odda. Vona að ég nýti mér það sem skyldi og að duglegheitin flæði frá mér.

Mér þykir vænt um Odda, þetta er mín bygging. Ég held að ég hafi síðast setið áfanga í húsinu haustið 2005 en samt eyði ég frítíma mínum á Háskólasvæðinu yfirleitt þar. Árnagarður er svona númer tvö en samt nenni ég eiginlega ekkert að vera þar. Áður en Tommi fékk sjálfur aðstöðu á þriðju hæðinni þá mátti næstum alltaf treysta því að hann væri á annarri hæðinni. Þá gat maður sagt við fólk sem maður var að mæla sér mót við að það ætti bara að hitta mig hjá Tomma. Þjóðfræðinemar eru líka yfirleitt þarna á svæðinu þó þeir séu oftar í kennslustundum annars staðar.

Augljóslega má rekja rætur væntumþykkju minnar til Odda til þess þegar ég var í bókasafns- og upplýsingafræði. Oddi 201 var aðalstofan en Anne Clyde var með fyrirlestrana yfir okkur í 101 og tölvutíma í 301. Alltaf á sama stað á mismunandi hæðum. Við Eygló rifjuðum upp í gær það þegar við aumir BA-nemarnir vorum að fara í tölvustofuna og sáum þar þetta afgirta svæði, ekki bjóst ég við að enda þar innan dyra.

Reyndar ná tengsl mín við Odda aftur á síðustu öld. Þar fékk ég fyrst að leika mér frjáls á internetinu án þess að þurfa að hafa aðra yfir mér. Ég fékk notendanafnið og passwordið hennar Hafdísar og vafraði um. Malkavian web page var uppáhaldið mitt þá og hún er ennþá til núna cirka 13 árum seinna! Það er ending. Ég prufaði líka ircið og endaði á #Queen sem ég sótti reglulega þar til ég hætti að neta að irca sirka 2002. Á rásinni kynntist ég stelpu sem hét, og heitir vonandi enn, Eygló. Ekki sú Eygló sem ég kynntist seinna á ircinu, sú er nokkrum árum yngri en ég á meðan þessi var eldri.

Þetta varð allt í einu trip down memory lane. Alveg óvart. En ég flyt vonandi á morgun í þessa byggingu sem höfðar svona sterkt til mín.  Ég ætlast reyndar til þess að fólk noti tækifærið og heilsi reglulega upp á mig, ég ætla ekki að úldna í lærdómnum þarna uppi.  Ég hef þegar tilkynnt Telmu að það megi nota mig sem félaga þegar hún röltir um með barnavagninn.