Myndskreytt af tölvu

Vegna umræðu um barnabækur þá hef ég verið að velta fyrir mér myndskreytingum. Í dag er hræódýrt að finna sér listamenn á netinu og láta þá sjá um að teikna myndir í bækur.

Ég held að myndir í barnabókum séu mikilvægar, alveg eins og sagan og textinn. Ef myndskreytingar í íslenskum barnabókum endurspegla ekki raunveruleika sem börnin geta tengt við þá er eiginlega alveg eins hægt að þýða og staðfæra bækurnar.

Ég ætla ekki að halda því fram að þetta sé einfalt val í bókaútgáfu. Það eru ekki miklir peningar í að gefa út bækur, hvað þá barnabækur, og ef þú getur fengið ódýra myndskreytingu í útlöndum þá hækka launin allavega eitthvað.

En ef myndskreyting er bara útvistað verkefni til einhvers sem skilur ekki einu sinni textann þá verður listamaðurinn ekki slíkur meðhöfundur sem svona verkefni krefst.

Síðan er líka málið að ef þú borgar bara 15-25 dollara fyrir mynd þá ertu ekkert endilega að fá neitt annað en mynd sem er meira og minna búinn til af forriti sem býr til persónur á sama hátt og tölvuleikir. Það er bara valið um mismunandi hár, augu, húðlit, föt og svo framvegis og síðan skellt inn á staðlaðan bakgrunn. Það læðist að manni sá grunnur að slíkum dúkkulísuleik þá sé auðvelt að velja hjúkrunarkonubúning eins og voru víst algengir löngu fyrir mína tíð.

Ég held að í þessu gildi, eins og í flestu, að frjáls markaður sé ekki líklegastur til að gefa góðar lausnir heldur ódýrar lausnir. Við getum aldrei treyst frjálsum markaði að leysa nokkuð sem skiptir máli.

Jupiter Hollow Рmisheyr̡ur texti

Lagið Higher Love með Steve Winwood er voðalegt níunda áratugs lag. Það fór á toppinn á milli Madonnu og Bananarama. Það festist í hausnum á manni. Ég hélt samt alltaf að þar væri sungið „Jupiter Hollow“ en ekki „Bring me a higher love“.

Það er ekki langt síðan að ég heyrði þetta lag aftur og var að reyna að syngja með. Mér fannst það ganga illa og leitaði að textanum og sá að það var kolvitlaust hjá mér. Það er ekkert verið að syngja um Jupiter Hollow. En ég mundi hvar ég lærði textann.

Big Business er gamanmynd sem er líka síns áratugs, þess níunda. Bette Midler og Lily Tomlin leika þar systur – eins og sést í þessu atriði.

Í myndinni er smábærinn Jupiter Hollow í aðalhlutverki og ég mundi sterkt eftir því að hafa heyrt lagið þarna og hugsað með sjálfum mér, „já, það er verið að syngja um þennan bæ“. Í kjölfarið festist textinn í hausnum á mér. Ég var voðalega glaður að ég mundi allavega nafnið á bænum rétt.

Góða skemmtun gjöra skal

Ég er ennþá að glugga í Íslenzk þjóðlög eftir Bjarna Þorsteinsson. Þar varð fyrir valinu Góða skemmtun gjöra skal sem er oftar sungið sem Góða veislu gjöra skal.

Það vakti athygli mína að það sé til færeysk útgáfa af þessu lagi þannig að ég potaði í félaga Heri Joensen (Týr) og spurði hvaða kvæði það væri. Það stóð ekki á svörum.

Òluvu kvæði
1.
Góða skemtun gera skàl,
hvàr eg gengi í dans:
kvøði um kong Pipping
og Óluvu dottur hans.

Viðgangur:
Stígum fast á várt golv, spàrum ei vár skó!
Gud mann ráða, hvàr vær drekkum onnur jól.

2.
Pipping kongur àf Fraklandi
Gertruð heitir hans frúgv,
væn er Óluva dottir teirra,
higgin og so trúgv.

3.
Karlamagnus Pippingsson
bróðir er hann àt fljóði,
væl eru tey af ættum komin,
Jóhannis hinn góði.

Þetta heldur áfram upp í 178. erindi. Það sem mér fannst áhugaverðast var að þarna er talað um að drekka næstu jól en ekki dansa um næstu jól. Það að drekka jól er auðvitað mjög gamalt orðalag þannig að hvort sem kvæðið hafi verið til í heild sinni á íslensku eða það hafi komið hingað í gegnum Færeyjar þá myndi ég veðja á að „drekka“ væri upprunalegra.

En spurningin er auðvitað hver þessi feðgin eru, Pípin og Ólöf. Fyrsta giskið mitt var, áður en ég sá færeyska kvæðið, að þetta væri Pipin faðir Karlamagnúsar og það var rétt. Kvæðið virðist hafa verið ort upp úr riddarasögunni Af frú Olif ok Landres syni hennar sem er hluti af Karlamagnús saga ok kappa hans. Þetta er þýðing af enskri riddarasögu sem er nú glötuð. Ég játa að ég hef ekki farið nægilega vel í gegnum söguna og kvæðið til að þekkja efnið nægilega vel (mér leiðast riddarasögur alveg hrikalega) en bæði sagan og kvæðið endar á að Ólöf gengur í klaustur. Út frá þessu er freistandi að tengja Ólöfu við Gisele systur Karlamagnúsar sem endaði í klaustri.

Mér finnst í raun alveg rosalega skemmtilegt að Íslendingar og Færeyingar skuli syngja um franska konungsdóttur frá áttundu öld. Ég hafði ekkert pælt almennilega í þessu áður.

En ekkert í rannsóknum mínum veitti mér innsýn í það hvers vegna þetta er jólalag.

Íslendingar syngja síðan auðvitað kvæðið Álfadans eftir Jón Ólafsson við sama lag.

Álfadans

Máninn hátt á himni skín,
hrímfölur og grár.
Líf og tími líður
og liðið er nú ár.

Bregðum blysum á loft
bleika lýsum grund.
Glottir tungl og hrín við hrönn
og hratt flýr stund.

Kyndla vora hefjum hátt,
horfið kveðjum ár.
Dátt hér dansinn stígum,
dunar ísinn grár.

Komi hver sem koma vill
komdu nýja ár.
Dönsum dátt á svelli,
dunar ísinn blár.

Ég tók mig til og setti upp nóturnar frá Bjarna í Musescore til að ég gæti spilað fyrir sjálfan mig og jafnvel notað í podcastinu mínu. Ég lét síðan Musescore spila það með flautuhermi til þess að ég gæti látið það fylgja með færslunni án þess að það væri bara í ískrandi midi-formi.

Ég þarf greinilega að láta wordpress samþykkja að setja inn svona staðlaða nótnaskrá en hérna er mynd af þessu sem ég setti upp – sem ég hefði ekki getað gert án Telmu. Nóturnar eru líka á Musescore þar sem hver sem er ætti að geta halað þeim niður og notað að vild.

 

Fram á regin fjallaslóð

Helsti gallinn við að hlusta á tónlist á Spotify er að maður fær engar upplýsingar um lögin, ekki texta og ekki nöfn höfunda. Ég var að hlusta á Þjóðlög Ragnheiðar Gröndal og lagið Fram á Reginfjallaslóð stendur upp úr.

Ég gúgglaði og fékk litlar upplýsingar en fann þessa útgáfu á Ísmús. Í Gegni stendur að þetta sé þjóðvísa og þjóðlag (þær upplýsingar eru væntanlega fengnar úr bæklingnum með disknum).

Kristján Árnason syngur Fram á reginfjallaslóð

Ég tók aðeins dýpri leit og fann að vísuna í handriti leikritsins Skugga-Sveins. Þar eru þrjú erindi en bæði á Ísmús og hjá Ragnheiði er bara eitt.

Fram á regin-fjallaslóð
firðar ljótir búa;
þeirra bygð er þeygi góð,
þyrstir mjög í sauðablóð
eru þeir og engan guð á trúa.

Kunna þeir með kænsku sið
kvikfé ná í haga,
kveykja eld við kletta-rið,
kjötið steikja logann við,
síðan stolnar sauðahnútur naga.

Þegar bóndi burtu frá
býli fer og vífi,
koma fram úr fylgsnum þá
fólin leið og bæjum á
æra fljóð og ota löngum hnífi.

Samdi Matthías öll erindin eða bætti hann tveimur við eldra kvæði? Hvaðan kemur lagið?

Þegar maður hefur áttað sig á að „Reginfjallaslóð“ er oft ritað „regin fjallaslóð“ eða „regin-fjallaslóð“ þá nær maður að kafa dýpra og þá fann ég lagið í Íslenskum þjóðlögum Bjarna Þorsteinssonar.

Bjarni Þorsteinsson fæddist sama ár og Skugga-Sveinn var frumfluttur, árið 1861, og safnaði þjóðlögum sínum á árunum 1880-1905. Það er ólíklegt að hann hafi ekki vitað af tengslum lagsins við Matthías.

En hér sést auðvitað ástæðan fyrir því að ég kafaði aldrei djúpt í þjóðlög. Ég get ekki lesið nótur. Er annað hvort lagið sem Bjarni birtir hér það sama og Ragnheiður og Kristján Árnason syngja? Fjallar kvæðið upprunalega um útilegumenn eða kannski bara tröll?

Viðbót 6. desember

Ég ákvað að læra aðeins á nótur og setti þetta upp í forritinu Musescore (með hjálp frá Telmu). Hérna er lagið með einföldum hörpuhermi.

Hérna eru nóturnar. Ég sett #1 við þær af því að Bjarni hafði líka annað lag við þær.

Fram á regin fjallaslóð nótur

Ég setti nóturnar líka inn á opna gagnagrunn Musescore þar sem er hægt að hala því niður og breyta að vild.

Tónleikasaga mín

Í tilefni þess að ég fór á Rammstein í gær skráði ég hjá setlist.fm hvaða tónleika ég hefði farið á í gegnum tíðina. Týr er á toppnum með 12 tónleika en verst er að ég hef ekki séð þá í nærri átta ár. Ég þurfti að bæta við nokkrum tónleikum þeirra þarna (og um leið nokkrum tónleikastöðum á Íslandi).

Ég ákvað að telja fræga íslenska tónlistarmenn með þannig að Emilíana og Sigur Rós eru þarna. Það vantar reyndar þegar ég laumaðist inn á Emilíönu og Fjallkonuna 1995/6 í Sjallanum og eina tónleika með henni í Háskólabíó. En tónleikar Sigur Rósar árið 1999 á Vopnafirði voru þegar skráðir inn en ég var fyrstur til að skrá að ég hefði verið þar. Ég er ekki hissa enda voru bara svona tuttugu manns þar.

Eyðurnar í tónleikasókn eru greinilegar þarna uppúr 2009 og síðan aftur uppúr 2013. Þið getið giskað hvað veldur.

Maí 20, 2017: Rammstein, Korinn, Kópavogur
Nóv 11, 2016: Nik Kershaw, Harpa – Eldborg, Reykjavík
Okt 14, 2016: Placebo, Store Vega, Copenhagen, Danmörk
Ágú 6, 2016: Muse, Laugardalshöll, Reykjavík
Maí 19, 2016: Emilíana Torrini, Harpa – Eldborg, Reykjavík
Nóv 4, 2012: Sigur Rós Airwaves 2012
Okt 11, 2008: Queen + Paul Rodgers, S.E.C.C., Glasgow, Skotland
Okt 4, 2008: Týr, Nasa, Reykjavík
Okt 3, 2008: Týr, Græni Hatturinn, Akureyri
Okt 2, 2008: Týr, Paddy’s Irish Pub, Keflavík
Júl 9, 2008: Týr, Bryggen, Copenhagen, Danmörk
Maí 27, 2007: Uriah Heep, Laugardalshöll, Reykjavík
Maí 27, 2007: Deep Purple, Laugardalshöll, Reykjavík
Okt 4, 2006: Týr, The Rock, Copenhagen, Danmörk
Júl 30, 2006: Sigur Rós, Klambratún Park, Reykjavík
Júl 27, 2006: Emilíana Torrini, Nasa, Reykjavík
Júl 27, 2006: Belle and Sebastian, Nasa, Reykjavík
Nóv 27, 2005: Sigur Rós, Laugardalshöll, Reykjavík
Júl 23, 2005: Europe, G! Festival 2005
Júl 23, 2005: Týr, G! Festival, Norðragøta, Færeyjar
Júl 5, 2005: Foo Fighters, Reykjavík Rocks 2005
Jún 30, 2005: Duran Duran, Reykjavík Rocks 2005
Jún 7, 2005: Iron Maiden, Egilshollin, Reykjavík
Mar 28, 2005: Queen + Paul Rodgers, Carling Academy Brixton, London, England
Júl 7, 2004: Placebo, Laugardalshöll, Reykjavík
Jún 26, 2004: Týr, Grand Rokk, Reykjavík
Des 11, 2003: Týr, Nasa, Reykjavík
Nóv 23, 2003: Týr, Tjarnarbíó, Reykjavík
Nóv 22, 2003: Týr, Hvíta húsið, Selfoss
Nóv 21, 2003: Týr, Grand Rokk, Reykjavík
Ágú 26, 2003: Foo Fighters, Laugardalshöll, Reykjavík
Apr 6, 2002: Týr, Smáralind, Kópavogur
Jún 15, 2001: Rammstein, Laugardalshöll, Reykjavík
Ágú 14, 1999: Sigur Rós, Mikligarður, Vopnafjörður

Dapurleg örlög Ole Lund Kirkegaard

Svona í ljósi barnabókaumræðu þá er kannski rétt að tala um barnabækur. Ég les eiginlega á hverju kvöldi fyrir Gunnstein. Við klárum Kalla og sælgætisgerðina annað kvöld eða kvöldið þar á eftir.
Ég er kominn með næstu bók. Það er Fúsi froskagleypir eftir Ole Lund Kirkegaard. Ég hlakka dálítið til enda voru þessar bækur mjög góðar í minningunni.
Mér datt í hug að lesa mér aðeins til um hann Ole Lund og varð dapur að lesa um andlát hans. Reyndar lést hann um einum og hálfum mánuði eftir að ég fæddist þannig að flestir hafa samt væntanlega jafnað sig. En hann var víst 38 ára þegar hann dó (sumsé jafngamall mér í dag). Hann varð úti á leiðinni heim af kránni. Mér datt í hug örlög sögupersónu landa hans HC Andersen þegar ég las þetta.
Ég fann í fljótu bragði enga frétt í íslensku blöðum um andlátið árið sem hann lést. Ég veit ekki hvort hann þótti ekki nógu merkilegur á þessum tíma eða fréttirnar hafi bara ekki borist hingað. Rúmu hálfu ári eftir andlát hans var skrifað um hann í Vísi eins og hann væri enn lifandi.
Ég hlakka samt til að lesa bókina.

Get ekki lesið teiknimyndablöð

Neil Gaiman og ég.Fyrir tveimur árum endurlas ég Sandman eftir Neil Gaiman. Ég las bókstaflega allt sem ég komst yfir og gerði útvarpsþátt. En á sama tíma var að fara af stað aukasaga af Sandman sem kallaðist Sandman Overture. Ég ákvað strax að byrja að safna þessum blöðum því það er eitthvað sem ég hef aldrei gert áður. Ég hef bara lesið svona sögur í stærri söfnum eða bókum.

Hér er annars þátturinn.

Draumur Neil Gaiman

Ég vona að ég hljómi ekki of mikið eins og Marshall McLuhan en ég er alltaf heillaður af því hvernig miðill getur breytt listformi. Takmarkanirnar sem miðillinn setur er ekki bara til ills heldur oft til góðs. Listamenn starfa inni í ákveðnum kassa – þó þeir séu ekki alltaf naktir. Ég hef áður fjallað um hvernig geisladiskar og hljómplötur setja ákveðin mörk en stafræn útgáfa brýtur þau af sér en samt er tónlist ennþá mörkuð af takmörkunum fyrri forma.

Teiknimyndasögur í hinni bandarísku hefð hafa lengst af verið mótuð af „blaðinu“. Það var nær einnota. Það kom út reglulega. Það var ódýrt. Það var stutt. En bæði með því skrifa lengri sögur, sem við getum kallað grafískar skáldsögur, og með því að safna saman sögum í heild þá breyttist formið. Það fylgdi þessu meira að segja virðing. Ég fjallaði um þetta í þætti mínum um Sandman.

Það þurfti ekki nema tvö blöð til þess að ég gæfist upp á að lesa Sandman Overture. Það voru ekki gæði sögunnar sem ollu því heldur að ég höndla bara ekki að hafa þetta svona stutt. Ég bara held ekki athyglinni. Ég er rétt að komast af stað þegar blaðið er búið.

Það má ekki gleyma að framhaldssögur voru eitt aðal bókmenntaformið á nítjándu öld. Dickens skrifaði svona. Stephen King reyndi síðan að endurvekja formið.

Fyrir stuttu fór ég í Nexus og keypti heildarsafnið af Sandman Overture. Þar er blöðunum safnað saman í eina heild, eins og búið var að gera með eldri sögurnar þegar ég las þær. Það var ekki erfitt að lesa þetta. Ég keyrði þetta í gegn. Sagan er væntanlega ekki sú besta sem Gaiman hefur skrifað en hún er alveg ótrúlega falleg. Ég efast auðvitað um eigið mat því hvernig á ég að geta borið saman eitthvað sem ég las fyrst fyrir rúmum áratug og endurlesið reglulega síðan við þessa glænýju sögu?

Það sem ég velti fyrir mér er hvort að það gæti verið að Gaiman sjálfur sé breyttur. Þegar hann skrifaði Sandman var hann að skrifa fyrir um það bil mánaðarlega útgáfu og var ekki að hugsa um að þessu yrði safnað saman. Núna er hann örugglega meðvitaður um að þetta verður lesið oftar sem heild. Er hann að skrifa fyrir þá sem keyptu stöku blöðin eða er hann að hugsa um of um heildina? Hefði ég frekar haldið athyglinni yfir eldri blöðunum ef ég hefði lesið þau svona stök?

Gulur, rauður, grænn og blár – höfundaréttur

Það eru fleiri munaðarlaus verk á íslensku en mann myndi gruna. Mörg þeirra eru barnalög. Hér er eitt sem ég man eftir úr æsku minni.

Gulur, rauður, grænn og blár,
svartur, hvítur, fjólublár.

Ég ákvað að leita að dæmum á Tímaritavefnum. Það kom mér á óvart að ekkert dæmi var um vísuna fyrren árið 1999. En ég uppgötvaði eldri vísu, eða gátu, sem hefur kannski lagt grunninn að fyrstu línunni.

Hver er sá veggur víður og hár
veglegum settur röndum:
gulur, rauður, grænn og blár
gjörður af meistarans höndum

Þessi litaupptalning er því frekar gömul og þá um leið munaðarlaus. Gátan fellur væntanlega ekki undir höfundarétt þar sem það eru meira en 70 ár síðan þetta birtist fyrst án höfundaauðkennis.

Þegar Gunnsteinn byrjaði á leikskóla lærði ég líka þennan seinnipart á litavísuna.

Brúnn, bleikur, banani.
Appelsína talandi.

Ég hef alltaf talið líklegast að þetta sé seinni tíma viðbót en hver veit nema að þetta sé upprunalega útgáfan sem hafi síðan orðið styttri þegar hún fór á flakk.

En hér er þessi vísa sem er augljóslega höfundaverk og fellur undir höfundalög. Hún er reglulega flutt á opinberum vettvangi. Hún er birt víða á vefnum. Verkið er jafnvel notuð í gróðaskyni. En höfundurinn fær engin laun. Er þetta ekki þjófnaður? Er það rétt að nota verk einhvers án endurgjalds bara af því að það eru tæknileg vandkvæði á því að greiða fyrir? Hefur fólk einhvern rétt til að nota verkið?

Auðvitað er þetta ekki þjófnaður. Sú hugmynd að við getum neglt listsköpun, hvort sem hún er einföld eða flókin, niður í að alltaf þurfi að greiða fyrir öll not er fráleit. Ég held að það hljóti að vera til einhver réttur almennings til að nota og njóta listar. Ég held að þessi hugmynd hafi fallið undir það sem í höfundalögum er kallað „einkanot“ en sá réttur er aðþrengdur hin seinni ár.

Afmælislagið og höfundaréttur

„Happy Birthday“ er ekki í höfundarétti í Bandaríkjunum. Í mörg ár hefur fyrirtæki nokkuð rukkað fyrir notkun á laginu án þess að eiga í raun réttinn. Dómur hefur verið kveðinn upp. Þetta er frábært. Reyndar hafa margir brandarar orðið til þegar fólk hefur komið sér undan því að nota lagið í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum. Uppáhaldsdæmið mitt er þessi klippa úr Community (hún er birt með vísun í 14 gr. höfundalaga en Facebook bannar mér að setja þetta inn þar af því að þeir taka hvorki tillit til „Fair use“ eða íslenskra höfundalaga). Horfið. Hún er fyndin. Það sem er best er að innri lógík sögunnar skýrir algjörlega hvers vegna lagið er ekki sungið.

Ef við trúum opinberu sögunni um hver skrifaði texta lagsins þá er textinn ennþá í höfundarétti til ársins 2017 á Íslandi og öðrum löndum sem fylgja líf+70 reglunni. Meintur höfundur textans, Patty Hill, lést 1946 og því er rétturinn enn í gildi. Ástæðan fyrir því að rétturinn er ekki í gildi í Bandaríkjunum er að formsatriðum um skráningu höfundaréttar var ekki fylgt

En dæmið er ennþá skemmtilegra. Væntanlega er íslenska þýðingin af textanum líka enn í höfundarétti. Þýðingin er samt munaðarlaus því enginn virðist hafa eignað sér hana. Líklega er þetta frægasta munaðarlausa verk á íslensku sem er enn í vernd. Til þess að þýðingin væri komin úr höfundarétti þyrfti þýðandinn að hafa látist í síðasta lagi árið 1944. Elsta vísunin sem ég hef fundið í textann er frá sjöunda áratugnum. Það er því mjög ólíklegt að þýðandinn hafi verið látinn svona löngu fyrr.

En áfram er þetta flókið. Þýðandinn hefur væntanlega ekki fengið leyfi fyrir þýðingunni á sínum tíma. Þýðingin hefur því væntanlega verið óheimil. Nema reyndar að það hafi gerst áður en Ísland gekkst undir Bernarsáttmálann. Ég veit samt ekki til þess að ólögmæti þýðingar ógildi höfundarétt þýðandans.

Ef við tölum mál höfundarétthafa þá þýðir það að í hvert skipti sem maður syngur íslenska textann þá er maður að stela af rétthöfum og þýðandanum! Það að það séu einhverjir tæknilegir erfiðleikar við að borga þeim gerir það bara alls ekki í lagi að stela svona. Skilst mér.

Auðvitað er hægt að segja að flutningur textans sé sjaldnast í gróðaskyni (nema auðvitað barnsins sem vill fá gjafir og gestanna sem vilja kökur) eða að þetta sé einkanotkun en síðustu ár hefur einmitt verið harkalega ráðist að réttinn sem fólk hefur til að gera hluti án ágóða og þrengd skilgreiningin á einkanotkun.

Aftur að klippunni úr Community. Ég er að nota hana til að sýna hve sniðugir þessir þættir eru í samhengi umfjöllunarefnis míns. Þetta er innan við hálf mínúta af rúmlega 20 mínútna þætti. Það er enginn að tapa á þessu. Samt stoppaði Facebook mig í að hlaða þessu upp. Það er fullkomlega galið.

Það þarf án efa að laga til höfundalögin og svokallaðir rétthafar mega ekki bara ráða öllu bara af því að þeir eiga peninga og geta ráðið lögfræðinga.

Höfundaréttarráð: „Wine and dine“ og annar lobbýismi.

Annar fundur minn sem fulltrúi í höfundaréttarráði var áhugaverður. Þar er ég fulltrúi Upplýsingar – félags bókasafns- og upplýsingafræða en þessir punktar eru meira persónulegt álit mitt frekar en félagsins.

Í fyrsta lagi var farið yfir þau frumvörp sem ekki komust í gegnum þingið núna. Pírötum var kennt harkalega um að þau komust ekki í gegn. Reyndar var því mótmælt aðeins, t.a.m. af Óttari Proppé sem sagði að það væri ekki hægt að fría hina 60 þingmennina ábyrgð. Almennt var talað um þessi frumvörp á þann hátt að þau væru til að bæta aðgang almennings að efni. Ég var nú ekki alveg sammála því.

Það frumvarp sem kom næst mér, og ég las í gegn á sínum tíma, varðaði munaðarlaus verk. Satt best að segja þótti mér frumvarpið máttlaust og sá ekki að það hefði breytt sérstaklega miklu á Íslandi.

Cliff Richards frumvarpið varðaði lengingu höfundaréttar tónlistarflytjenda úr 50 árum í 70 ár. Það frumvarp var reyndar margmisskilið. Í raun skiptir það ekki miklu máli en ef maður er ekki á því að meiri höfundaréttur sé betri þá sér maður ekki tilganginn með því.

Þriðja frumvarpið var um samningskvaðir. Ég er í sjálfu sér nokkuð hlynntur því. Það gæti gert nokkuð góða hluti. Hins vegar verð ég að játa að ég skil það ekki algjörlega og þyrfti að kafa miklu dýpra í það til að skilja.

Næst var rætt um frumvarp sem ekki var lagt fram. Það varðaði breytingar á hinum svokallaði STEF-skatti (sem er auðvitað ekki skattur, þetta er uppnefni). Þar sá maður helst mun á sér og flestum öðrum á fundinum. Þó gjaldið hafi verið umdeilt á sínum tíma þá litu fulltrúar þeirra samtaka sem græddu á því á það sem réttmætar tekjur. Þar sem þessi tekjustofn þeirra hefði dregist gríðarlega saman síðustu ár þá ætti ríkið að útfæra gjöldin upp á nýtt til að tekjurnar yrðu aftur jafn miklar og áður.

Ég held að í salnum hafi ekki verið neinn skilningur á því hve gríðarlega neikvæð áhrif hinn svokallaði STEF-skattur hafði á ímynd höfundarétthafa á Íslandi. Sú ósanngirni sem felst í því að fólk hafi þurft að borga höfundarétthöfum gjald fyrir að kaupa tölvu eða skrifa gögn á geisladisk. Þetta setti stórt skotmark á íslenskt höfundaefni. Ef það á að bæta við gjöldum á fleiri tæki og tól þá er ólíklegt annað en að ímynd höfundarétthafa skaðist enn meira.

Sjálfur nefndi ég atriði sem mér fannst líka mikilvægt á þeim tíma. Það er að það er engin leið til að útdeila þessum peningum raunverulega til þeirra listamanna sem verða fyrir því að verkum þeirra er deilt á netinu. Siðferðislegur grunnur gjalds á borð við þetta ætti að vera sá að fólkið sem verður mögulega fyrir tekjuskerðingu sem fær peningana. Sérstaklega er það vafasamt ef einhverjir milliliðir eru að hirða eitthvað af þessum peningum.

En það sem fór verst í mig á fundinum var tal sumra á fundinum, t.d. fulltrúa STEFs og BÍL, um lobbíisma. Sérstaklega athugasemd fulltrúa STEFs um „Wine and Dine“ aðferðina til að hafa áhrif á þingmenn. Meðal þess sem var rætt um Pírata var að þeir skildu ekki ekki kerfið. Ég held að það sé misskilningur. Píratar skilja kerfið ágætlega en eru ósáttir við það. Lukkulega voru aðrir þarna sem töluðu um samræður við Pírata. Síðan var fulltrúi Stafræns frelsis aðeins að reyna að koma þeirra sjónarmiðum á framfæri. Þá var gaman að einn var fulltrúi höfundarétthafa þó hann skilgreindi sig sem Pírata. Það sýnir að þessi mál eru flóknari en þau eru máluð.

Samsetningin á pallborðinu var frekar einsleit. Nær allir á þeirri skoðun að meiri höfundaréttur væri betri. Fulltrúi RÚV var reyndar aðeins að tala um aðgengi almennings. En það var enginn fulltrúi almennings þarna. En þarna var fulltrúi Símans. Ég sá ekki neinn hnjóta á sama hátt og mig um það þegar hann talaði um að Síminn væri beggja vegna borðsins í málunum. Þeir seldu netþjónustu og seldu aðgengi að efni. Sjálfum finnst mér það vafasamt. Stórfyrirtækin ættu að hafa sem minnst að segja um þessi mál.

Við sem komum frá Upplýsingu vorum nokkuð sammála um að rödd aðgengis, rödd almennings, heyrðist ákaflega lítið á fundinum. Á tíma var talað um að fundurinn sendi frá sér ályktun en ég tel ólíklegt að við í Upplýsingu myndum skrifa undir slíka ályktun. Ef höfundaréttarráð á að vera alvöru vettvangur til umræðu þá þarf að opna hann fyrir fleiri röddum. Síðan væri auðvitað gott að fleiri sem eiga aðild að ráðinu myndu yfirhöfuð mæta.