Jeremy Clarkson

Það er áhugavert að sjá umfjöllunina um ummæli Jeremy Clarkson. Ég get ekki séð annað af því sem hann segir að hann sé að fyrst og fremst að gera grín að hlutleysisstefnu BCC með því að koma fram með tvö fáránleg og gjörsamlega ósættanleg sjónarmið. En menn taka seinni hlutann algjörlega úr samhengi til þess að láta þetta líta illa út. Þegar ég var að leita að ummælunum í samhengi fékk ég upp ótal myndskeið sem byrja einfaldlega á orðum hans um að hann vilji taka þá af lífi sem eru í verkfalli. Toppurinn er síðan þegar hann talar um „okkur sem þurfa að vinna fyrir sér“ – það er augljóslega brandari en í stað þess að fatta þá stekkur fólk á þetta eins og það sýni endanlega hræsni hans.

Fyndnasta uppákoma helgarinnar

Í gær kom upp óborganlegt mál. AMX skúbbaði því að Þóra Kristín Ásgeirsdóttir á Smugunni, sem AMX hatar svo innilega að maður hlýtur að elska hana, hafi fengið styrk frá Alcan og með fylgdi undarleg samsæriskenning. Það hefði nú ekki þurft neinn með greindarvísitölu yfir meðallagi nema um fimm sekúndur til að sjá að þetta mál væri eitthvað skrýtið. Því miður er það einmitt manngerð sem AMX virðist ekki hafa innanborðs. Nokkrum mínútum eftir að skúbbið birtist fóru vinstri menn að pósta þessu á Facebook sem fyndnasta brandara helgarinnar enda er augljóst að hérna var um alnöfnu Þóru Kristínar að ræða enda dettur engum heilvita manni í hug að hún sé í hjáverkum að rannsaka hamfarir á Haítí (en til þess var styrkurinn til nöfnunar). Ég hló og hló.

Sjá annars Arngrím.

Svipan: Írski lýðveldisherinn og RIRA

Það er svolítið undarleg frétt á Svipunni um Írska lýðveldisherinn. Það er greinilegt að sá sem tók að sér að þýða frétt af Guardian þekkir ekkert til sögunnar á Norður Írlandi. Í fréttinni er sagt að IRA ætli að ráðast á banka. Þar stendur líka:

IRA var í raun lagt niður, með samningaviðræðum, en þeir hundrað baráttumenn sem enn eru í hópnum hafa ekki getað tekið við öllum þeim sem nú vilja ganga til liðs við samtökin aftur.

Í fréttinni á Guardian er tekið fram að samtökin sem eru að hóta árásum á banka er ekki það sem við köllum IRA heldur klofningshópur frá árinu 1997 sem kallast Real IRA. Þessi hópur varð alræmdur árið 1998 þegar hann sprengdi bíl í Omagh með þeim afleiðingum að 29 manns létust. Reiðin sem varð í kjölfarið fór langt með að tryggja að friðarsamkomulagið hélt. Þegar RIRA og Provisional IRA er ruglað saman eins og Svipunni þá kemur bara vitleysa út. Þarna er látið eins og RIRA hafi sömu stöðu PIRA hafði meðal lýðveldissinna en það er langt frá því. Þarna eru líka rangfærslur um aðgerðir Breta á Norður-Írlandi.

En það sem er náttúrulega verst í greininni er aðdáunin sem virðist skína undir á starfsemi RIRA. Þetta er bara hrottar og morðingjar og þeir batna ekkert við það að þeir vilji ráðast á banka.

Aðsendar greinar

Nú þegar ég hef horft á Örn Bárð ljúga ítrekað í aðsendum greinum í Fréttablaðið rifja ég upp það sem ég hef hugsað um þetta dagblaðaefni. Af hverju leyfa ritstjórar dagblaða fólki að ljúga í aðsendum greinum. Af hverju fer umsjónarmaður aðsendu greinanna ekki yfir þær og sendir spurningar til baka á höfundinn ef eitthvað er grunsamlegt. Það væri til dæmis hægt að spyrja „hvar sagði þessi það sem þú segir að hann hafi sagt?“ eða „hvaða gögn hefur þú máli þínu til stuðnings“. Ætli vandamálið sé ekki að þá myndu aðsendar greinar hætta að vera þægilegt uppfyllingarefni sem hentar um leið til að ritstjórnin geti stýrt hvaða mynd lesendur þeirra hafa af skoðunum almennings?

Endurvakning skynseminnar

Það er ákaflega skrýtið að fylgjast með bandarískri umræðu og þá sérstaklega hlut Fox sjónvarpsstöðvarinnar. Þeir sem hafa horft á Glenn Beck í nokkrar mínútur vita hvað ég á við. Þegar ég sé hann þá dettur mér alltaf í hug hasarmyndaparódíu sem birtist í The Simpsons þar hetjan McBain berst við kommanasista. Glenn Beck er alltaf í þeirri baráttu. Obama er ekki bara illur sósíalisti heldur líka nasisti. Sjálfur á Glenn Beck í persónulegu sambandi við guð og telur sig jafnvel vera sendiboða hans. Furðulegt val þar.

Jon Stewart og Stephen Colbert báðu um helgina Bandaríkjamenn um að reyna að endurheimta skynsemina (bókstaflega geðheilsuna en mér finnst það ekki ná merkingunni nægilega vel). Er kannski þörf á slíku á Íslandi í dag? Eru íslenskir fjölmiðlar og íslensk umræða í alvörunni svona mikið betri en við sjáum í Bandaríkjunum?

Skilti frá samkomunni í Washington.

Af íslenskum dagblöðum

Ég held að maður geti uppfært brandarann í ljósi stöðu dagblaða á Íslandi í dag.

Hvernig gerirðu kristilegan Evrópusambandsandstöðu Sjálfstæðismann óupplýstan? Tekur af honum Morgunblaðið.
Hvernig gerirðu kristilegan Evrópusambandsandstöðu Sjálfstæðismann illa upplýstan? Skilar því.

Viðbótin er náttúrulega:
Hvernig gerirðu kristilegan Evrópusambandssinnaðan Sjálfstæðismann óupplýstan? Tekur af honum Fréttablaðið…

Þið getið síðan fyllt upp í sjálf.

Undarlegur fréttaflutningur

Ég var að horfa á fréttir Stöðvar 2 áðan og ég andvarpaði.

Ein fréttin var um hver kostnaður Reykjavíkurborgar væri af gjaldskrárhækkunum Orkuveitunnar og það borið saman við rekstrarkostnað leikskóla. Nú er það svo að Orkuveitan er í vondum málum og þarf peninga. Nú veit ég ekki hverjar hlutfallstölurnar eru en Reykjavíkurborg á langmest í Orkuveitunni sem þýðir væntanlega að ef peningar koma ekki inn í gegnum gjaldskrárhækkun þá þarf borgin að setja peninga þarna inn.

Setjum þetta upp í dæmi. Aukin kostnaður Reykjavíkur vegna gjaldskrárhækkana er X. Peningarnir sem Reykjavíkurborg þyrfti að setja í Orkuveituna ef ekki yrðu gjaldskrárhækkana eru Y. Stöð 2 upplýsti okkur um að X væri 200 milljónir. Sú tala er hins vegar ekki sett í samhengi með því að segja okkur hvað leikskólar kostar (0,5X) heldur með því að segja okkur hvað borgin þyrfti annars að borga (Y).

Það eru allar líkur á að Y sé mikið hærri tala en X. Ef hún er til dæmis, mjög hóflega metið, 5X þá þýðir það að gjaldskrárhækkun Orkuveitunnar sparar Reykjavíkurborg Y-4X sem væru samkvæmt þessum forsendum 800 milljónir (eða 8 leikskólar). Líklega er talan þó hærri (og þar með fleiri leikskólar).