Góða skemmtun gjöra skal

Ég er ennþá að glugga í Íslenzk þjóðlög eftir Bjarna Þorsteinsson. Þar varð fyrir valinu Góða skemmtun gjöra skal sem er oftar sungið sem Góða veislu gjöra skal.

Það vakti athygli mína að það sé til færeysk útgáfa af þessu lagi þannig að ég potaði í félaga Heri Joensen (Týr) og spurði hvaða kvæði það væri. Það stóð ekki á svörum.

Òluvu kvæði
1.
Góða skemtun gera skàl,
hvàr eg gengi í dans:
kvøði um kong Pipping
og Óluvu dottur hans.

Viðgangur:
Stígum fast á várt golv, spàrum ei vár skó!
Gud mann ráða, hvàr vær drekkum onnur jól.

2.
Pipping kongur àf Fraklandi
Gertruð heitir hans frúgv,
væn er Óluva dottir teirra,
higgin og so trúgv.

3.
Karlamagnus Pippingsson
bróðir er hann àt fljóði,
væl eru tey af ættum komin,
Jóhannis hinn góði.

Þetta heldur áfram upp í 178. erindi. Það sem mér fannst áhugaverðast var að þarna er talað um að drekka næstu jól en ekki dansa um næstu jól. Það að drekka jól er auðvitað mjög gamalt orðalag þannig að hvort sem kvæðið hafi verið til í heild sinni á íslensku eða það hafi komið hingað í gegnum Færeyjar þá myndi ég veðja á að „drekka“ væri upprunalegra.

En spurningin er auðvitað hver þessi feðgin eru, Pípin og Ólöf. Fyrsta giskið mitt var, áður en ég sá færeyska kvæðið, að þetta væri Pipin faðir Karlamagnúsar og það var rétt. Kvæðið virðist hafa verið ort upp úr riddarasögunni Af frú Olif ok Landres syni hennar sem er hluti af Karlamagnús saga ok kappa hans. Þetta er þýðing af enskri riddarasögu sem er nú glötuð. Ég játa að ég hef ekki farið nægilega vel í gegnum söguna og kvæðið til að þekkja efnið nægilega vel (mér leiðast riddarasögur alveg hrikalega) en bæði sagan og kvæðið endar á að Ólöf gengur í klaustur. Út frá þessu er freistandi að tengja Ólöfu við Gisele systur Karlamagnúsar sem endaði í klaustri.

Mér finnst í raun alveg rosalega skemmtilegt að Íslendingar og Færeyingar skuli syngja um franska konungsdóttur frá áttundu öld. Ég hafði ekkert pælt almennilega í þessu áður.

En ekkert í rannsóknum mínum veitti mér innsýn í það hvers vegna þetta er jólalag.

Íslendingar syngja síðan auðvitað kvæðið Álfadans eftir Jón Ólafsson við sama lag.

Álfadans

Máninn hátt á himni skín,
hrímfölur og grár.
Líf og tími líður
og liðið er nú ár.

Bregðum blysum á loft
bleika lýsum grund.
Glottir tungl og hrín við hrönn
og hratt flýr stund.

Kyndla vora hefjum hátt,
horfið kveðjum ár.
Dátt hér dansinn stígum,
dunar ísinn grár.

Komi hver sem koma vill
komdu nýja ár.
Dönsum dátt á svelli,
dunar ísinn blár.

Ég tók mig til og setti upp nóturnar frá Bjarna í Musescore til að ég gæti spilað fyrir sjálfan mig og jafnvel notað í podcastinu mínu. Ég lét síðan Musescore spila það með flautuhermi til þess að ég gæti látið það fylgja með færslunni án þess að það væri bara í ískrandi midi-formi.

Ég þarf greinilega að láta wordpress samþykkja að setja inn svona staðlaða nótnaskrá en hérna er mynd af þessu sem ég setti upp – sem ég hefði ekki getað gert án Telmu. Nóturnar eru líka á Musescore þar sem hver sem er ætti að geta halað þeim niður og notað að vild.

 

Fram á regin fjallaslóð

Helsti gallinn við að hlusta á tónlist á Spotify er að maður fær engar upplýsingar um lögin, ekki texta og ekki nöfn höfunda. Ég var að hlusta á Þjóðlög Ragnheiðar Gröndal og lagið Fram á Reginfjallaslóð stendur upp úr.

Ég gúgglaði og fékk litlar upplýsingar en fann þessa útgáfu á Ísmús. Í Gegni stendur að þetta sé þjóðvísa og þjóðlag (þær upplýsingar eru væntanlega fengnar úr bæklingnum með disknum).

Kristján Árnason syngur Fram á reginfjallaslóð

Ég tók aðeins dýpri leit og fann að vísuna í handriti leikritsins Skugga-Sveins. Þar eru þrjú erindi en bæði á Ísmús og hjá Ragnheiði er bara eitt.

Fram á regin-fjallaslóð
firðar ljótir búa;
þeirra bygð er þeygi góð,
þyrstir mjög í sauðablóð
eru þeir og engan guð á trúa.

Kunna þeir með kænsku sið
kvikfé ná í haga,
kveykja eld við kletta-rið,
kjötið steikja logann við,
síðan stolnar sauðahnútur naga.

Þegar bóndi burtu frá
býli fer og vífi,
koma fram úr fylgsnum þá
fólin leið og bæjum á
æra fljóð og ota löngum hnífi.

Samdi Matthías öll erindin eða bætti hann tveimur við eldra kvæði? Hvaðan kemur lagið?

Þegar maður hefur áttað sig á að „Reginfjallaslóð“ er oft ritað „regin fjallaslóð“ eða „regin-fjallaslóð“ þá nær maður að kafa dýpra og þá fann ég lagið í Íslenskum þjóðlögum Bjarna Þorsteinssonar.

Bjarni Þorsteinsson fæddist sama ár og Skugga-Sveinn var frumfluttur, árið 1861, og safnaði þjóðlögum sínum á árunum 1880-1905. Það er ólíklegt að hann hafi ekki vitað af tengslum lagsins við Matthías.

En hér sést auðvitað ástæðan fyrir því að ég kafaði aldrei djúpt í þjóðlög. Ég get ekki lesið nótur. Er annað hvort lagið sem Bjarni birtir hér það sama og Ragnheiður og Kristján Árnason syngja? Fjallar kvæðið upprunalega um útilegumenn eða kannski bara tröll?

Viðbót 6. desember

Ég ákvað að læra aðeins á nótur og setti þetta upp í forritinu Musescore (með hjálp frá Telmu). Hérna er lagið með einföldum hörpuhermi.

Hérna eru nóturnar. Ég sett #1 við þær af því að Bjarni hafði líka annað lag við þær.

Fram á regin fjallaslóð nótur

Ég setti nóturnar líka inn á opna gagnagrunn Musescore þar sem er hægt að hala því niður og breyta að vild.

Tónleikasaga mín

Í tilefni þess að ég fór á Rammstein í gær skráði ég hjá setlist.fm hvaða tónleika ég hefði farið á í gegnum tíðina. Týr er á toppnum með 12 tónleika en verst er að ég hef ekki séð þá í nærri átta ár. Ég þurfti að bæta við nokkrum tónleikum þeirra þarna (og um leið nokkrum tónleikastöðum á Íslandi).

Ég ákvað að telja fræga íslenska tónlistarmenn með þannig að Emilíana og Sigur Rós eru þarna. Það vantar reyndar þegar ég laumaðist inn á Emilíönu og Fjallkonuna 1995/6 í Sjallanum og eina tónleika með henni í Háskólabíó. En tónleikar Sigur Rósar árið 1999 á Vopnafirði voru þegar skráðir inn en ég var fyrstur til að skrá að ég hefði verið þar. Ég er ekki hissa enda voru bara svona tuttugu manns þar.

Eyðurnar í tónleikasókn eru greinilegar þarna uppúr 2009 og síðan aftur uppúr 2013. Þið getið giskað hvað veldur.

Maí 20, 2017: Rammstein, Korinn, Kópavogur
Nóv 11, 2016: Nik Kershaw, Harpa – Eldborg, Reykjavík
Okt 14, 2016: Placebo, Store Vega, Copenhagen, Danmörk
Ágú 6, 2016: Muse, Laugardalshöll, Reykjavík
Maí 19, 2016: Emilíana Torrini, Harpa – Eldborg, Reykjavík
Nóv 4, 2012: Sigur Rós Airwaves 2012
Okt 11, 2008: Queen + Paul Rodgers, S.E.C.C., Glasgow, Skotland
Okt 4, 2008: Týr, Nasa, Reykjavík
Okt 3, 2008: Týr, Græni Hatturinn, Akureyri
Okt 2, 2008: Týr, Paddy’s Irish Pub, Keflavík
Júl 9, 2008: Týr, Bryggen, Copenhagen, Danmörk
Maí 27, 2007: Uriah Heep, Laugardalshöll, Reykjavík
Maí 27, 2007: Deep Purple, Laugardalshöll, Reykjavík
Okt 4, 2006: Týr, The Rock, Copenhagen, Danmörk
Júl 30, 2006: Sigur Rós, Klambratún Park, Reykjavík
Júl 27, 2006: Emilíana Torrini, Nasa, Reykjavík
Júl 27, 2006: Belle and Sebastian, Nasa, Reykjavík
Nóv 27, 2005: Sigur Rós, Laugardalshöll, Reykjavík
Júl 23, 2005: Europe, G! Festival 2005
Júl 23, 2005: Týr, G! Festival, Norðragøta, Færeyjar
Júl 5, 2005: Foo Fighters, Reykjavík Rocks 2005
Jún 30, 2005: Duran Duran, Reykjavík Rocks 2005
Jún 7, 2005: Iron Maiden, Egilshollin, Reykjavík
Mar 28, 2005: Queen + Paul Rodgers, Carling Academy Brixton, London, England
Júl 7, 2004: Placebo, Laugardalshöll, Reykjavík
Jún 26, 2004: Týr, Grand Rokk, Reykjavík
Des 11, 2003: Týr, Nasa, Reykjavík
Nóv 23, 2003: Týr, Tjarnarbíó, Reykjavík
Nóv 22, 2003: Týr, Hvíta húsið, Selfoss
Nóv 21, 2003: Týr, Grand Rokk, Reykjavík
Ágú 26, 2003: Foo Fighters, Laugardalshöll, Reykjavík
Apr 6, 2002: Týr, Smáralind, Kópavogur
Jún 15, 2001: Rammstein, Laugardalshöll, Reykjavík
Ágú 14, 1999: Sigur Rós, Mikligarður, Vopnafjörður

Queenplötur dæmdar – 1. A Day at the Races (1976)

A Day at the RacesA Day at the Races (1976). Besta plata Queen. Ég byrjaði þessa yfirferð eftir Facebook rökræður um hver væri besta plata Queen. Ég tók allar plöturnar til skoðunnar og reyndi að nálgast þær upp á nýtt. Það sem hefur einkennt þetta ferli er að ég hlusta aftur og aftur á A Day at the Races.

Öll lögin eru frábær. Það er ekkert sem ég sleppi þegar ég er að hlusta á hana.

Platan kom í kjölfarið á A Night at the Opera og fékk líka nafn eftir mynd Marx bræðranna. Hún var almennt álitin síðri en sú fyrri, jafnvel léleg eftirlíking. En hún hefur staðist tímans tönn.

Tie Your Mother Down er bara stórfyndið og stórgott rokklag. Stór spurning hvort intróið ætti ekki að teljast sér lag.

You Take My Breath Away var lengi eitt uppáhaldslagið mitt og er enn ofarlega á listanum. Það byrjar á Freddie að syngja aðeins með sjálfum sér en verður síðan frekar einfalt (á Queen mælikvarðan) í framsetningu. Textinn er annað hvort rómantískur eða eltihrellislegur. Það fjallar allavega um ástarsorg.

Long Away kunni ég fyrst ekki að meta. En það breyttist.

The Millionaire Waltz er, allavega að mestu, bókstaflega vals. En líka rokk, þrumandi rokk. Það er ágætt að leyfa sér að elta bassann í laginu svo maður gleymi ekki að John er snillingur. Bara æði. Snilld.

You and I slær botninn í þessa hlið plötunnar. Hálftýpískur John texti en með frábærum dökkum millikafla sem færir lagið upp á snilldarplanið. Frábært.

Somebody to Love er gospel og rokk. Það er alveg hægt að gleyma því hve mikil snilld það er en þá er bara að hlusta og heyra hvernig lag og texti smella yndislega saman. Það er miklu meira í gangi en sést á yfirborðinu. Og gítarsólóið hans Brian er bara frábært.

White Man er áfkaflega gott og ákaflega þungt lag (eftir rólegan inngang). Textinn fjallar um frumbyggja Ameríku. Svoltið á “göfugi villimaðurinn” línunni en ekkert óhóflega. Alltaf í uppáhaldi. Hávaði og hvísl. Roger í sérstaklega góðu formi.

On the Bible you swore // Fought your battle with lies

Good Old-Fashioned Lover Boy er létta og fyndna lagið á plötunni. Og það er mjög fyndið og það er mjög gott. Á maður að kalla þetta “revíulög”? Eitthvað í þá áttina.

Drowse er Roger í rólega gírnum í fyrsta skipti og það tekst frábærlega. Ég segi oft að þetta sé eftirlætis Queenlagið mitt og það er líklega satt. Textinn er sá besti sem Roger hefur samið þrátt fyrir, og kannski vegna þess, að hann endar í ringluðum hugsunum sem leggja áherslu á þema lagsins sem er að vera hálfsofandi og ringlaður. Það kallast svolítið á við These are the Days of Our Lives.

It’s the fantastic drowse of the afternoon Sundays that bored you to rages of tears

Teo Torriatte (Let Us Cling Together). “We’ll sing to you in japanese”. Alltaf í uppáhaldi. Rólegt en dramatískt í lokin. Síðan útspil sem rímar við innspilið.

Let us never lose the lessons we have learned.

Queenplötur dæmdar – 2. Queen II (1974)

Queen IIQueen II frá 1974 nær öðru sætinu og fær ekki mínusstig fyrir ófrumlegt nafn. Allavega vinnur platan það upp með því að hafa hliðarnar þemaskiptar í svart og hvítt. Svart vinnur. Þó ég sé auðvitað í raun búinn að gefa út hvaða plata lenti í efsta sæti þá byrjum við á að tala um þessa sem var lengst af efst hjá mér.

Procession er forspil plötunnar. Það er víst jarðarfararmars. En já, vel gert.

Father to Son er gott lag en ekki í miklu uppáhaldi. Enn og aftur er Brian í fjölskyldupælingunum.

White Queen (As It Began) er besta lagið á hvítu hliðinni. Textinn fjallar um ást úr fjarlægð sem verður auðvitað til þess að konan, hvíta drottningin er tignuð. Ég held að titilinn á laginu hafi skapað undarlega sögu sem ég hef bara heyrt á Íslandi um að Queen hafi upphaflega heitið White Queen. Hreint yndislegt lag.

Some Day One Day finnst mér alltaf vera framhald af White Queen. Fyrsta lagið sem Brian syngur alveg. Síðan er hann aðallega að spila gítar með sjálfum sér þarna. Flott lag en fellur í skuggann af White Queen.

The Loser in the End er almennt álitið veikasti hlekkurinn á plötunni. Eina framlag Roger í lagasmíðum á plötunni. Ætli það sé ekki að lokum viðhorfið til textans sem veldur því hvort maður fílar það eða ekki? Lagið sjálft er bara flott.

Ogre Battle byrjar svörtu hliðina af krafti. Líkt og þota sé að koma til lendingar. Eitt þyngsta lag Queen með fantasíutexta.

Fairy Feller’s Master Stroke er ekki hægt að gera skil í nokkrum orðum. Sembalspilið í byrjun er í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Annars er textinn lýsing á samnefndu málverki eftir Richard Dadd. Snilld og snilld. Alveg snilld. Og það byrjar alveg stórkostlegan kafla á plötunni. Það leiðir inn í…

Nevermore sem er yndislega fallegt og æðislegt. Enn og aftur fantasíutexti. Og leiðir inn í kannski mestu snilldina…

The March of the Black Queen er forrennari BoRhap. Gríðarlega flókið og margskipt lag. Textinn er áfram í fantasíunni og betri sem samansafn af flottum línum heldur en heild. Snilld og aftur snilld. En tengist síðan í…

Funny How Love is sem er ótrúlega jarðbundið ástarlag, ást er að koma heim á réttum tíma. Mér finnst það stórflott en það passar eiginlega ekki við það sem á undan er komið en myndar hins vegar brú yfir í …

Seven Seas of Rhye er ekki besta lagið á plötunni en samt kom það út á smáskífu og er langþekktast. Ágætt en ekki alveg af sama standard og það sem myndaði hápunkta plötunnar.

Queenplötur dæmdar – 3. Sheer Heart Attack (1974)

Sheer Heart AttackSheer Heart Attack er önnur platan sem hljómsveitin gaf út árið 1974. Hún er þriðja platan og nær þriðja sætinu.

Brighton Rock byrjar á tívolíhljóðum. Viðeigandi. Það tók mig mörg ár að byrja að fíla þetta lag. Textinn er stuttur og fyndinn en meginpartur lagsins er Brian að leika sér á gítar.

Killer Queen, hvernig hljómsveit er það sem semur og flytur svona lag? Og þetta sló í gegn. Mjög gott.

Tenement Funster er Roger á hefðbundnum slóðum að fjalla um rokk og hraðskreiða bíla (textinn er góður þrátt fyrir hálf-hallærislegt umfjöllunarefni). En lagið er sjálft frekar óvenjulegt og er fyrsta lagið í þrennu og leiðir út í…

Flick of the Wrist er hálfgerð frumtýpa af Death on Two Legs. Kæmi mér ekki á óvart. Flott og síðan leiðir það inn í hið fallega lag…

The Lily of the Valley sem er aftur Freddie að yrkja um ævintýraland æsku sinnar Rhye. Það nær góðum dramatískum hápunkti og klárar þennan kafla á plötunni.

Now I’m Here er eiginlega sjálfsævisögulegt úr lífi hljómsveitarinnar eftir að hafa fylgt Mott the Hoople í hljómleikaferð til Bandaríkjanna. Down in the city just Hoople ‘n’ me. En eitt af þessum lögum sem ég veit ekki hvers vegna er ekki í uppáhaldi hjá mér.

In the Lap of the Gods opnar seinni hlið plötunnar. Freddie sagði það vera forrennara BoRhap en hjá mér fellur það alltaf í skuggann á síðasta laginu á þessari hlið plötunnar.

Stone Cold Crazy er mögulega “thrash metal” áður en það varð til. Gríðarlega hratt lag. Textinn með grín glæpasögu. Segir sitt að Metallica breyttu vatnsbyssu í sjálfvirka byssu í sinni útgáfu (upp á húmorinn sko). Frábært lag.

Dear Friends er einskonar vögguvísa og ég hef sungið það fyrir báða syni mína.

Misfire er skrýtið lítið popplag, fyrsta lag John Deacon á plötu.

Big Bad Leroy Brown er til heiðurs Jim Croce sem var nýlátinn og lagi hans Bad Bad Leroy Brown. Fyndið lag.

She Makes Me (Stormtrooper In Stilettos) var lagið sem ég skippaði oft þegar ég hlustaði á plötuna hér áður fyrr en það er frábært.

In The Lap Of The Gods… Revisited er svo auðvelt en ég get það ekki, svo áhættusamt en ég verð að hætta á það, fyndið en það er ekkert til að hlæja að. Æðislegt lag.

No beginning, there’s no ending // There’s no meaning in my pretending

Queenplötur dæmdar – 4. sæti A Night at the Opera (1975)

A Night at the OperaA Night at the Opera frá 1975 er frægasta plata Queen. Með henni slógu þeir í gegn. Hún er, fyrir þá sem hafa aldrei kynnt sér hljómsveitina, þeirra merkasta verk.

Death on Two Legs er tileinkað framkvæmdastjóra plötufyrirtækisins sem Queen var nýbúið að losa sig frá. Það er uppfullt af hatri. Manninum er gjörsamlega slátrað í textanum. Lagið sjálft er líka brilljant. Píanóintróið sérstaklega.

Lazing on a Sunday Afternoon er síðan létt lag með fáránlegum og fyndnum texta. Breytir stemmingunni töluvert.

I’m in Love With My Car er ástaróður Roger til bíla. Alltaf skemmtilegt. Roger lokaði sig víst inni í skáp því hann vildi svo innilega að það yrði B-hliðin á Bohemian Rhapsody.

You’re My Best Friend er svo augljóslega John. Létt og ljúft popplag. En ekki í sérstöku uppáhaldi hjá mér.

‘39 er í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Það fjallar um geimferðir og það hvernig afstæðiskenningin segir til um að tíminn sé afstæður á slíkum ferðum. Fallegt, frábært. Síðan mun ég aldrei gleyma því 2005 í Brixton þegar Brian kom fram á sviðið og við fórum að kalla eftir laginu og hann spilaði það og ruglaðist í textanum af því að það var óæft. Líka frábært 2008 í Glasgow.

Your mother’s eyes from your eyes cry to me.

Sweet Lady er veiki hlekkurinn. Ekki merkilegur texti, ekki merkilegt lag.

Seaside Rendezvous er aftur í ætt við Lazing on a Sunday Afternoon, létt og fáránlegt. Eiginlega betra samt. Þeir leyfa sér allt, leika blásturshljóðfærin og feika steppdans með fingurbjörgum.

The Prophet’s Song er með bestu lögum Queen. Það er vel og vandlega proggað. Það er þungt og æðislegt. Textinn er fantasíukenndur og fjallar hálfvegis um Nóaflóðið (eða draum Brian um flóðið). Ég man innilega eftir að hafa setið á skrifborðinu mínu í Hrísalundi þannig að höfuðið mitt var á milli hátalarana á ferðatækinu sem ég fékk í fermingargjöf. Steríó sko. En eitt það flottasta sem Queen gerði var að leyfa þessu lagi að flæða út í ….

Love of My Life. Það kemur reyndar ekki vel út í nútímaspilurum sem taka sér hlé milli laga. Og í Brixton vorum við öll skíthrædd þegar það komu fram tveir kollar og Brian settist á annan þeirra. Ekki átti að leyfa Paul Rodgers að syngja þetta lag! En kollurinn fékk bara vera ónotaður meðan Brian söng og spilaði lagið einn. Ef þér finnst þetta ekki eitt besta lag sem samið hefur verið þá vantar í þig hjartað.

Good Company er í ætt við hin tvö léttu lögin á plötunni en er í raun með dökkum texta.

Bohemian Rhapsody. Þarf nokkuð að segja?
God Save the Queen. Ótrúlega vel valið til að loka plötunni. Þetta er sumsé ekki Sex Pistols útgáfan.

Queenplötur dæmdar – 5. News of the World (1977)

News of the WorldNews of the World frá 1977 nær fimmta sætinu. Gefin út þegar pönkið var farið að springa út.

We Will Rock You er bara lag sem þið þekkið. Uppáhaldsútgáfan mín er þó BBC upptaka þar sem er líka hraður kafli eins og sá sem var spilaður á tónleikum.

We Are The Champions er bara hið fullkomna popprokklag þrátt fyrir ofspilun. Vísindalega sannað!

Sheer Heart Attack átti víst að vera á samnefndri plötu en var klárað fyrir þessa og hljómar eins og það sé samið til að falla í pönkstemminguna (þó það sé ekki þannig). Ekki lag sem ég elskaði við fyrstu hlustun en er stórskemmtilegt.

All Dead, All Dead fjallar um köttinn hans Brian May. Enn og aftur sést að kattavinir ættu að hlusta á Queen. Einfalt og fallegt lag. Eitt af þeim lögum sem tryggja að platan kemst á topp fimm.

Spread Your Wings er með bestu lögum John Deacon. Það er líka í miklum metum hjá Queenaðdáendum almennt. Stórkostlegt í raun.

Fight from the Inside er næstum sólólag Roger Taylor. Textinn virkar alltaf á mig eins og hann sé ádeila á pönkið. Maður mætti hlusta oftar á þetta lag. Flott rokk.

Get Down, Make Love er kynferðislegt í hljómi og texta. Það eru engir hljóðgervlar hérna þó maður gæti haldið annað, bara Brian að leika sér. Það er næstum vandræðalegt að játa að mér finnst þetta lag skemmtilegt því það er næstum hallærislegt. En húmorinn sko. Annars gerði Nine Inch Nails merkilega skemmtilega útgáfu af laginu.

Sleeping on the Sidewalk er ekki hægt annað en að elska. Saga af tónlistarmanni sem fer af götunni, á toppinn og aftur á götuna. Fyrir utan sönginn var þetta tekið í einni töku. Hér er enginn Freddie. Frábær texti.

Who Needs You er alltaf í svoltlu uppáhaldi. Steríóið vel notað. Klassískur John texti.

It’s Late er eitt af þessu lögum sem er hátt skrifað hjá Queenaðdáendum þó aðrir kannist varla við það. Ein ástæða er mörgum finnst mikið til þess koma að Brian notar “tapping” (hvernig þýðir maður það?) aðferð áður en Eddie van Halen gerði það að sínu einkennismerki. Textinn er ástarsaga. Frábært lag.

My Melancholy Blues er eiginlega djass en ekki blús. Voðalega eru þeir mikið í að rugla mann. En þetta var gjörsamlega eftirlætislagið mitt á plötunni í mörg ár. Það er líka frábært. Píanóið í aðalhlutverki.

Ég var eiginlega búinn að gleyma hve frábær þessi plata er. Það er eiginlega enginn veikur punktur. Vandinn er að hin lögin falla í skugg We-tvíbbanna.

Queenplötur dæmdar – 6. Innuendo (1991)

InnuendoInnuendo frá 1991 lendir í sjötta sæti sem þýðir að þó ég hafi hneykslað einhverja með röðun minni á hinum tíu plötunum þá fara fimm af fyrstu sex plötunum í efstu fimm sætin. Það er ekki byltingarkennt.

En Innuendo var síðasta platan sem kom út meðan Freddie lifði. Hún minnir mjög á fyrri plötur, ekki það að lögin séu einhvern veginn eins heldur vegna þess að maður finnur sama hljóminn og stílinn.

Titillagið er án efa besta dæmið um þetta. Dramatískt, yfir toppinn og með frábærum texta Roger (sem er samfélagsgagnrýni að hans stíl sem er ekki hinn almenni stíll hljómsveitarinnar). Lagið Innuendo er snilld í gegn. Til að byrja með er eins og það sé verið að halda aftur af kraftinum sem er undir niðri, og þá kemur fyrra gítarsólóið er flamenkó (spilað af Steve Howe sem leit bara í heimsókn), síðan rólegur og draumkenndur millikafli og þegar maður heldur að lagið muni ekki ná kraftinum sem maður bjóst við kemur Brian með rafmagnsgítarsóló og dramað tekur aftur í textanum þegar Freddie veltir fyrir sér tilgangi lífsins.

I’m Going Slightly Mad er í uppáhaldi hjá mörgum. Það er líka svo fyndið, súrt og fáránlegt. Myndbandið er líka snilld. Þið vitið það sjálf.

Headlong er svona hefðbundið Queen rokklag. Flott.

I Can’t Live with You er svoltið skemmtilegt rokklag en ekki frábært.

Don’t Try So Hard er í uppáhaldi. Rólegt og svo kraftur. Rólegt og svo kraftur. Ó, þú fagra veröld.

Ride the Wild Wind er eftir Roger og er eitt af lögunum sem er skemmtilegast að hlusta á á fullum hraða á hjólinu.

All God’s People er auðvitað og augljóslega ættað úr Barcelona upptökunum, Mike Moran er meira að segja titlaður meðhöfundur. Á köflum er þetta líka bara eins og Freddie sé að prufa hvað hann getur gert með röddina. Blúskaflinn er í uppáhaldi.

These are the Days of Our Lives er kveðjulag en þó eftir Roger. Það kallast innilega á við Love of My Life. Þarna er hann eldri ennþá tilbúinn að segja að hann elski okkur (og leggur áherslu á það með því að segja það í myndbandinu og ganga síðan út úr rammanum). Nostalgía í mjög einföldum búningi. Bara yndislegt.

Síðan kemur lagið Delilah sem fjallar um samnefndan kött Freddie. Síðan mjálmar Freddie í laginu. Er tungan komin út úr kinninni? En fyndið er það. Væntanlega þarf maður að vera kattaaðdáandi.

The Hitman er þyngsta lag plötunnar. Fínt.

Bijou er aftur á móti yndislegt. Lag á röngunni þar sem gítarinn er söngurinn og söngurinn er sólóið. Innilega yndislegt.

The Show Must Go On er enn og aftur kveðjulag, núna eftir Brian en það er um Freddie, augljóslega. Textinn er frábært. Lagið er dramatískt og kraftmikið. Eitt af þeim bestu.

Queenplötur dæmdar – 7. Made in Heaven (1995)

Made in HeavenÍ sjöunda sæti kemur Made in Heaven frá 1995. Ég fékk allar hingar plöturnar beint í æð 1991-92 en þessi kom seinna þegar ég var orðinn rólegri í Queenaðdáun minni. Ég vissi ekki einu sinni að hún væri komin út fyrren bekkjarfélagi í MA sagði mér það (þarna var ég ekki orðinn aktívur netnotandi sumsé). Auðvitað fór ég beint í Hljómdeild KEA og fjárfesti í henni.

It’s a Beautiful Day er innilega lagið maður ætti alltaf að vakna við. Lagið var búið til úr bút sem Freddie hafði upphaflega tekið upp árið 1980. Þrátt fyrir það er lagið frábært. John á víst aðalheiðurinn á að klára lagið.

Made in Heaven er auðvitað sólólag frá Freddie af Mr. Bad Guy og er hér sett í fágaðri Queen útgáfu. Það er fyrirgefanlegt að taka lagið og endurskapa það af því að hljómurinn á Mr. Bad Guy var aldrei nógu góður. Auðvitað bætist við smá gítar frá Brian.

Let Me Live hefur vandræðasögu. Viðlagið þótti of líkt öðru lagi og það þurfti breyta því. Mögulega er til útgáfa með gestastjörnunum Jeff Beck og Rod Stewart (!) frá cirka 1984. En mér finnst það bara alltaf svoltið fallegt og skemmtilegt.

Mother Love er tilfinningalegur hápunktur plötunnar, maður þarf ekki að vita að þetta er (samkvæmt flestum) síðasta lagið sem Freddie tók upp til að skynja hvað liggur þarna að baki. Það er bókstaflega þannig að hann gat ekki klárað lagið og því klárar Brianlagið. Endirinn á lagi er líka frábærlega Queenlegur þar sem öllu er tjaldað til, Freddie að syngjast á við áhorfendur, bútur úr fyrsta laginu sem Freddie söng á plötu og síðan barnsgrátur.

„The last thing he ever sang was Mother Love. He was going for it harder and higher and more passionate than ever. He got to the penultimate verse and said, ‘I can’t do any more. I’ll come back and finish it another day when I feel good.’ But he never did.

My Life Has Been Saved var upprunalega B-hlið á Scandal en hefur hér verið uppfært. Það verður aldrei talið besta lagið á plötunni en rennur voðalega ljúflega í gegn.

I Was Born To Love You er annað Mr. Bad Guy lag og varla meira um það að segja en það sem áður var sagt um Made in Heaven. Svoltið skemmtilegt lag.

Heaven for Everyone er upprunalega af plötunni Shove It með The Cross – sumsé lag eftir Roger. Það er líka til útgáfa þar sem Roger syngur og hún er eiginlega í meira uppáhaldi hjá mér. Hún nær háðsk á köflum en útgáfa Freddie er einlægari. En gott er lagið. Mjög gott.

Too Much Love Will Kill You er upphaflega Queenlag þó það hafi fyrst komið út á sólóplötu Brian. Aftur er útgáfa Brian í meira uppáhaldi hjá mér. Það er líka tengt því að hann söng þetta á minningartónleikunum. Þetta eru líka lýsingar á tilfinningum Brian og því ekkert skrýtið að maður tengist því frekar. En útgáfa Freddie er frábær líka.

You Don’t Fool Me er búið til úr nær engu af upptökustjóranum Dave Richards (en með viðbótum frá eftirlifandi meðlimum). Það passar alveg ágætlega við klúbbatónlist 1995. Ágætt.

A Winter’s Tale er síðasti textinn sem Freddie samdi. Draumkennt lag um fegurðina sem var í kringum hann í Sviss á þessum síðustu dögum sem hann tók nokkuð upp. Líklega besta lagið á plötunni.

It’s a Beautiful Day (Reprise) er rokkaðri útgáfa af fyrsta laginu.

Í lok plötunnar eru ónefnd „lög“. Fyrst „yeah“ sem er bara Freddie að syngja „yeah“. Síðan er lag 13 sem er 22 mínútna langt. Hér er Dave Richards aftur að leika sér og það má vel hlusta á þetta en ég veit ekki alveg hvort maður á að telja þetta með sem lag.