YouTube sökkar og Disney rokkar – fyrir íslensku

Fyrir íslenskt tungumál þá er YouTube hræðilegt fyrirbæri. Þó að á yfirborðinu þá sé jafnræði tækifæri þar þá er það ekki í raun. Stóra ástæðan er ekki (bara) sú að þarna er mikill aðgangur að efni á ensku heldur að aðgengið fyrir íslenskt efni er lélegt. Lengst af þá var ekki möguleiki á því fyrir framleiðendur að græða peninga fyrir að setja inn efni á íslensku. Jútúbarar græða með því að láta birta auglýsingar með efni sínu en það var ekki hægt með efni á íslensku. Því var breytt tiltölulega nýlega en það hjálpar ekki mikið þar sem…

YouTube krefst þess að það komi ákveðið mikið grunnáhorf á efni áður en hægt sé að fá nokkurn pening fyrir auglýsingar. Það sem er verra er að þessi mörk er færð ár frá ári. Þannig að áhorf sem dugðu í fyrra til að komast á auglýsingasamning duga ekki lengur og við vitum ekkert hvernig þessi mörk verða á næsta ári. Á sama tíma henda mörg íslensk fyrirtæki peningum í auglýsingar á YouTube. Þannig að YouTube sýgur peninga frá Íslandi og gefur lítið til baka.

Þetta er auðvitað sama vandamál og íslenskt efni glímir alltaf við. Tónlistarveitur borga oft ekkert út fyrr en hlustun hefur farið yfir mörk sem fæstir tónlistarmenn sem flytja efni á íslensku ná í.

Á sama tíma þá er Disney dásamlegt fyrirbæri. Ég fer á Pixar/Disney myndir í bíó og þá er ekki bara talmálið á íslensku heldur líka ritmálið. Þannig eru skilti oft á tíðum með íslenskum orðum.

Þetta skapar þá undarlegu stöðu að YouTube sem virðist vera lýðræðislegt og opið lokar fyrir íslenskuna en Disney sem virðist oft hálffasískt fyrirbæri opnar dyrnar fyrir íslensku.

Ég hef oft sagt að okkur vanti fleiri Jútúbara á Íslandi en kannski að það þurfi frekar einhvers konar íslenska útgáfu af slíkri veitu sem myndi höfða bæði til auglýsingakaupenda og til framleiðenda efnis. Það hefur aldrei verið auðveldara að framleiða efni, hvort sem það eru hlaðvörp, grínmyndbönd eða fræðsla en það er mun erfiðara að græða á slíku.

Ég er með podcast á ensku* og þó ég sé ekki enn farinn að setja auglýsingar þar inn þá gæti ég með lítilli fyrirhöfn gengið inn í samning hjá hlaðvarpsveitu og fengið borgað ákveðið mikið fyrir hvert niðurhal. Ég hef ekki ennþá farið þá leið af því að ég veit að ég get fengið meira borgað fyrir að selja auglýsingar sjálfur – þó það sé erfiðara.

Það þarf að vera svona möguleiki fyrir íslenskt efni. Einhver milliliður sem kemur saman framleiðendum og auglýsendum. En það er ekkert svoleiðis í dag þannig að ef framleiðendur eru ekki líka góðir sölumenn þá er lítið að græða á íslenskunni.

* Stories of Iceland. Í síðasta mánuði þá voru um þúsund niðurhöl á hvern þátt þó ég hafi ekki sett nýjan þátt í loftið frá desember fram í febrúar.

Fr̦ken Fix Рheilasprengja upprunans

Í hversdagslegu dúlli mínu á Tímarit.is þá rakst ég á nokkuð sem sprengdi heilann minn, en þó ekki bókstaflega. Svo virðist sem að meðfylgjandi mynd sýni hina upprunalega Fröken Fix. Hún var persónugerving þvottaefnis.

Þessi auglýsing er frá árinu 1939 en þvottaefnið Fix var fyrst auglýst árið 1935 með frasanum „Fröken Fix“. Elstu auglýsingarnar má t.d. finna í Kirkjuritinu, Sovétvininum og nasistablaðinu Íslandi. Myndin fylgdi þó ekki með fyrr en seinna.

Nasistar (þjóðernis)hreinsa með aðstoð Fröken Fix
Fröken Fix

Ég er rasisti en…

Það er nær alltaf þannig að ef einhver byrjar setningu á „ég er ekki rasisti en“ þá er seinni hlutinn af setningunni rasismi. Sjálfur held ég að rasismi sé í okkur flestum. Þá er ég ekki að tala um rasisma í skilningnum kynþáttahatur heldur tilhneiging til að flokka fólk eftir húðlit og öðru slíku. Ég man ekki hvað ég var gamall þegar ég sá fyrst fullorðinn svartan karlmann en ég man að mér þótti það mjög óvenjulegt. Mér finnst allavega ekki erfitt að skilja hvers vegna „Negri í Þistilfirði“ varð frétt á sínum tíma. Ekki kynþáttahatur. En samt svona „við og hinir“.

Ég man ennþá þessa skrýtnu tilfinningu þegar ég kom upp úr neðanjarðarlestinni í Brixton í London árið 2005 og sá ekki einn einasta hvítan mann. Þetta var ekki hræðsla eða andúð eða neitt þannig. Þetta var bara sterk tilfinning að vera öðruvísi. Það er ákaflega hollt að upplifa það af því að maður býr í samfélagi þar sem maður tilheyrir útlitslega meirihlutanum. Í New York fékk ég síðan notalega tilfinningu þar sem maður sá engan meirihluta. Á augnabliki sá maður meiri fjölbreytni í útliti fólks heldur en ég hef séð flesta daga, ef ekki ár, ævi minnar.

Ef ég ætti að botna fyrirsögnina mína þá væri það kannski svona: Ég er rasisti en ég reyni að vera meðvitaður um (meðfæddar?) tilhneigingar mínar til að flokka fólk og passa upp á að það hafi ekki áhrif á dómgreind mína eða það hvernig ég kem fram við fólk. Þetta „við og hinir“ á auðvitað líka við um hluti eins og kyn og trú sem og almennt uppruna. Þegar ég hitti Vestmannaeying þá reyni ég  að muna að það er fyrst og fremst einstaklingur en ekki staðalmynd. Það gæti vel verið að einstaklingurinn hafi ekkert gaman af sprangi og vilji ekki fá Árna Johnsen aftur á þing.

Kannski að dæmið um Vestmannaeyinginn hljómi kjánalegt en það er ágætt af því að við könnumst við landshlutaríg – eða jafnvel bæjarhlutaríg. Í grunnskólum Akureyrar lögðum við nemendur okkar eigið landshlutabundna sjibbólet fyrir kennara til að komast að því hvort þeir væru hræðilegir Reykvíkingar.

Það er einhver þörf fyrir að sjá sig sem hluta af hópi og geta litið niður á annan hóp. Sumt er aðallega í nösunum á fólki. Það á reyndar jafnvel við um ákveðna rasista sem maður hefur rekist á í gegnum tíðina. Þeir geta úthúðað ákveðnum hópum sem óalandi og óferjandi en síðan komið manneskjulega fram við einstaklinga sem tilheyra þessum hópum. Svoleiðis fólki er líklega viðbjargandi en það þarf að tala við það.

Ég veit síðan ekki hvort ég á að gráta eða hlæja þegar ég sé fólk sem fyrir fimmtán árum var alveg miður sín yfir Pólverjum sem voru að koma hingað en eru núna farnir að tala um að Pólverjar séu í lagi og vilja helst fá þá í lið með sér gegn múslimunum. Þetta fólk hefur lært eitthvað, líklega með því að kynnast nógu mörgum einstaklingum til að átta sig á að það getur ekki dæmt þennan hóp í heild sinni, en því hefur mistekist að átta sig á því þetta eru allt bara manneskjur. Góðar, slæmar en aðallega bara venjulegar manneskjur. Ekki hópur til að alhæfa um.

Ísland og Íslam

Á Íslandi má enn finna fólk sem er sárt yfir Tyrkjaráninu. Það er svo sárt að því finnst ómögulegt að múslimar komi til Íslands. Það eru næstum fjögurhundruð ára sárindi. Í því samhengi er ágætt að líta til þess að á Íslandi er til brandari um að konur á Íslandi séu fallegar en konur í Bretlandi séu ljótar af því að víkingar hafi rænt öllum fallegu bresku konunum. Nú munar nokkur hundruð árum á þessum atburðum en ef maður ætlar yfirhöfuð að vera sár svona langt aftur í tímann þá skiptir það ekki öll máli. Íslendingar hafa ekki allir verið blindir á þetta. Mig minnir að einhverjir samtímamenn hafi kallað „Tyrkina“ víkinga.

Fyrir þrettán árum studdi íslenska ríkisstjórnin innrás í Írak. Sú innrás er ein af rótum þess flóttamannavanda sem nú stendur yfir. Getum við hunsað þetta þegar kemur að því að meta hvernig við ættum að bregðast við núverandi vanda? Mega Sýrlendingar vera sárir yfir einhverju sem íslensk ríkisstjórn gerði fyrir rúmum áratug? Maður myndi halda það, sérstaklega í ljósi þess að umrædd ríkisstjórn var endurkjörin strax í kjölfarið. Það má jafnvel segja að þetta sér enn frekar viðeigandi þar sem sömu stjórnmálaflokkar eru við stjórn í dag.

Undir oki amerískrar siðmenningar og feðraveldisins

Þegar Kanasjónvarpið kom til voru margir sem töldu að hér væri kominn banabiti íslenskrar menningar. Þegar hæðst er að þessu þá gleymist hið augljósa að þetta var eiginlega bara rétt. Við tökum meira og minna við menningu okkar frá Bandaríkjunum eða frá öðrum svæðum sem eru undir áhrifum bandarískrar menningar. Ég elska margt af þessu innilega og ég held að margt af því sem við höfðum hér áður fyrr hafi mátt tapast. En ekki allt.

Eitt sem hefur komið á yfirborðið eftir að geirvartan var frelsuð er að viðhorfið sem er að berjast gegn er ekkert endilega svo gamalt á Íslandi. Mér sýnist nefnilega að við höfum verið að taka við bandarískum viðhorfum til geirvörtunnar. Nýjasta leiðin á innleiðingunni er það að Facebook ritskoðar geirvörturnar fyrir okkur. Knúz og Grapevine lentu á svörtum listum. Facebook hefur gríðarlegt og óeðlilegt vald yfir íslenskri umræðu. Ég benti á það í kaldhæðnislegum tón þegar Knúzið birti grein með mynd af konu í búrku að þar væri kominn mynd sem væri Facebook að skapi.

Ég myndi aldrei vilja banna neinni konu að ganga í búrku en ég er efins um að valfrelsið sé raunverulega til staðar. Samfélag þar sem konum leyfðist jafnt að stripplast og að ganga í búrkum væri gott en bara ef við værum viss um að valið væri raunverulega þeirra. Það sem við getum kallað feðraveldið er yfirleitt of sterkt (en það væri einföldun að segja að það væru bara karlmenn sem pössuðu upp á reglur þess).

Sem leiðir okkur að neikvæðu viðbrögðunum sem við höfum séð. Af hverju ætti karlmaður sem hrífst af kvenmannslíkömum að taka því illa að konur séu að sýna meira hold? Ættu þeir ekki bara að gleðjast? Af hverju kemur þess þörf að gera lítið úr þeim? Af hverju er verið að setja upp vef þar sem maður getur gefið geirvörtunum einkunn?

Þetta er augljóslega sama eðlis og að karlmenn og strákar sem vilja komast í bólið með konum taka þátt í að kalla konur eða stúlkur sem sofa hjá, þeim eða öðrum, „druslur“ (og auðvitað eru konur líka sekar um þetta). Ef þú vilt að konur sofi frekar hjá þér þá væri þér augljóslega í hag að vinna að viðhorfi þar sem konum er ekki refsað á nokkurn hátt fyrir slíkt.

Eru þá þessir karlmenn sjálfir svo blindaðir af feðraveldinu að þeir vinna gegn eigin „hag“? Þeir setja sig nær bókstaflega í hlutverk hins refsandi föðurs sem á að sjá um að litlu stelpurnar fari ekki út af strikinu. Er það ekki óbærileg heimska? Vilja þeir skipta konum í druslur sem þeir sofa hjá og jómfrúr sem þeir kvænast (og eignast)?

Stelpurnar sem frelsuðu geirvörturnar voru fyrst og fremst að frelsa hug sinn. Strákarnir sem setja upp vef þar sem hægt er að gefa þeim einkunn eru ekki bara að reyna að setja þær aftur í hlekki. Þeir eru líka að festa sjálfa sig í fangelsi hugans.

Þar sem ég hef ekki enn birt geirvörtumynd hér þá finnst Facebook allt í lagi að þú deilir færslunni minni þar.

#Frelsaðu hugann

Ég man þegar ég var í skiptinámi á Írlandi þá fór ég á ferðalag með þýskum vinum mínum. Við gistum öll í sama herbergi á farfuglaheimili. Þegar við vorum að fara í rúmið þá tók ein stelpan og vippaði sér úr öllu að ofan og klæddi sig síðan í einhvern þægilegan bol til að sofa í. Það var innilega ókynferðislegt af hennar hálfu. Í mínum reynsluheimi gerðu stelpur og konur ekki svona. Það var alveg smá menningarsjokk.

Á miðvikudagskvöldið datt ég inn á Twitter og sá #FreeTheNipple taka yfir. Ég vissi ekki hvað ég ætti að halda. Það var eitthvað meiriháttar að gerast sem ég fattaði bara ekki. Ég játa alveg að það kom yfir mig smá „hvað eru þær gamlar?“ og fleiri hugsanir sem menn voru óhræddir við að tjá í gær. En ég er ekki pabbi (feðraveldið) þeirra. Ég á ekki að hafa vit fyrir þeim. Síðan gerði ég svolítið mikilvægt – ég fór að lesa skilaboðin sem fylgdu #FreeTheNipple. Þá áttaði ég mig á að þetta snerist um völd. Mig langaði innilega að vera með í #FreeTheNipple en ég áttaði mig fljótt á að ég yrði aldrei meira en klappstýra þeirra sem tóku völdin.

Með því að birta myndir af sér voru stúlkurnar að segja að valdið væri þeirra. Það hvort einhverjum karlmönnum þarna úti þyki myndirnar æsandi er bara ekki þeirra vandamál. Ekki frekar en ef pilsið þeirra er of stutt, buxurnar of þröngar eða brjóstaskorann of áberandi. Það er gott að muna að það er ekki einu sinni sammannlegt að hylja brjóst. Kynferðislega spennan er tengd því að hylja frekar en því að sjá – það er ekkert spennandi að sjá það sem er aldrei hulið. Ef konur og stúlkur ættu að setja það sem sitt aðalmarkmið að æsa aldrei neinn karlmann þá eru búrkur fyrirtaks, og afburða heimskuleg, lausn.

Ef það skiptir fólk svona rosalegu máli að æsa ekki neinn þá hlýtur það að vera rökrétt að banna samkynhneigðum, og auðvitað tvíkynhneigðum, að nota skiptiaðstöðu (fata, ekki bleyjuskipti) með fólki af sama kyni. En af einhverjum ástæðum þá eru held ég flestir þannig að þeir jafna sig mjög fljótt á hugmyndinni að fara í sturtu „með“ einhverjum sem gæti mögulega þótt æsandi að sjá kroppinn – ef sá er af sama kyni. Þá hef ég ekki tekið eftir því að samkynhneigðir einstaklingar hafi sérstakan áhuga á því að eyða miklum tíma í búningsklefum slefandi yfir kroppunum sem þar sjást. Þegar ég reyni að setja mig í þær aðstæður held ég einfaldlega að það væri bara ekkert spennandi til lengdar.

Það er líka þannig að einhverjir strákar höfðu orð á því á Twitter að það væri alveg hætt að vera spennandi að sjá þessar geirvörtur. Þeir eru hættulega nálægt því að fatta punktinn. Sumir telja að það sé hlutverk kvenna að viðhalda einhverri kynferðislegri dulúð. Það er það bara ekki..

Brjóst eru ekki kynfæri hefur ítrekað verið sagt. Það hefur líka verið sagt í gegnum tíðina að heilinn sé stærsti kynfærið en við hyljum hann ekki til að viðhalda einhverri dulúð. Það er meira líffræðileg nauðsyn. Það er enginn glæpur að finnast geirvörtur, hvort sem það er á karl- eða kvenfólki, æsandi. Ekki frekar en það er glæpur að finnast varir, ökklar eða læri æsandi. En það er aðfinnsluvert að reyna að nota slíkt til að stjórnast í öðrum. Það hvað þér finnst æsandi er þitt mál og þú ættir ekki að gera það að vandamáli annarra.

Í samhengi hefndarkláms hefur oft verið sagt að stelpur eigi ekki að vera senda neinum myndir af sér fáklæddar. Það er innilega ekki vandamálið. Stóra vandamálið er að þeir sem fá þessar myndir skuli vera að deila þeim án leyfis. Stærsta vandamálið er að það sé einhvern veginn túlkað stúlkum í óhag að þær hafi tekið af sér myndir eða látið taka af sér myndir eða gefið einhverjum myndir af sér. Ef stúlkur lenda í því að myndum af þeim er dreift án þeirra leyfis ættu þær að geta borið höfuðið hátt og sagt frá því að það hafi verið fíflið hann Jói sem dreifði myndunum og við hin ættum að segja við Jóa að hann eigi að hætta að vera fífl.

Ef einhver lesandi hefur áhyggjur af því að í framtíðinni muni geirvörturnar koma í bakið á þeim sem tóku þátt í frelsun þeirra þá er lausnin einföld: Ákveddu að þú munir berjast gegn því. Í hópi þeirra sem sýndu geirvörturnar eru ráðherrar, forstjórar og forsetar framtíðarinnar. Þetta eru líka kennarar, hjúkrunarfræðingar og rafvirkjar. Þetta skiptir engu máli í því samhengi. Nema ef okkur þykir hugrekki til að storka órökréttum viðmiðum samfélagsins aðdáunarvert – ég veit að mér finnst það.

Sem þjóðfræðingur velti ég fyrir mér hvort að geirvörtuhátíðin mikla hafi verið jaðartími, ígildi kjötkveðjuhátíðar þar sem öllu er snúið á hvolf, eða upphaf af nýjum viðmiðum. Það skiptir ekki öllu máli. Hver sem niðurstaðan er þá var þetta jákvætt framtak og ég dáist að þátttakendum og lít ekkert niður á þær sem ekki sáu sér fært að vera með. Það sem skiptir máli er að þær eiga sjálfar valið.

Söguleg ónákvæmni Björns Braga

Það þarf náttúrulega að taka piltinn í sögukennslu. Nasistar slátruðu ekki Austurríkismönnum árið 1938. Þeir bara komu og tóku stjórnina. Satt best að segja ættu Austurríkismenn bara að fagna því að útlendingar haldi að þeir hafi yfirhöfuð reynt að berjast á móti.

Ef menn vilja taka betra dæmi um slátrun Austurríkismanna og líkja Íslendingum við einhvern sem er skárri en nasistar þá væri hægt að segja að Íslendingar hafi slátrað Austurríkismönnum eins og Napoleon slátraði forfeðrum þeirra í orrustunni við Austerlitz árið 1805.

Annars var Eygló með leikinn í gangi og Gunnsteinn sonur minn var að horfa á og ég verð að segja að það er óþægilegt að hafa svona brandara þegar krakkar eru að horfa.

Þessi bloggfærsla er unninn úr Facebook status sem ég skrifaði í gær.

Þjóðaratkvæðagreiðsla sem vopn en ekki prinsipp

Sumir aðhyllast þjóðaratkvæðagreiðslur sem prinsipp. Það er að þjóðin þurfi að taka beina ákvörðun um mikilvæg mál.

Það sem sést núna er að fyrrverandi stjórnarandstæðingar sem þá töluðu um þjóðatkvæðagreiðslur en hafna þeim nú eru ekki svoleiðis prinsippfólk. Þau vildu einfaldlega nota þjóðaratkvæðagreiðslu sem vopn í stjórnmálabaráttu.

Þetta sést augljóslega líka á því að það var prinsippmál að láta almenning í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu ákveða hvort ætti að semja um Icesave en þjóðaratkvæðagreiðslur um nýja stjórnarskrá var markleysa að mati sama fólks.

Sælir eru fáfróðir karlar

Í hvert skipti sem rætt er um að auka hlut kvenna (hvort sem það er í Gettu betur eða stjórnunarstöðum) kemur einhver og segir eitthvað á þessa leið:

En þetta er ósanngjarnt gagnvart konum því þær og allir aðrir vita að þær komust bara í þessa stöðu vegna kyns síns.

Þarna er punkturinn algjörlega misstur. Við búum í samfélagi þar sem karlmenn komast í stöður vegna kyns síns. Það getur verið vegna fordóma þeirra sem skipa í stöðurnar eða fordóma og mótunar samfélagsins almennt. Ég myndi segja að það væri augljóst að Sigmundur Davíð og Bjarni Ben séu báðir búnir að græða þannig á kyni sínu að þeir hefðu aldrei komist í þær stöður sem þeir eru í dag ef þeir væru konur. Til þess þá þyrftu þeir (þær) að vera miklu hæfari (allavega Bjarni Ben). En enginn segir að það eigi að vorkenna þessum mönnum. Mögulega er vandinn sá að þeir, og stór hluti samfélagsins, áttar sig ekki á því hvernig það fúnkerar.

„Sælir eru fáfróðir karlar“ getum við sagt „því þeir vita ekki að þeir eiga stöðu sína typpinu að þakka“.

Undirskriftalistar og fjölmiðlar

Galllinn við undirskriftalista er að þeir geta lifað og dáið vegna áhuga og áhugaleysis fjölmiðla. Nú geta landsmenn skrifað undir áskorun um að hafa veiðigjald óbreytt. Ef þessi undirskriftarlisti væri Morgunblaðinu þóknanlegur hefði verið birt tilkynning þar þegar listinn fór af stað og mjög reglulega fréttir um hvernig söfnunin gengur – allt til að styðja átakið.

Almenningur á, ólíkt útgerðarmönnum, engan fjölmiðil til að gæta hagsmuna sinna. Við þurfum sjálf að taka ábyrgð á því að vekja athygli á honum.