Queenplötur dæmar – 8. Queen (1973)

QueenÁ miðjum listanum, í áttunda sætinu, fær fyrsta platan Queen frá 1973 með Queen að dúsa.

Keep Yourself er fyrsta smáskífa Queen og fyrsta lagið á fyrstu plötunni. Það er ekki hægt að segja annað en að það gefi fögur fyrirheit (sem staðið var við). Kraftmikið rokklag.

Doing Alright er fyrsta, og lengst af, eina lagið sem var ekki eingöngu eftir Queenmeðlima. Þetta er líka eina lagið sem kemur frá tíma Roger og Brian í Smile. Það er sumsé eftir Brian og Tim Staffell. Það er líka til upptaka af þessu með Smile. En já, rólegheit og dynjandi rokk. Alveg Queenhljómurinn.

Ég ætti næstum að færa plötuna ofar á listann til heiðurs Great King Rat og afmælisdegi hans. En Great King Rat er frábært rokklag. Það skiptir oft um gír og væri besta lag Freddie á plötunni ef ekki væri fyrir….

My Fairy King er besta lag plötunnar. Þarna sýnir Freddie það sem hann gat gert. Lagið er kaflaskipt proggrokk. Það minnir eiginlega helst á Uriah Heep. En ég elska það gjörsamlega. Þarna tekur Freddie líka og býr til umgjörð utan um nafnaskipti sín.

Og Liar er já frábært líka. Maður getur bara stoppað skriftirnar og notið þess að hlusta, sérstaklega um rétt rúmlega fimm mínútna markið. Var Queen þungarokkshljómsveit sem spilaði líka popp?

The Night Comes Down er með texa sem ég náði að misheyra svoltið oft, það vantaði mjög innilega textana með disknum. En ég fattaði alltaf “Lucy was high, and so was I”. Mjög týpískur Brian texti að öðru leyti. Hljómar eins og maður sé í öðrum heima. Elsta upptakan sem lenti á stúdíóalbúmi því þarna var notast við upptökurnar sem Queen gerði þegar þeim var boðið a prufukeyra De Lane Lea upptökuverið.

Modern Time Rock ’n’ Roll er allt önnur skepna. Samið af Roger og er að mestu laust við dúlleríið sem Freddie og Brian voru í, bara blátt áfram rokklag. Texti er stórskemmtilegur:

Get you high heeled guitar boots and some groovy clothes
Get a hair piece on your chest
And a ring through your nose
Find a nice little man who says
He’s gonna make you a real big star
Stars in your eyes and ants in your pants
Think you should go far

Son and Daughter er svoltið blússkotið, næstum Sabbathlegt á köflum. Textinn er skrýtinn og, eins og í nokkrum öðrum lögum, hugsar maður hvort uppeldi Brian hafi verið eitthvað undarlegt.

Jesus fjallar um Jesús en er samið af Freddie sem var alinn upp í parsatrú. Reyndar gæti hann þegar þarna hafa orðið veikur í trúnni enda búinn að vera í enskum heimavistarskóla í mörg ár líklega með tilheyrandi trúarinnrætingu.

Seven Seas of Rhye er ekki fræga útgáfan. Hin lögin á plötunni voru frekar dæmi um það sem Queen hafði verið en þetta átti að gefa hugmynd um hvaða leiðir hljómsveitin væri að fara á næstunni. Það er sumsé ekkert sungið í þessari útgáfu.

Queenplötur dæmdar – 9. Jazz (1978)

JazzÍ níunda sæti er það Jazz. Frægt er að húmorslaus gagnrýnandi Rolling Stone dæmdi plötuna á þá leið að Queen væri fasísk hljómsveit. Húmorsleysi er auðvitað gulltryggð leið til að fatta ekki Queen. Það á líka innilega við um Jazz sem er svo frábærlega fyndin á köflum.

Mustapha byrjar plötuna af þvílíkum krafti með hálfgerðu bænakalli. Ég man ekki eftir öðru lagi þar sem Freddie sýnir rætur sínar jafn ljóst. Allavega er ljóst að þarna er hljómur sem hann kannaðist við frá æsku sinni á Zanzibar. Textinn er á arabísku, ensku og líklega þar að auki á tungumáli Parsa. Ég reynt að lesa mér til og hef svona samanlagt fengið þýðingu á því og hef ályktað að textinn hafi í raun enga beina merkingu. Líklega er hann frekar ætlaður til að skapa stemmingu heldur en nokkuð annað. En flott er lagið.

Fat Bottomed Girls er eftir Brian May, sem kemur á óvart því svona ósvífni í textagerð hefði maður eiginlega frekar tengt við Roger eða Freddie. En lagið er fyndið og skemmtilegt rokklag. Spinal Tap hæddist auðvitað að þessu lagi og fengu síðan að koma frá á minningartónleikunum hans Freddie sem sýnir kannski best húmorinn sem Queen hefur fyrir tónlist sinni.

Jealousy er lag um ástarsorg og afbrýðissemi. Í lagi er hálfgerðu sítartónn sem er auðvitað bara Brian að leika sér á gítar. Yndislegt.

Bicycle Race er æðislegt og æðislegt. En þegar ég er að hjóla kemur það aldrei á frábæru köflunum þar sem ég þýt niður brekkurnar heldur þegar ég er að fara upp þær og er ekki jafn hvetjandi og maður myndi ætla. Uppáhaldskaflinn minn er þegar reiðhjólabjöllurnar hljóma. Það er svo undarleg hugmynd að fá og framkvæma. Lagið kallast síðan á við FBG og FGB kallar á móti enda enduðu lögin saman á smáskífu.

If You Can’t Beat Them er enn og aftur hratt og skemmtilegt rokklag.

Let Me Entertain You er Queen að hæðast að sér. Rokk af matseðlinum. Ákall um að taka tónlistina ekki of alvarlega. En um leið er þetta stefnuyfirlýsing um að þeirra helsta hugðarefni sé að skemmta áhorfendunum. Þar sáu þeir sig sem uppreisn gegn þeim sem helst spiluðu án þess að líta í augun á þeim sem hlustuðu. En er til betri leið til að byrja tónleika en á þessu lag? Ég held bara ekki.

Dead on Time er áfram hratt rokk. Það er ákafi í þessu lagi.

In Only Seven Days skiptir um gír og er hálferkitýpískt og ljúft Deacon lag.

Það vottar fyrir djassi í The Dreamer’s Ball. Eini djassinn á Jazz. En það er líka draumkennt. Saga af ást sem ekki rætist nema í draumi.

Fun it er fyrsta diskó/fönk tilraun Queen og er merkilegt nokk eftir Roger Taylor. Skemmtilegt en mögulega slakasta lagið á plötunni. Roger á bæði einstaklega góða og einstaklega slaka texta. Þessi er ekki sérstaklega góður.

Leaving Home Ain’t Easy er aftur gírskipti. Kannski er platan eins og Tour de France þar sem þarf að skipta reglulega upp og niður til að klífa upp og niður hæðir. Ljúft lag sem er í uppáhaldi. Sungið af Brian.

Og ef þú þarft að komast í stuð þá er Don’t Stop Me Now auðvitað málið. Ég hélt að það héti Mr. Fahrenheit og var eitt af Queenlögunum sem var þegar í uppáhaldi hjá mér áður en ég varð aðdáandi.

More of that Jazz er lag sem maður hlustar kannski ekki nóg á. Það er kannski af því að það notar klippur úr öðrum lögum plötunnar og er því frekar eins og einhver eftir-á hugsun. En þetta er einn af góðum textunum hans Roger og hann syngur sjálfur og sýnir hvað hann getur.

Only football gives us thrills
Rock ‘n roll just pays the bills
Only our team is the real team

Jazz átti að fara í tólfta sætið en ég þarf að endurskoða þau plön. Þetta er betri plata en mig minnti.

Queenplötur dæmdar – 10. The Works (1984)

The WorksÍ tíunda sæti er The Works frá 1984. Þar eru fyrstu Queenlögin sem ég man eftir. Það eru Radio Ga Ga og I Want to Break Free. Ég var rétt rúmlega fimm ára þegar platan kom út og á þeim tíma sá maður tónlistarmyndbönd í sjónvarpsþættinum Skonrokk. Auðvitað man maður eftir I Want to Break Free, sem mér þótti auðvitað stórfyndið, og óljóst eftir Radio Ga Ga.

Radio Ga Ga var lagið sem innsiglaði sérstöðu Queen sem hljómsveitar þar sem allir meðlimirnir höfðu samið metsölulag. Vegna þess hve kjánalegt viðlagið er þá er auðvelt að líta framhjá því að textinn hans Roger er mjög góður. Hann er nostalgía og gagnrýni í senn. Betra lag en flestir myndu telja.

Tear it up er skemmtilegt rokklag með skemmtilegum texta. Þetta er bein tilraun Brian May til að fá aftur í lið með sér aðdáendurnar sem þoldu ekki diskódaðrið.

It’s a Hard Life byrjar á vísun í óperuna Pagliacci. Textinn fjallar um ástarsorg og er bara frábær yndislegur, eins og lagið allt. Stórgott. Eitt af þeim allra bestu.

Man On The Prowl er Freddie að snúa aftur í rokkabillífílinginn sem virkaði svo vel í Crazy Little Thing Called Love. Textinn er hressilegur og fyndinn.

Well I keep dreaming about my baby // But it ain’t gonna get me nowhere // I wanna teach my baby dancin’ // But I ain’t no Fred Astaire.

Machines (Or ‘Back to Humans’) er mjög fyndið og betra en mig minnti. Það tilheyrir alveg flokki laga sem fjalla um ótta við tölvur og tækni. Mögulega má túlka þetta sem gagnrýni Roger og Brian á stefnubreytingu Queen þegar þeir sneru baki við hljóðgervlabanninu. Hápunktur lagsins er stórkostleg upptalning Freddie á tölvudjargoni.

I Want to Break Free er óvenjulegt fyrir að lagið á plötunni er í allt annarri útsetningu en á smáskífunni (eina annað svona lagið sem ég man eftir er Flash). Þessi útgáfa byrjar á kassagítarhljómi en smáskífan er með hljóðgervlaintró. Myndbandið er eiginlega frægara en lagið en það má ekki gleyma lagið er gott.

Keep Passing the Open Windows var samið fyrir myndina Hotel New Hampshire sem Jim Beach, umboðsmannsígildi Queen, framleiddi. Af einhverjum ástæðum endaði lagið ekki í myndinni (myndin er ekki beint léleg en rosalega sérstök). Textinn er byggður á frasa úr myndinni/bókinni og fjallar um baráttu við sjálfsmorðshugsanir, sumsé að ganga framhjá opnum gluggum í stað þess að fleygja sér út um þá. Lagið er alltaf í uppáhaldi hjá mér.

Hammer to Fall er klassískt rokklag og fjallar um það að alast upp í hræðslunni við kjarnorkustyrjöld eins og við gerðum flest.

Is This the World We Created…? er eftir Brian og Freddie og þeir taka lagið bara tveir, kassagítar og söngur. Einfalt með dapurlegum texta. Þeir tóku það á Live Aid árið eftir. Mjög gott.

Queenplötur dæmdar – 11. A Kind of Magic (1986)

A Kind Of MagicA Kind of Magic frá 1986 lendir í 11. sæti. Platan byggir að mestu en ekki eingöngu á lögum úr Highlander. Þarna er farin önnur leið en í fyrra skiptið og lögin eru fullsköpuð. Það á annars það sama við um þessar tvær myndir. Þær væru allt aðrar myndir ef ekki fyrir aðkomu Queen.

One Vision opnar plötuna. Ágætt lag en aldrei beint í uppáhaldi. Húmorinn að enda á steiktum kjúkling.

A Kind of Magic fellur í sama flokk. Ofspilun?

One Year of Love var í töluverðu uppáhaldi en ég hlusta lítið á það í seinni tíð.

Pain is so Close to Pleasure er svo súrt og undarlegt lag. Þarna eru Freddie og John að dúlla sér saman og það gengur ekki jafn vel og það gerði t.d. á The Miracle. Eitt slakasta lag Queen og dregur plötuna niður. En ef maður er í kjánalegu skapi er rosalega gaman að syngja með í falsettunni.

Friends Will Be Friends missir stig fyrir frekar hallærislega væminn texta.

Who Wants to Live Forever er óumdeilanlega besta lag plötunnar og auðvitað eitt besta lag Queen. Lagið nær sorginni sem er svo undirliggjandi í Highlander án þess þó að beina lagið of fast við myndina. Það er vel hæg að fella tár við lagið. Það fer líka frá því að vera rólegt og einfalt yfir í að verða stórt og mikið. Annars er skondið að Brian Blessed fór með þessa línu í Flash Gordon og hún heyrist meiraðsegja á plötunni.

Gimme the Prize (Kurgan’s Theme) er þemalag óþokkans í Highlander. Þetta er kraftmikið þungarokk. Það notast við klippur úr myndinni til að skapa stemmingu. Það tekst mjög vel. Sekkjapípukaflinn er líka stórfenglegur. Þetta er í miklu uppáhaldi.

Don’t Lose Your Head er veiki punkturinn á þessari hlið plötunnar. Lagið er betra en textinn sem byggir á frösum frekar en góðri heild.

Princes of the Universe er eiginlega Highlander lagið því það var notað vel og vandlega í þáttunum og myndunum sem fylgdu. Líkt og Gimme the Prize er þetta skemmtilegt keyrandi þungarokkslag, ekki jafnt þungt þó og hið fyrra, en byggir á sömu ýktu hörkunni. Þetta eru lög sem maður vill hafa þegar maður er að hjóla upp brekkur (í eiginlegri og óeiginlegri merkingu).

Það voru þrjú aukalög á geisladiskaútáfunni, tvær lengdar og óspennandi útgáfur og Friends Will be Friends og A Kind of Magic. Píanóútgáfan af Who Wants to Live Forever sem kallast Forever er hins vegar falleg og góð.

Queenplötur dæmdar – 12. The Miracle (1989)

The MiracleÞetta er orðið rosalega erfitt. The Miracle lendir í tólfta sæti eftir hrikalega erfiða baráttu. Fyrsta Queenplatan sem ég hafði aðgang að því Hafdís systir átti hana. Eina Queen platan sem ég hafði á hljómplötu.

Það er engin sérstök ástæða til að tala um Party og Khashoggi’s Ship í sitt hvoru lagi. Fyrra lagið flæðir beint í það seinna og textarnir parast líka saman. Þetta eru lög sem komast aldrei á neinn topplista yfir Queenlög en þau eru skemmtileg stuð rokklög og opna plötuna vel.

The Miracle er frábært lag sem er ekki í uppáhaldi hjá mér. Það getur stundum farið í taugarnar á mér þó það sé gott. Á öðrum tímum get ég hlustað á það og notið þess í botn. Strákurinn sem lék Freddie í tónlistarmyndbandinu fór á sínum tíma í taugarnar á mér. Líklega aðallega öfund. Nema að hann sé í raun óþolandi gerpi. Hver veit.

I Want it All er bara eitt besta rokklag sem gert hefur verið. Auðvitað getur maður tekið þessa hörkulegu karlmennsku frekju alvarlega eða maður getur tekið henni, eins og ég tel að eigi að taka henni, með tungu í kinn. Síðan er auðvitað rólegur kafli í miðjunni sem sýnir enn og aftur Queen blanda saman stílum.

Ég hef aldrei skilið hvernig The Invisible Man varð að smáskífu og að hún hafi orðið vinsæl. Þetta er voðalegt miðlungs lag. Ekki óskemmtilegt en ekkert frábært.

Það að note lest í myndbandinu við Breakthru á svo ótrúlega vel við. Takturinn er eins og lest. En þetta eru í raun tvö lög. Fyrst er bútur úr A New Life is Born sem við vonum innilega að sé til í heild sinni einhvers staðar og verði að lokum gefið út. En Breakthru sjálft er auðvitað skemmtilegt lag.

Rain Must Fall er ekkert tónlistarafrek en skemmtilegt. Dáltið týpískt fyrir lög sem John og Freddie gerðu saman.

Scandal er ádeila á bresku slúðurpressuna. Ekki endilega besta lagið en í töluverðu uppáhaldi hjá mér. Það er dulítill 80s tónn í laginu.

My Baby Does Me er aftur John/Freddie. Einfalt bassadrifið popplag. Svoltið síns tíma en vinnur á. Ég fílaði það eiginlega alls ekki fyrst þegar ég heyrði það en það voru mögulega áhrif frá einhverjum sem var ekki með jafn víðan tónlistarsmekk og ég var að ala með mér.

Was it All Worth it er Freddie að kveðja. Hann er bókstaflega að svara spurningunni. En lagið er í mjög miklu uppáhaldi hjá mér. Þetta er besta lagið á plötunni. Þetta er harkalegt rokk og hljóðgervlasinfonía. Yndislegt.

Yes, it was a worthwhile experience, it was worth it.

Hang on in there er fyrsta af þremur aukalögum sem voru á geisladiskaútgáfunni. Þetta er rokklag sem hefði alveg eins getað verið á plötunni. Bara skemmtilegt.

Chinese Torture er svoltið dökkt lag þar sem Brian er að leika sér með gítarinn. Enginn söngur. Voðalega skrýtið lag.

Síðasta lagið á geisladisknum en 12″ útgáfan af The Invisible Man sem er almennt talin betri en sú sem var á aðalplötunni. Jájá, það passar svo sem en þetta lag verður aldrei uppáhalds.

Queenplötur dæmdar – 13. The Game (1980)

The GameThe Game frá 1980 lendir í 13da sæti hjá mér sem mörgum gæti þótt grimmt en ég sé ekki ástæðu til að hækka plötuna upp. Hún er raunar, vegna góðrar sölu í Bandaríkjunum, ein mest seld plata hljómsveitarinnar. Nú gætu lesendur haldið að ég hafi eitthvað á móti diskódaðri Queen en svo er ekki. Kannski eru það hljóðgervlarnir sem pirra mig en ég er samt hrifinn af þeim þegar vel er unnið með þá. Eru það áhrifin frá Mack sem mér líkar ekki við?

Platan byrjar á Play the Game. Ég er einhvern veginn á tveimur áttum með það, kannski er það gott en kannski bara ágætt. Mögulega er það bara eftir skapinu mínu.

Á plötunni eru nokkur lög sem bera það með sér að þau hefðu getað verið frábær, eins og það vanti eitthvað í þau. Dragon Attack er eitt af þeim. Stórskemmtilegt lag en samt…

Það þarf ekki að segja mikið um Another One Bites the Dust. Ég náði einhvern tímann þeim árangri að læra textann alveg þannig að ég gat sungið hann með Freddie. Það er ekki auðvelt. Samkvæmt sögunni neyddi John, sem samdi lagið, Roger til þess að tromma mjög vélrænt til að ná þeim hljóm sem átti að vera í laginu. Hljómsveitin áleit lagið ekki líklegt til vinsælda en Michael Jackson sannfærði þá um að gefa það út sem smáskífu.

Það er svo margt gott við Need Your Loving Tonight en eitthvað vantar.

Það vantar auðvitað ekkert í Crazy Little Thing Called Love. Það er nærri fullkomið í sínum einfaldleika. Rokkabillílag sem Elvis hefði alveg getað sungið. Það hve einfalt lagið er, samkvæmt honum sjálfum, vegna takmarkaðra hæfileika Freddie til að spila á gítar en þetta er eitt af fáum lögum sem hann samdi þannig frekar en á píanó.

Rock it (Prim Jive) missir mig mögulega á línunni „You really think they like to rock in space?“ Það er annað af tveimur slökum lögum eftir Roger á plötunni.

Don’t Try Suicide eftir Freddie er svona slæmt gott lag. Kannski er það líka textinn sem fer í taugarnar á mér. En samt sem áður finnst mér hann skemmtilegur á köflum. Þversagnakennt.

Sail Away Sweet Sister er allavega besta lagið á plötunni sem ekki hefur ratað á smáskífu. Sungið af Brian sem samdi lagið líka. Mjög í ætt við hans stíl, sem er gott.

Coming Soon er óspennandi lag eftir Roger.

Save Me er hápunktur plötunnar. Textinn er hreint yndislegur og lagið sjálft dansar svo vel að vera einfalt og fallegt en líka dramatískt og kraftmikið eins og svo mörg af bestu lögum Queen.

„Each night I cry, I still believe the lie, I love you till I die“

Queenplötur dæmdar – 14. Hot Space (1982)

Hot SpaceÍ neðstneðsta sætinu er platan Hot Space frá árinu 1982. Það er varla hægt að ýkja hve hötuð þessi plata er (en auðvitað elska ég hana samt). Þeir sem gátu fyrirgefið diskódaður á The Game sögðu stopp þegar svo virtist vera að Queen hefði gert hreinræktaða diskóplötu. En hún er nú ekkert slíkt. Sumir hafa haldið fram að lagaröðin ein og sér hafi gert út af við plötuna. Fyrri hliðin (eða fyrrihlutinn fyrir okkur sem höfum bara hlustað á diska eða mp3) er nálægt því hreinræktað diskó/fönk/dans en sú seinni er meira bland. Aðrir nefna útsetningar. Frægast er að upphafslag plötunnar Staying Power var á tónleikum flutt með rokkkrafti sem féll betur í kramið hjá rokkaðdáendunum.

Platan hefur oft verið sögð hafa valdið miklum núningi milli annars vegar Freddie og John sem voru opnir og spenntir fyrir áhrifum frá diskó og fönki og hins vegar Brian og Roger sem voru meiri rokkarar. Það er þó þannig lögin Dancer (Brian) og Action This Day (Roger) eru alveg í línu við meginhljóm plötunnar. Hið síðarnefnda var þó spilað í rokkaðri í útgáfu á tónleikum.

Roger á líka að mínu mati slakasta lag plötunnar – Calling All Girls. Orðið sem lýsir því helst er metnaðarleysi. Það er ekki slæmt en bara óspennandi.

Back Chat eftir John Deacon er vanmetið. Þar tekst Queen eiginlega best til með þann stíl sem hljómsveitin er að vinna með á plötunni. Deacon vildi engan hefðbundinn rokkgítarhljóm í laginu en tapaði því stríði og Brian fékk að lauma inn smá sólói.

Body Language eftir Freddie er absúrd og eiginlega stórfyndið í sínum kynferðislega tón. Ég tel nokkuð viss um að húmorinn er þarna af ásettu ráði.

Hot Space er gefin út í skugga þess að John Lennon var myrtur rétt rúmu ári fyrr. Put Out the Fire eftir Brian er ákall um herta skotvopnalöggjöf í Bandaríkjunum og vísar beint í morðið. Life is Real er síðan óður Freddie til Lennon. Lagið nær að vera bæði í anda Freddie og Lennon. Textinn er einfaldur og vísar t.d. sterkt í lagið Love. Svipaðar vísanir eru að finna í laginu sjálfu þar sem píanó er í stóru hlutverki.

Music will be my mistress
Loving like a whore
Lennon is a genius
Living in ev’ry pore

Las Palabras de Amor eftir Brian May er ljúfsárt, nærri væmið, ástarlag.

Ég held að fæstir viti að upphaflega hafi David Bowie sungið á tveimur lögum á Hot Space. „Hitt“ lagið er Cool Cat. Það er lágstemmt en skemmtilegt. Eitthvað var Bowie ósáttur við lagið og vildi ekki vera með. Það er þó auðvelt að finna lagið með hans bakrödd en það er eiginlega síðri útgáfa en sú sem endaði á plötunni.

Er eitthvað sem er hægt að segja um Under Pressure? Það er hreint ótrúlegt að það hafi náð að verða til með svona djammi í stúdóíinu. Þó lagið sé skráð á þá alla fimm þá byggir það mest á grunni frá John Deacon.

Queenplötur dæmdar – 15. Flash Gordon (1980)

FlashÞað er ekkert hægt að segja til um hvaða Queen plata er betri en önnur. Samt ætla ég að skrifa fimmtán færslur um málið. Síðasta færslan verður um þá plötu sem ég tel besta.

Í 15da. sæti er Flash Gordon sem inniheldur tónlistina úr samnefndri mynd. Neðsta sætið fær platan fyrir það að vera ekki „alvöru“. Væntanlega hafa fæstir séð myndina en hún er ógeðslega hallærisleg á fyndin hátt. Hún átti að græða á Star Wars æðinu en missti algjörlega marks. Til að gefa tónlistinni meira líf er töluvert um klippur úr hljóðrás myndarinnar með lögunum – það er á köflum stórfyndið (sbr. frægu útgáfuna af titillaginu þar sem aðal kvenpersóna segist elska Flash en þau hafi bara takmarkaðan tíma til að bjarga jörðinni). Hvernig er síðan annað hægt en að elska plötu þar sem Brian Blessed talar inn á? Fyrir utan titillagið og The Hero rennur platan nokkuð ljúft átakalítið í gegn (og færslan því stutt) en hápunktur hennar er lagið The Football Fight.

Mercury and Me

Nokkrum árum eftir að Freddie dó skrifaði Jim Hutton elskhugi hans, eða eiginmaður, bók um samband þeirra. Þegar bókin kom upprunalega út olli hún mikilli gremju hjá Queen „vélinni“. Fólk talaði eins og Jim hefði svikið Freddie. Fólk var hneykslað á meintum grófum kynlífsslýsingum og hvaðeina. Blaðamaðurinn sem var meðhöfundur Jim var ásakaður um að hafa ýkt og skrumskælt. Bókin var sumsé talin hálfgert slúðurpressurit og ég sá enga ástæðu til þess að lesa hana.

Ég var síðan á Amazon um daginn þegar bókin poppaði upp og hún var það ódýr að ég keypti hana strax. Ég las hana mjög fljótt – hún er ekki mjög löng.

Ég beið eftir að sjá hvað hefði hneykslað fólk en fann ekkert. Kannski að einhverjir hafi orðið miður sín að það er nefnt að þeir Freddie hafi stundað kynlíf. Það var ekki mikið grófara en það. Það sem maður sér að gæti hafa farið fyrir brjóstið hjá fólki er hvernig talað er um Mary vinkonu Freddie sem erfði flestar eigur hans. Það er þó í samræmi við flestar aðrar lýsingar sem ég hef af því uppgjöri sem fór fram eftir dauða Freddie. Hún kom ekki vel fram við vini hans og sérstaklega ekki vel fram við Jim. Þar sem hún á hlut Freddie í Queen þá fattar maður hvers vegna allt í kringum hljómsveitina brást illa við bókinni.

Í raun er bókin bara ástarsaga. Hún byrjar af alvöru árið 1985 og fjallar um samband Freddie og Jim. Það eru nokkrir fróðleiksmolar tengdir tónlistinni sem ég hafði ekki heyrt áður en ekkert rosalega mikið. Það sem situr helst eftir er hve dapurlegur þessi feluleikur var sem þessir menn þurftu að vera varðandi samband sitt. Sambandið var reyndar opinberað en þó Jim hafi komið út úr skápnum við fjölskyldu sína í kjölfarið þá var Freddie enn í felum. Þó það sé ekki sagt hreint út í bókinni þá hef ég lengi skilið það þannig að hann hafi ekki viljað að faðir hans vissi af þessu enda var hann strangtrúaður Parsi. Hvort pabbi hans vissi það hvort eð er veit ég ekki en marga grunar að mamma hans hafi verið búin að „sætta“ sig við það.

Bókin er líka góð áminning um gildi hjónabands samkynhneigðra því eftir dauða Freddie hafði Jim ekkert í höndundum. Þeir höfðu skipst á hringum en engin skjöl eða neitt.

Jim lést fyrir nokkrum árum og ég er hálffúll yfir því að hafa trúað róginum um bókina og beðið svona lengi með lesturinn.

En Mr. Mercury (endurútgefin sem Freddie Mercury) eftir Peter Freestone er ennþá besta bókin um Freddie.

Tæknin mótar (tónlistar-) menninguna

Þeir sem lesa þetta blogg verða ekki hissa þegar ég segi að ég sé heillaður af því hvernig tæknin mótar menninguna. Það er ekki hægt að skilja menningarsköpun hvers tíma án þess að þekkja tæknina sem hún byggðist á.

Sögu dægurlagatónlistar á 20. öld er t.d. ekki hægt að skilja án þess að vita eitthvað um þá útgáfumöguleika sem fólk hafði á hverjum tíma. Fólki fyrirgefst til að mynda að halda að þriggja mínútna lög hafi orðið staðlað form vegna þess að það hentaði útvarpsstöðvum. Skýringuna er hins vegar frekar að finna í hljómplötutækninni. Á 78 snúninga (10″) plötum komust ekki fyrir nema um þrjár mínútur af tónlist.

Þeir sem hlusta á gamlar upptökur af blús, t.d. Robert Johnson, vita að lögin eru yfirleitt tvær til þrjár mínútur. Mörg lög eru akkúrat þrjár mínútur. Svona spiluðu þeir ekki lögin á sínum djúkdjojntum. Þar gátu þessi lög verið heillöng. En fyrir upptöku þá þurfti að klippa harkalega niður. Tónlistin var jafnvel spiluð hraðar til að lagið passaði. Ef lögin voru aðeins lengri en þrjár mínútur þurfti 12″ plötu sem var augljóslega dýrari í framleiðslu. Það kom fyrir að lög voru lengri en þá var þeim skipt á tvær hliðar.

Þegar hljómplötutækninni fleygði fram var hægt að hafa meiri tónlist á hverri hlið. Þær voru 45 og 33â…“ snúninga plötur. Ef sú tækni hefði strax verið til staðar má velta fyrir sér hvort lög á plötum hefðu almennt verið lengri. Staðlaða hljómplötuformið varð 12″ og 33â…“ snúninga. Sú plata tók um 22 mínútur á hvorri hlið en fólk var vant stuttum lögum og því voru sett mörg lög á hverja hlið. Þetta gerðist í raun ekki löngu áður en Bítlarnir fóru stað. Þetta er tæknin sem mótar þeirra tónlist til að byrja með. Bítlarnir og aðrir tóku síðan að lengja lögin aftur (og leika sér að tækninni t.d. með endalausri lúppu í lok plötu).

En það var ekki hætt að gefa út plötur með einu lagi á hverri hlið. Smáskífur urðu til á sama tíma. Þær voru 7″ og 45 snúninga. Mörgum finnst óskiljanlegt að fólk hafi keypt smáskífur í stað þess að kaupa bara hljómplöturnar. Það eru margar ástæður en ein er sú að gæðin voru (oft) meiri á 45 snúninga plötum en 33â…“. Þannig að ef þú vildir njóta Bohemian Rhapsody þá var eins gott að kaupa smáskífuna en ekki bara plötuna. Smáskífurnar gátu verið með 6 mínútur af tónlist en Bohemian Rhapsody er um 5:55 mínútur að lengd. Hefði lagið orðið lengra ef Freddie hefði haft „stærri striga“ til þess að mála á? Ég veðja að hann hafi verið að vanda sig að láta þetta passa. Aðeins fyrr slepptu Led Zeppelin því alveg að gefa út Stairway to Heaven á smáskífu en það var einmitt of langt fyrir slíka útgáfu.

Geisladiskar gátu upphaflega tekið allt að 74 mínútur af tónlist – lengdin miðaðist að sögn við að upptaka af níunda sinfóníu Beethoven gæti komist þar fyrir (tónlistin mótar tæknina!). Til að lokka kaupendur voru aukalög sem ekki voru á plötunum oft sett á diskana. Seinna varð það tíska að nota aukatímann til að fela leynilög. Þau eru t.d. á Nevermind með Nirvana og Smash með The Offspring. Þessi aukalög eru síðan óþolandi þegar maður er að setja þessa diska á mp3 form.

Útgáfa á netinu hefur nær engar tæknilegar takmarkanir en hún hefur erft hefðir fyrri tækniforma. Menn gefa enn út plötur þó þær endi ekki á diskum eða plötum (hvað þá kassettum sem ég hef sleppt alveg). Tónlistarfólk er oftast að halda sig innan tímaramma sem er mótaður af eldri tækni. Það eru augljóslega undantekningar en svona er þetta almennt. En hve lengi stendur þetta? Munu komandi kynslóðir frelsast alveg undan þessum takmörkunum eða verða þessar hefðir áfram til staðar?