Cork – Dublin – Queen+ Adam Lambert

Uppáhaldsmyndefnið mitt í Cork. Brian Boru brú.
Uppáhaldsmyndefnið mitt í Cork. Brian Boru brú.

Þegar tónleikaferð Queen+ Adam Lambert um Evrópu var tilkynnt fór ég strax að plana að fara á tónleika. Við Eygló pældum í að fara saman en við ákváðum að ég myndi bara fara einn. Þá var líka augljóst að velja Dublin. Ég hafði nefnilega ekki komið til Írlands, allavega lýðveldisins, síðan árið 2007 þegar ég var þar eina önn í University College Cork.

Með hjálp góðs fólks á Queenzone náði ég að næla mér í miða á besta stað, standandi á svæðinu í kringum sviðið. Ég var að vona að ég gæti flogið til Cork og síðan til baka frá Dublin en WOW flaug bara til Cork út október og tónleikarnir voru 25. nóvember. Ég bókaði því flug til og frá Dublin. Ég sleppti því að borga aukalega fyrir að innrita tösku en splæsti smá aukapeningum í fótapláss.

Þannig að á fimmtudaginn var þá vaknaði ég um klukkan þrjú um nóttina til að taka leigubíl og síðan rútu út á flugvöll. Það var dásemd að innrita sig bara í símanum og rölta síðan með bakpokann í gegnum öryggisleitina. Ég var reyndar tekinn sérstaklega fyrir og leitað að leyfum af sprengjugerðarefnum á mér. Áhugavert að ég er reglulega tekinn í svoleiðis tékk en aldrei athugaður í tollinum. Sumsé, ekki smyglari en kannski hryðjuverkamaður.

Ég afrekaði ekkert á flugvellinum enda of þreyttur og róandi töflurnar sem ég er með við flughræðslunni gerðu mig ekki hressari. Þegar ég kom í vélina þá tók ég upp ferðakoddann minn og stillti á podcastið Sleep with Me sem er sérstaklega ætlað til að hjálpa fólki að sofa. Saman svínvirkaði þetta allt og ég tók varla eftir flugferðinni.

Ég hafði smá tíma í Dublin og gerði heiðarlega tilraun til að kaupa mat. Hann var ekki góður. Það er margt til að elska við Íra en matargerðarlistin er ekki lystug. Þar sem ég beið eftir rútunni til Cork hitti ég dreng sem hafði misst af flugvélinni sinni af því að hann vissi ekki, frekar en ég, að Írar eru orðnir svo hrifnir af Þakkargjörðarhátíðinni að umferðin er gríðarleg á þessum degi. Rútan kom og ég hoppaði um borð. Það var svona þriggja tíma ferð en svæfandi podcast og áframhaldandi þreyta gerðu þetta bara notalegt.

Í skuggasundinu þar sem ég hitti Carlos svo oft.
Í skuggasundinu þar sem ég hitti Carlos svo oft.

Þvílík og önnur eins skrýtin nostalgía var að koma til Cork. Ég rölti beint á hótelið og fór þar sama húsasund og ég fór alltaf á leiðinni heim á stúdentagarðana mína. Þar var enginn Carlos en samt einhver að betla þar. Hótelið mitt var um fimmtíu metrar frá mínu gamla heimili og var mjög gott. Ég fleygði af mér farangrinum og fór út að rölta.

Hluti af ferðamálamarkaðsherferð.
Hluti af ferðamálamarkaðsherferð.

Fyrsta stoppið var í Dunnes Store af því að Eygló hafði beðið mig um að líta þar eftir toppum sem hún var svo hrifin af. Ég fann þá og keypti. Ég keypti líka buxur á mig. En síðan var ráfað áfram.

Ég var glaður að finna Centra á Oliver Plunkett stræti. Sú búð var í uppáhaldi. Ég var ennþá glaðari að sjá að þar var ennþá langlokubar. Ég reyndar klúðraði og bað fyrst um samloku en leiðrétti mig síðan og bað um roll. Ég var auðvitað fyrst spurður hvort ég vildi smjör eða majónes. Ég valdi smjör, síðan kjúkling (cajun), stuffing (sem ég veit ekki nákvæmlega hvað er), ost og sæta chili sósu. Það er töfrablandan sem ég gat alltaf treyst á í þessu matargerðartómi sem Írland er. Og þetta var bara eins og þetta var GOTT.

Auglýsing sem sýnir húmor Corkbúa dálítið vel.
Auglýsing sem sýnir húmor Corkbúa dálítið vel.

Ég skoðaði í hinar og þessar búðir. Alls staðar var auglýstur svartur fössarri. Ég var hneykslaður á Írum að vera jafn ófrumlegir og Íslendingar. Afrek mín á þessum degi voru ekki mikil. Það var gaur að kyrja Echo, Echo, Evening Echo en það var ekki sami gamli kall og var fasti þarna fyrir tíu árum. Geisladiska og dvd-búðirnar sem ég sótti hart á sínum tíma voru allar horfnar. En ég fann skemmtilega túristaauglýsingu þar sem Íslendingar voru boðnir Velkomin í Cork. Það var greinilega hluti af stærri herferð.

Cork er stolt af sínum óþokkum.
Cork er stolt af sínum óþokkum.

Það sem var verst að sjá var allt heimilislausa fólkið. Fyrst þegar ég sá fólk sem hafði komið sér fyrir í svefnpokum í skotum fyrir framan verslanir datt mér í hug að þetta væri fólk sem vildi ná bestu tilboðunum þegar búðirnar opnuðu daginn eftir en ég sá fljótt svo var ekki. Þetta var orðið svo miklu verra en fyrir tíu árum. Miklu fleiri betlarar og miklu fleiri heimilislausir.

Dagurinn endaði á hótelinu þar sem ég fór í sturtu og horfði á The Punisher.

Ég tók föstudaginn rólega. Ég gerði heiðarlega tilraun til að borða írskan morgunverð en fyrir utan bakaðar baunir, egg og beikon þá var þetta óætt ógeð. Ég tók því sem smá bröns á skyndibitastað í miðbænum. Falafel.

En meginmarkmið dagsins var að fara í hádegismat með Cliona sem kenndi mér þjóðfræði fyrir tíu árum. Við höfum haldið sambandi í gegnum árin. Það var sama skrýtna tilfinningin að ganga í skólann. Sviðsmynd lífs míns eina önn fyrir tíu árum. Ég trítlaði aðeins um. Tók mynd af mér með nýrri brjóstmynd af helstu hetju UCC, honum George Boole. Graham Norton er hins vegar frægasti fyrrverandi nemi skólans.

Aðkoma háskólans míns gamla er falleg. Hliðið,
Aðkoma háskólans míns gamla er falleg. Hliðið,
brúin,
brúin,
gróðurinn
og áin.
og áin.
Þessi stytta af George Boole er ný.
Þessi stytta af George Boole er ný.
Aðalbyggingin
Aðalbyggingin
Skjaldarmerki háskólans. Þar sem Finbar kenndi skal Munster læra.
Skjaldarmerki háskólans. Þar sem Finbar kenndi skal Munster læra.

 

Ég labbaði um gömlu fallegu aðalbygginguna meðan ég beið eftir Cliona. Þar eru frægir steinar með fornri írskri stafagerð sem heitir Ogham.

Cliona fór síðan með mig upp í matsal starfsfólks sem er glæsilegur og gamaldags salur. Við borðuðum súpu í skugga Viktoríu drottningar. Það var sumsé stytta sem var upphaflega á gafli byggingarinnar (sem hét upprunalega Queen’s College Cork) en var tekin niður þegar Írland fékk sjálfstæði. Styttan var síðan grafin niður en síðan grafin aftur upp í lok síðustu aldar. Hún situr núna þarna og horfir á kennarana og heiðraða gesti þeirra borða. Hún er líka fræg fyrir hve ung Viktoría var þegar styttan var gerð.

Dómshúsið. Á tröppum þess kvaddi ég flesta Cork-vini mína fyrir tíu árum.
Dómshúsið. Á tröppum þess kvaddi ég flesta Cork-vini mína fyrir tíu árum.

Þegar ég var í Cork þá voru vinir mínir meira og minni aðrir erlendir nemar þannig að Cliona er helsta mannlega tenging mín við borgina. Við áttum langt og gott spjall um hitt og þetta. Hún hvatti mig áfram í heimildarmyndargerð og sagði mér að koma til þeirra og sýna hana þegar hún verður til. Mér fannst það vel boðið.

Ég átti ekki mikið eftir af Cork-dvölinni en ég ákvað að kaupa peysur á strákana þó það myndi þýða að ég þyrfti að kaupa auka handfarangursheimild á leiðinni heim. Það rigndi dáltið vel á föstudeginum sem rifjaði upp gamla tíð. En ég ráfaði líka bara mest. Síðan hótelið, pakka og sofa.

Það er svolítið undarlegt að þó ég hafi búið við Kent lestarstöðina í Cork þá fór ég þarna í fyrsta skiptið í lest þar.
Það er svolítið undarlegt að þó ég hafi búið við Kent lestarstöðina í Cork þá fór ég þarna í fyrsta skiptið í lest þar.

Ég vaknaði snemma á laugardagsmorgun. Skráði mig út af þessu fína gistiheimili og trítlaði þessa örfáu metra á lestarstöðina. Það var reyndar sjokk þegar ég kom í lestina og sá að ég hafði klúðrað einhverju þegar ég pantaði þannig að sætið mitt sneri aftur. Ég var skíthræddur um að ég fengi mígrenisógeð en sólgleraugun björguðu mestu.

Frá lestarstöðinni í Dublin tók ég sporvagn, Luas, í átt að gistiheimilinu. Vagninn var reyndar troðinn og ég með bakpoka á mér sem ég gat ekki losað vegna þrengsla. Fólk rakst endalaust í mig lítil gömul kona muldraði alltaf illilega og ýtti í mig ef ég kom of nálægt henni.

Þegar ég fór úr sporvagninum þá ákvað ég að treysta á Google Maps til að leiðbeina mér. Það voru mistök að treysta forritinu of mikið í Dublin því ég náði aldrei að átta mig. Það er svo nauðsynlegt þegar maður er að læra að rata. En ég endaði á gistiheimilinu og var sagt að herbergið mitt yrði laust eftir 20 mínútur. Ég hugsaði með sjálfum mér að það væri bara fínt. Ég ákvað að hoppa út að reyna að finna mér æti.

Ég hafði spottað út veitingastað með fína dóma en fann hann bara alls ekki. Að lokum kom í ljós að hann var inn á hóteli og ekkert merktur utan frá. Síðan þegar ég kom inn þá var enginn matur framreiddur þar inni heldur inn á barnum þannig að ég fór á barinn en enginn sýndi mér áhuga þar. Ég var búinn að sóa of miklum tíma og hélt að hótelherbergið mitt væri orðið tilbúið þannig að ég fór bara aftur þangað.

En hótelherbergið var ekki til. Tuttugu mínúturnar tvöfölduðust. En ég fékk lykilkortið mitt og náði að koma mér inn á herbergi og fleygja öllum óþarfa af mér. Næst var að koma mér niður í bæ og kíkja á nokkra staði sem ég var spenntur fyrir.

Ég kom mér niður í bæ og kíkti í búðir. Ég lenti í veseni með kortin mín í einni búð og þurfti að fara í hraðbanka til að redda mér. Ég kom sigri hrósandi aftur í búðina og glotti yfir því að geta sannað fyrir afgreiðslumanninum að ég ætti í raun og veru peninga til að láta þá fá. Ég fékk mér beikon og ostafranskar á stað sem heitir Eddie Rockets og þá rifjaðist upp fyrir mér að við Eygló hefðum örugglega borðað þar, fyrir eiginlega akkúrat nákvæmlega upp á dag (!) tíu árum, og fundist óspennandi.

Í bókasafninu í Trinity College
Í bókasafninu í Trinity College

Á leiðinni úr bænum náði ég að ruglast á áttum með hjálp Google Maps. En ég náði að finna Trinity College þar sem ég kíkti snöggt á Book of Kells en mér fannst eiginlega meira spennandi að kíkja á bókasafnið fræga. Það var ógurlega fyndið í bókasafnsfræðinni í gamla daga að tala um stærð bóka sem grundvöll flokkunarkerfis en þarna er kerfið bókstaflega þannig. Öllum bókum raðað eftir stærð og staðsetningin síðan skráð til að geta fundið bækurnar.

Ég var í stuði fyrir smá drama þannig að ég spilaði Óðinn til gleðinnar meðan ég rölti þarna um. Ég náði að láta einhverjum grey konum bregða með því að smella fingrunum ósjálfrátt í takt við tónlistina. En þetta var sumsé svolítið flott.

Næsta skref var að finna mér eitthvað gott að borða fyrir kvöldið. Ég ákvað að finna næstu Centra verslun og kaupa mér langloku. Ég notaði Google Maps og fann rétta staðinn en þá var komin Spar verslun í staðinn fyrir Centra. Ég setti því næstu Centra verslun sem áfangastað og sú var á sínum stað en samlokubarinn lokaður. Ég hafði því ekkert nesti fyrir kvöldið.

Ég kom mér aftur á hótelið Jacobs Inn til að henda af mér drasli. Þegar þangað var komið virkaði ekki lykilkortið. Ég þurfti að fara aftur niður og láta strauja það aftur. Þegar ég var aftur kominn í herbergið var engin handsápa. Ég hugsaði með mér að ég gæti þá bara notað sjampó eða baðsápu til að þvo mér um hendurnar. En nei. Engar slíkar sápur heldur. Bögg.

Ég kom mér síðan af stað í átt að tónleikahöllinni með einungis eina flösku af sódavatni í nesti. Þegar ég kom að 3Arena þá sá ég að það var sölubás þarna en ég sá ekkert spennandi og þar að auki var ekki í boði að borga með korti og ég átti bara fimmevruseðlil eftir.

Fyrir utan 3Arena
Fyrir utan 3Arena

Ég fór því bara í röðina. Hún var ekki löng en það var um klukkutími fyrir opnun. Ég spjallaði örlítið við fólkið þarna úti. Hitti tvær gamlar bandarískar konur sem virtust hafa ferðast um allan heim til að sjá Queen+. Þegar á leið vorum við beðin um að kynjaskipta röðinni til að láta káfa aðeins á okkur. Það voru fleiri karlar að káfa og okkur var öllum hleypt framar í röðina. Við reyndum margir að rýma svolítið til svo konurnar gætu komið sér aftur á sinn stað í röðinni en okkur var skipað að þétt okkur fram á við. Þannig að það voru aðallega karlar fremst.

Beint fyrir framan sviðið.
Beint fyrir framan sviðið.

Þegar okkur var hleypt af stað þá var okkur bannað að hlaupa þannig að þetta var eins og ólympíukeppni í hraðgöngu. Ég kom mér inn og tók mér stöðu fremst við sviðið – plássið í kringum rampinn fylltist fyrst. Reyndar var ég ekki við sviðið beint heldur fyrir framan gryfjuna sem öryggisverðir og ýmis tæki voru í en ég var ekki langt frá sviðinu.

Allt fólkið sem ég var að skyggja á.
Allt fólkið sem ég var að skyggja á.

Ég byrjaði á að setjast. Síðan byrjaði ég að kynnast fólkinu í kringum mig. Þarna var japönsk kona búsett í Dublin með 11 ára strákinn sinn, sem heitir Roger í höfuðið á trommaranum, með sér. Ég gaf þeim upp nafnið á podcastinu mínu. Þá voru líka tvær írskar konur frá Limerick. Önnur þeirra talaði mjög mikið og vildi helst vita hvort ég þekkti Thor. Ég var smá tíma að fatta að hún átti við kraftakarlinn Hafþór. Hún var sjálf systir sterkasta manns Írlands og reyndi að fá mig til að skipuleggja kraftakeppni á Íslandi og Suður-Írlandi. Hún ætlaði líka að segja öllum að hún hefði hitt besta vin sterkasta manns Íslands. Þeim fannst öllum fyndið að ég væri skólabókavörður.

Tónleikarnir byrjuðu um klukkan átta. Ég var mjög varfærinn í tilhlökkun. Stóri munurinn á þessum tónleikum og þeim sem ég fór á árið 2005 og 2008 með Queen+ Paul Rodgers var að þetta var miklu meiri sýning. Það var allskonar skemmtilegt að gerast og þar var vélmennið Frank, sem þið munið eftir framan af plötuumslagi News of the World. Þá er Adam Lambert alveg að leika sér að því að vera „camp“.

Satt best að segja fannst mér langmesta fjörið þegar hljómsveitin spilaði Stone Cold Crazy. Alveg ógurlega flott. Adam er mjög fínn söngvari en það var alveg punktur þar sem röddin hans kippti mér úr notalega ástandinu sem fylgdi tónlistinni og minnti mig á að hann er engin Freddie. Ekkert að honum sjálfum samt.

Við Roger með lagalistann og hann með trommukjuðann sinn
Við Roger með lagalistann og hann með trommukjuðann sinn

Í lok tónleikana þá kom rótari til Rogers litla tónleikafélaga míns og lét hann fá eintak af lagalista kvöldsins. Örskömmu seinna fékk hann líka trommukjuða frá Tyler Warren (sem var í Queen Experience þegar sú sýning kom til Íslands) sem trommar til viðbótar við Roger. Drengurinn var dáltið kátur og ég fyrir hans hönd. Ég kallaði hann lucky little bastard.

Brian í sviðsljósinu
Brian í sviðsljósinu
Roger gat ekki alltaf séð það sem gerðist á rampinum þannig að ég lyfti honum upp svo hann gæti séð trommusólóið hjá nafna sínum. Öryggisvörður bað mig síðan um að setja hann niður þannig að það reyndi ekki lengi á mig. En sá litli var glaður.
Roger gat ekki alltaf séð það sem gerðist á rampinum þannig að ég lyfti honum upp svo hann gæti séð trommusólóið hjá nafna sínum. Öryggisvörður bað mig síðan um að setja hann niður þannig að það reyndi ekki lengi á mig. En sá litli var glaður.
Glambert og Frank
Glambert og Frank
Það að vera fremst við sviðið var mjög gott að flestu leyti en Brian sneri baki í okkur þegar hann spilaði Love of my Life.
Það að vera fremst við sviðið var mjög gott að flestu leyti en Brian sneri baki í okkur þegar hann spilaði Love of my Life.
Brian að pósa fyrir mig
Brian að pósa fyrir mig
Roger að syngja
Roger að syngja
Pappírsstrimlum var skotið í lok tónleika og ég var næstum í skotlínu.
Pappírsstrimlum var skotið í lok tónleika og ég var næstum í skotlínu.
Roger með þeim írsku
Roger með þeim írsku

Þegar tónleikarnir voru búnir var ég svangur og þyrstur. Ég tók eftir nýjum matarvagni. Þar var úrvalið aðeins betra og ég gat keypt lítinn skammt af frönskum og kókdós. Það bjargaði mér alveg. Ég rölti heim meðfram Liffey sem er ekki nærri jafn fögur og Lee og íhugaði að bregða íslenskum tónleikagestum í brún með því að ávarpa þá á hinu ylhýra en ég var alls ekki í spjallstuði þannig að ég sleppti því.

Ég kom loksins að opinni kjörbúð þar sem ég gat keypt mér sódavatn, bæði til að drekka þá og fyrir morguninn. Ég bætti líka við Twixi til að hafa eitthvað svona aukalega ef ég yrði svangur. Afgreiðslumaðurinn spurði mig hvort tónleikarnir hefðu verið góðir. Sú spurning kom svolítið á óvart enda var ég búinn að ganga um kílómeter frá tónleikahöllinni. Afgreiðslumaðurinn spurði mig líka hvort að þetta hefði verið sama hljómsveit og kvöldið áður – bara með öðrum söngvara. Ég fattaði að hann var að vísa í að Queens of the Stone Age höfðu verið að spila þarna á föstudagskvöldið. Ég útskýrði fyrir honum að hljómsveitirnar væru alls ótengdar.

Þegar ég kom á hótelið bað ég um sápu og spurði eftir sjampói. Ég fékk loforð um sápu þó að ég hafi hváð þegar ég heyrði talað um „súpp“. Ég komst síðan ekki inn af því að lykilkortið mitt virkaði ekki heldur núna. Þá fékk ég skýringuna sem gott hefði verið að fá fyrr um daginn – kortið getur afhlaðist við návist við síma. Ég var sjampólaus þannig að ég notaði umrædda handsápu í sturtunni. Hún var ekki einu sinni spennandi af handsápu að vera.

Ég vaknaði um sjöleytið á sunnudagsmorgni. Ég ákvað að prufa létta morgunverðinn á hótelinu. Það kom í ljós að var aðallega ristað brauð og morgunkorn. Ég ákvað að borða bara á flugvelllinum. Ég hafði vandað mig við að velja mér rútuferð frá stað sem var nálægt hótelinu en ég átti greinilega við þann vanda að stríða að rugla saman O’Connell (gata) og Connelly (lestarstöð) þannig að ég þurfti að ganga dálítið til að ná rútunni.

Flugvöllurinn var eitthvað undarlega skipulagður þannig að mér sýndist á merkingunum að ég væri að fara í aðra flugstöð (terminal) en ekki að öryggishliðinu og ráfaði dáltið aukalega um. Írar virðast ekki telja mig líklegan hryðjuverkamann þannig að ég var tiltölulega fljótur í gegn.

Þá ætlaði ég að finna mér eitthvað að borða. Mér þótti allt svo óspennandi að ég ákvað að gefa Burger King séns. Ég valdi mér eitthvað góðgæti sem var síðan ekki til þegar ég kom að kassanum ég bað þá kjúklinganagga í staðinn. Þegar kom að því að borga var báðum kortunum mínum hafnað eins og daginn áður. Ég nennti ekki að eltast við mat sem ég var ekki spenntur fyrir og ákvað að fara nær hliðinu mínu þar sem merkingar bentu til þess að þar væru fleiri veitingastaðir í boði. En þá kom í ljós að þeir voru óspennandi og dýrir. En þá mundi ég eftir Twixinu sem ég keypti kvöldið áður og keypti mér bara sódavatn með og lét það duga til Íslands.

Flugið gekk vel með hjálp lyfja og svefnhlaðvarpsþáttar. Ég er ekkert ósáttur við Wow eftir þessa reynslu. Ég keypti ekkert nema nammi í fríhöfninni. Lukkulega er enginn áhugasamur um að fá sígarettur lengur og Eygló á sjálf vínbirgðir fram í tímann af því að hún drekkur ekki einu sinni það sem hún kaupir sjálf í tollinum.

Lentur
Lentur

Ég tók síðan rútu út í Holtagarða þar sem fjölskyldan tók glöð á móti mér.

Illugastaðir 2017

Við tókum eina máltíð úti við

Miðvikudaginn 26. júlí lagði ég af stað í leiðangur. Fyrsti áfangastaður var Vopnafjörður þar sem fjölskyldan beið. Ég keyrði af stað en ekkert áhugavert gerðist fyrr en rétt utan við Borgarnes þar sem ég sá mann á puttanum. Ég hafði ekki tekið upp puttaferðalang í mjög langan tíma enda yfirleitt með fjölskyldufylltann bíl.

Þetta var rétt rúmlega tvítugur franskur strákur á leið til Akureyrar. Rétt eftir að ég hafði tekið hann upp í þá stoppaði Vegagerðin okkur. Reyndar var þar á ferðinni drengur með skilti sem stóð á Stop. Ekki draumastarfið en hann hafði allavega síma og stól. Við biðum meðan Vegagerðarbíll leiddi bílaröðina sem kom á móti okkur. Þetta var til að takmarka grjótkast. Þegar Vegagerðarbíllinn hafði snúið við þá sneri drengurinn í stólnum skiltinu sínu við og þá stóð Go.

Spjall okkar náði um heim og geima. Ég var ekki lengi að segja honum frá fjölskyldutengslum mínum við Frakkland og hann tók það ekkert nærri sér. Fljótlega fórum við að tala um franska pólitík og ég talaði illa um Le Pen sem var ekkert sérstaklega djarft enda var puttaferðalangurinn, eins og hann útskýrði seinna, barn franskrar móður og föður frá Kongó. Ég veðjaði sumsé réttilega á að hann væri ekki stuðningsmaður Front National. Það gladdi mig svolítið þegar puttaferðalangurinn spurði mig um svart fólk á Íslandi. Ég gat sagt honum frá blámönnum, Hans Jónatan, bandarískum hermönnum og fyrsta skiptinu sem ég sá fullorðinn svartan mann. Hann sagði mér líka frá því þegar hann fór í heimaþorp föður síns þar sem börnin bentu á hann og kölluðu, á sinni tungu, „hvítur, hvítur“.

Ég uppfræddi þann franska um íslenskan mat. Þar á meðal benti ég honum á að eina mögulega ástæðan fyrir því að borða hákarl væri að geta sagt einhverjar karlmennskusögur af sjálfum sér. Ef hann vildi borða ekta mat heimamanna þá ætti hann að fá sér hamborgara með frönskum á milli eða djúpsteikta pylsu. Ég nefndi líka að lambakjöt væri líka boðlegt og þá sérstaklega hangikjöt.

Ég skutlaði franska drengnum á tjaldstæðið á Akureyri en byrjaði þá fljótlega að heyra undarleg hljóð úr bílnum. Ég þorði ekki að keyra mikið lengra og gladdist í hjarta mínu að bíllinn væri leiðinlegur á Akureyri. Ég gat nefnilega hringt í Svavar frænda sem reddaði mér inn á verkstæðið með litlum fyrirvara. Þar kom í ljós að undir bílnum var óhóflegt magn af steinum og tjöru. Því var sópað undan og ég gat haldið áfram ferðinni, óendanlega þakklátur frænda og hans fólki.

Eftir að hafa borðað hamborgara með frönskum á milli dreif ég mig austur. Það var tíðindalítið ferðalag. Það var þoka á heiðum og ég varð hálfringlaður þegar ég kom niður að þorpinu því vegurinn hafði ekki verið tilbúinn síðast þegar ég kom. Það var mikil gleði hjá drengjunum þegar ég kom og líka hjá mér. Ég hafði alveg saknað þeirra. Eygló var líka glöð að sjá mig en ekki jafn óstjórnlega og þeir tveir.

Ég eyddi fimmtudeginum á Vopnafirði, fór í sund og hitti tengdafólk. Ég hafði reyndar náð að missa af besta veðri sumarsins þarna fyrir norðan og austan og var einmitt að missa af besta veðrinu fyrir sunnan. Á föstudag fórum við síðan af stað í átt að Illugastöðum þar sem við höfðum leigt sumarbústað. Það gekk allt vel. Drengirnir þægilegir ekkert óhóflega margir ferðamenn á veginum. Við hentum dótinu okkar inn á Illugastöðum og, eftir að hafa hlustað á ofurjákvæðni Gunnsteins, þá drifum við okkur til Akureyrar þar sem við keyptum nauðsynjar í Bónus. Kvöldmaturinn var síðan snæddur á Bryggjunni.

Laugardagur í sumarbústað var leti. Við byrjuðum á sundi og afrekuðum síðan sem minnst. Við lærðum líka aðeins á heita pottinn. Þegar hér var komið við sögu þá var jákvæðni drengja farin að minnka. Skortur á netsambandi var þar ofarlega á kvörtunarblaði. Það var víst ekki hægt að vita hve mörg myndbönd Unspeakable væri búinn að setja á YouTube meðan við vorum þarna í menningarleysinu. Ég endaði sjálfur á því að sogast inn í einhvern breskan þátt um matráðskonu sem stal lottómiða. Það var hálfdapurlegt hvað ég var farinn að taka þetta allt nærri mér. Við Eygló enduðum síðan kvöldið á að horfa á laugardagsmyndina á RÚV saman.

Sunnudagur byrjaði á sundi og síðan lagði Eygló til að við myndum fara til Grenivíkur. Ég reyndi að fá skýringu á þessari undarlegu hugmynd en hún vildi bara sjá þorpið. Ég veit ekki hvers vegna. En þarna fórum við. Við komust þangað og keyrðum um þorpið allt og stoppuðum síðan við skólann þar sem ætlunin var að drengirnir myndu hreyfa sig aðeins. Gunnsteinn var mjög glaður en Ingimar hafði vaknað eitthvað pirraður og samþykkti enga skemmtun. Á meðan á þessu stóð keyrðu þorpsbúar allir framhjá okkur og störðu. Mér leið svolítið eins og ég væri í Stephen King bók.

Til að reyna að gleðja Ingimar skruppum við í Jónsabúð til að kaupa ís. Hann vildi ekki koma með þannig að við Gunnsteinn fórum einir inn. Ég valdi trúðaís handa Ingimari og ætlaði að sigra hann þannig. Það var hins vegar óstjórnlega rangt hjá mér. Hann vildi velja ísinn sjálfur. Eygló náði að hugga hann og fá hann til að velja nýjan ís meðan sá gamli byrjaði að bráðna. Reyndar fékk trúðaísinn ekki að verða að mauki því að Ingimar var til í að fá smá auka ís þegar hann var búinn með sinn útvalda. Gunnsteinn fékk líka af honum.

Ein helsta gleðin við að fá trúðaís er auðvitað að fá flautu til að gera fullorðna brjálaða. En þegar Gunnsteinn ætlaði að losa sína flautu gekk það ekkert. Ingimar var fljótur að bjóða fram sína þjónustu, sagðist geta gert þetta og stóð við. Þetta var síðan endurtekið á hinni flautunni. Ingimar er greinilega harðhentastur.

Við enduðum á Akureyri þar sem við bættum aðeins við nauðsynjar og fórum aftur á Bryggjuna sem var greinilega orðin eftirlætisstaður hjá drengjum, og svo sem okkur líka.

Mánudagurinn var hefðbundinn með sundi og síðan komu Hafdís og fjölskylda í heimsókn og grill. Það var alveg ógurleg gleði hjá krökkunum en þó voru Sunna og Gunnstein sérstaklega ánægð að leika saman. Við reyndum að fara í mínígólf staðarins en það gekk ekkert rosalega vel af því að flugurnar reyndu að éta okkur. Sérstaklega okkur Hafdísi og börnin á meðan Mummi og Eygló sluppu mun betur. Ég var næstum búinn að missa mig yfir helvítisflugunum.

Á þriðjudag var farið í Mývatnssveit (eftir hið daglega sund), sem hljómar reyndar ekki sem góð ákvörðun miðað við ævintýri mánudagsins. Við borðuðum á Daddapizzu sem var mjög gott en ekki ódýrt nema á mælikvarða Mývatnssveitar. Við fórum síðan og röltum um Dimmuborgir. Gunnsteinn var voðalega glaður fyrst að sjá jólasveinahelli en þolinmæðin var ekki algjör meðan við gengum rúmlega tveggja kílómetra hring. Ég hafði ekki komið í Dimmuborgir lengi og þótti voðalega skrýtið að sjá þetta svona túristavætt. Það skánaði aðeins þegar við vorum komin þarna lengra inn.

Eftir Dimmuborgir komum við við í Samkaup og keyptum okkur ísa. Það var erfið ákvörðun hvað ætti að gera næst en við ákváðum að Fuglasafnið yrði fyrir valinu. Ég reyndi auðvitað að ljúga því að drengjunum að þeir væru að ruglast og þetta væri í raun flugnasafn – sem væri auðvitað miklu meira viðeigandi. En Fuglasafnið sló í gegn. Það boðaði líka gott þegar önd rölti á undan okkur inn. Ingimar heillaðist af haferni en Gunnsteinn var meira að pæla í heildinni. Eftir þetta var bara farið beint í bústaðinn.

Miðvikudagur byrjaði á hinu hefðbundna sundi en síðan fórum við á Akureyri að hitta Rósu og Lindu í Kjarnaskógi. Ég skrapp reyndar fyrst á nýopnaðan skyndibitastað sem heitir Aleppo. Það er var voðalega indælt að sjá aðeins koma fjölbreytt líf í göngugötu heimabæjarins. Í Kjarnaskógi var nýr leikvöllur prufaður eftir að við höfðum náð að hrekja vinnuvélar á brott. Síðan var völundarhús skoðað. Það er líklega ekki nýtt en líklega er ekki langt síðan það náði boðlegri hæð. Eftir það var farið inn í Hrafnagil að hitta Hafdísi og fjölskyldu aftur.

Á fimmtudag höfðum við stór plön um að fara í Ásbyrgi og Axarfjörð og jafnvel að Dettifossi. Það var hins vegar voðalega lítil stemming fyrir langferð þannig að við enduðum með að dúlla okkur, eftir sundið, og að síðan fórum við í stutta ferð að Goðafossi. Við fórum alveg að fossinum sem stendur auðvitað fyrir sínu. Það er skrýtið að vera umvafinn ferðamönnum þarna. Við versluðum aðeins á Fosshól og það voru mistök. Það var rándýrt og nær ekkert var verðmerkt. Þá kom í ljós að mjólkin sem við keyptum þarna var ónýt.

Eins og venjulega tókum við kvöldið í pottinum, allavega við strákarnir. Við vorum sammála um að lágmarkshitinn væri full hár þannig að við tókum okkur til og stilltum pottinn á næturhita. Hægt og rólega fór hitastigið niður í tæpar 29° sem var notaleg tilfinning. Heiti potturinn þarna var reyndar af frekar leiðinlegri tegund. Hann er mjög óreglulegur sem er ætlað til þess að maður geti setið og legið í ýmsum stellingum en aðallega varð það til þess að maður rann auðveldlega til og misteig sig þegar maður var á ferðinni. Þar að auki var óþolandi vesen að þrífa hann enda rann vatnið ekkert almennilega úr honum heldur festist bara í öllum þessum kimum.

Við tókum föstudagsmorgun í sundlauginni, við strákarnir. Ég synti reyndar nær ekkert enda þurfti athyglin að vera á Ingimari. Við bjuggum í annað skiptið til „hatt“ úr kleinuhringjum og pylsu. Það vakti mikla lukku. Reyndar hafði Eygló fengið hláturskast þegar ég fór fyrst inn í þetta daginn áður. Eftir að hafa þrifið og drifið allt draslið í bílinn keyrðum við til Akureyrar. Bryggjan varð fyrir valinu. Reyndar hafði Ingimar fyrst sagt flatt nei við því en að lokum áttuðum við okkur á því að hann vildi endilega fá franskar og vissi ekki að það væri alveg hægt að panta þær þarna. Þegar hann var upplýstur um stöðu fransknanna þá tók hann gleði sína á ný og samþykkti Bryggjuna.

Drengirnir voru yndislegir í bílnum. Við tókum bara eitt pissustopp enda var gulrót við enda leiðarinnar til Reykjavíkur, KFC í Mosfellsbæ. Maturinn þar er vissulega alveg ágætur, og það fást franskar, en aðallega er það leiksvæðið sem heillar.

Það var mikil gleði að komast heim nema að blokkin er að missa græna litinn og orðin full hvít sem er full ljótt.

Placebo í Kaupmannahöfn – haust 2016

Í vor fann ég rosalega fyrir því að ég hefði ekki séð neina hljómsveit sem er í verulegu uppáhaldi hjá mér lengi. Ég fór og skoðaði hverjir væru á ferðalagi og hverjir væru bráðum að fara á ferðalag. Þá kom upp að Placebo væri að fara af stað á tuttugu ára afmælistúr. Við fórum á Placebo þegar þeir komu til Íslands árið 2004 og ég hefði alveg verið til í að fara á venjulega tónleika með þeim en á afmælistúrnum átti að leggja áherslu á eldri lög. Eins og yfirleitt þá er maður meira tilfinningalega tengdur eldri lögunum, bæði af því að maður hefur þekkt þau lengur og líklega af því að maður er líklegri til að taka lög inn á sig þegar maður er yngri.

Það hentaði ágætlega að afmælistúrinn byrjaði í Danmörku. Í Árósum á fimmtudagskvöld og í Kaupmannahöfn á föstudagskvöld. Þar sem ég á fleiri vini í Árósum en Köben var ég dálítið að spá í að fara þangað. En vinnulega hentaði auðvitað betur að taka föstudagskvöldið. Ég keypti tvo miða og bauð Eygló að koma með.Við pöntuðum svo pössun að austan.

Eygló fékk ágæta samloku á Leifsstöð
Eygló fékk ágæta samloku á Leifsstöð

Á fimmtudaginn í síðustu viku var þá kominn tími á ferð. Tengdamamma komin að passa drengi sem virtust ekkert ætla að sakna okkar. Ég fékk ætan hamborgara á Leifsstöð en Eygló fékk grillaða samloku sem var góð á bragðið. Í flugvélinni lenti ég fyrir aftan konu sem hallaði sætinu sínu svo harkalega aftur að hún klessti á hnéið mitt þannig að ég vaknaði upp af ljúfum draumi. Ég eyddi næsta eina og hálfa klukkutíma í að pota í stólbakið hennar og hrista stólinn hennar þar til hún gafst upp og færði sætið fram. Fólk sem hallar sæti sínu aftur í svona þröngum sætaröðum á ekki heima í mannlegu samfélagi.

Við drifum okkur í gegnum Kastrup og tókum lestina í borgina. Reyndar enduðum við á fyrsta farrými án þess að hafa borgað fyrir slíkt en ég var alveg tilbúinn með “ég er heimskur útlendingur” ræðuna mína ef einhver myndi gera athugasemd.

Eygló á Just Thai
Eygló á Just Thai

Í Kaupmannahöfn bað ég Eygló að treysta mér og ég óð af stað í áttina að hótelinu okkar Copenhagen Island Hotel sem ég hafði aldrei áður heimsótt. Áttavitinn minn er auðvitað traustur. Við fleygðum af okkur farangri og ákváðum að vera löt og kíkja bara í verslunarmiðstöðina Fiskitorgið sem er bara við hliðina á hótelinu. Þar náði Eygló að sannfæra mig um að fara á tælenskan stað sem heitir Just Thai og er með hlaðborð. Það var alveg hroðalega gott.

Síðan var það bara að fara aftur á hótelið og fara að sofa. Copenhagn Island Hotel segist vera með módern innréttingar. Það þýðir greinilega að bandarískur uppafjöldamorðingi frá níunda áratugnum sá um að velja húsgögn og liti. En það var fínt. Eina sem ég get sagt slæmt um herbergið er að sturtan var ekki góð fyrir hávaxinn mann og ljósarofinn á rúmgaflinum var illa staðsettur þannig að ég vaknaði ítrekað við að ég hafði sjálfur óvart kveikt ljósin.

Við aðlöguðumst dönskum tíma bara alls ekki og vorum glöð að vera ekki í morgunmat. Þegar við vorum að koma okkur á fætur rakst ég á undarlega tilkynningu frá tónleikastaðnum. Þar stóð að þeir vissu ekki betur en að Placebo myndi spila um kvöldið. Ég hugsaði með sjálfum mér að þarna væri fólk sem tæki tillit til fólks með kvíða og hjálpaði þeim með því að birta svona ítrekanir. En síðan skoðaði ég betur. Brian Molko söngvari Placebo hafði víst horfið af sviði kvöldið áður í Árósum eftir að spilað tvö lög og röflað samhengislaust. Við ákváðum að fylgjast vel með fréttum dagsins.

Við rafhjólið
Við rafhjólið

Eftir að hafa horft á þátt af Travel Man með Richard Ayode náði ég að sannfæra Eygló um að leigja okkur hjól í Kaupmannahöfn. Við tókum meiraðsegja með hjálma til að vera svoltið öðruvísi. Fyrirtækið heitir bycyklen.dk og þetta eru rafhjól. Þau eru hins vegar mjög þung og því ekkert sérstaklega skemmtileg. En þau dugðu vel. Ég sá líka út að það væri betra að kaupa mánaðaráskrift heldur en að borga fyrir hvert skipti. Ég gat líka fengið tvö hjól í einu.

Það vildi svo vel til að rétt við hótelið okkar var stöð með hjólum. Við ákváðum því byrja á að hjóla alveg út á Kóngsins nýja torg og rölta síðan til baka í átt að hótelinu okkar. Við skildum eftir hjólin á stöð sem var fyrir framan Magasín norðursins. Við fórum síðan þar inn og fengum okkur að borða. Ég fékk einhverja voðalega fansí og óspennandi samloku. Eygló var spenntari fyrir Magasín en ég þannig að ég lagði til að hún fengi að fara þar ein á laugardeginum.

Við gosbrunninn á Ráðhústorgi
Við gosbrunninn á Ráðhústorgi

Við röltum Strikið í átt að Ráðhústorgi. Eygló keypti föt á drengina í H&M á meðan ég missti lífsviljann. Games og Faros Cigar eru ennþá skemmtilegustu búðirnar þarna (Games í Jorcks Passage og Faros bara rétt handan við hornið þegar maður kemur út úr Jorcks Passage). En ég keypti svo sem ekkert. Við komum við á Lagkökuhúsinu og ég fékk mér snigil sem mér finnst vera hápunktur danskrar matargerðarlistar. Eygló fékk sér flødebollespøgelse.

Rúta og flutningabílar Placebo
Rúta og flutningabílar Placebo

Síðan var það heim á hótelið og að safna orku fyrir tónleika – og að athuga hvort tónleikarnir yrðu ekki örugglega. Við plottuðum leiðina á Vega, þar sem tónleikarnir áttu að fara fram, og fundum okkur góðan indverskan stað í nágrenni við hann. Ég náði að sannfæra Eygló um að hjóla þangað. Það gekk þolanlega en leiðarkerfið á spjaldtölvu hjólsins var eilítið ruglandi. Eftir að hafa skilað hjólunum kíktum við á röðina við Vega og sáum rútur og flutningabíla sem tilheyrðu væntanlega Placebo.

Eygló á Taj Diner
Eygló á Taj Diner

Þegar við komum þar sem indverski staðurinn átti að vera þá var þar ekkert skilti sem benti til þess að þetta væri staðurinn sem ég var að leita að en það var samt indverskur staður þar. Við fórum þangað og sáum að það var allt fullt af Indverjum. Líklega góðs viti. Við pöntuðum mat og smá saman komust við að þeirri niðurstöðu að þarna væru líklega vinir og vandamenn að fagna opnuninni með eigendunum. Við fengum alveg fínan mat.

Eygló leyfði mér að reyna að finna betri leið frá veitingastaðnum að Vega heldur en Google Maps hafði sagt okkur að fara. Ég var voðalega feginn þegar það gekk upp. Það var hleypt inn í hollum og við vorum fljótlega komin inn. Við fórum upp í tónlistarsalinn. Þar benti Eygló mér á að það væru svalir sem við gætum kannski athugað. Við gerðum það og sáum að þar var hallandi sætaröð. Við fengum staðfest að við mættum sitja þar sem við settumst því þar. Frábært útsýni yfir sviðið.

Takkasímar bannaðir
Takkasímar bannaðir

Vega er voðalega kósí stærð. Tekur eitthvað um tvöþúsund manns. Við sem fórum þarna vorum öfunduð af þeim sem ætluðu að fara á Placebo seinna í túrnum á stærri stöðum. Það var líka reykingabann á Vega sem var stór plús. Kaupmannahöfn hefur reyndar skánað mikið reykingalega séð en það er ennþá sígarettufýla í loftinu.

Á tónleikum
Á tónleikum

Upphitunarhljómsveitin var The Mirror Trap. Ég hafði hlustað dáltið á hana og vissi að hún væri mjög fín og það stóðst. Þeir sögðu ekkert um ástandið á Molko en nefndu að við ættum að skemmta okkur á Placebo. Ég var samt enn óstyrkur.

Rétt fyrir níu byrjaði nýlega útgefið, en þó gamalt, myndband við Every Me, Every You að spila. Eygló hélt þá að myndböndin kæmu kannski bara í staðinn fyrir tónleika. Það kom líka svona niðurtalningarmyndband með klippum úr tuttugu ára sögu Placebo (þar vantaði reyndar nær alveg gamla trommarann þeirra). Síðan byrjuðu hljóðfæraleikarnir að koma á sviðið og að lokum Stefan. Þá byrjuðu þeir á síendurteknu upphafsstefinu á Pure Morning. Mér fannst það standa í einhverjar mínútur en spennan ýkir það væntanlega. Loks kom Molko á svið við töluverðan fögnuð tónleikagesta.

Placebo
Placebo

Þeir héldu áfram með Pure Morning og fóru síðan í Loud Like Love. Eftir það sögðu þeir, líklega Molko, “We Made It”. Hvort það var almenn vísun um að þeir hefðu komist til að halda tónleika eða að þeir hefðu náð að spila fleiri lög en kvöldið áður veit ég ekki. Brian talaði smá áður en þeir spiluðu nýja lagið Jesus Son en mín tilfinning var að hann hafi verið af kvíðinn til að tjá sig vel. Eygló sagði að ég hefði verið taugaóstyrkur fyrir hönd Brian alveg fram á fjórða lag.

David Bowie og Placebo
David Bowie og Placebo

En tónleikarnir keyrðu af stað. Fyrsti hápunkturinn var þegar þeir spiluðu Without You I am Nothing þar sem David Bowie fékk að syngja með af bandi og sást á myndbandi bak við hljómsveitina. Þó fyrrihlutinn hafi verið æði þá náðu þeir að toppa allt með seinnihlutanum sem byrjaði með Slave to the Wage. Mér fannst síðan Special K svo frábært. Manni fannst eins og allir væru að syngja með. Eygló segir að ég hafi ærst við að heyra Nancy Boy. Það var fyrsti smellurinn þeirra og er bara svo yndislegt lag að mér finnst að þeir ættu að fá Nóbelinn fyrir það. Það voru tvö uppklöpp og þeir enduðu á Running Up That Hill sem er upphaflega með Kate Bush en kom út á Covers plötunni þeirra.

Lagalisti:

Lagalistinn á Vega
Lagalistinn á Vega

Pure Morning
Loud Like Love
Jesus’ Son
Soulmates
Special Needs
Lazarus
Too Many Friends
Twenty Years
I Know
Devil in the Details
Space Monkey
Exit Wounds
Protect Me from What I Want
Without You I’m Nothing
36 Degrees
Lady of the Flowers
For What It’s Worth
Slave to the Wage
Special K
Song to Say Goodbye
The Bitter End

Fyrra uppklapp

Teenage Angst
Nancy Boy
Infra-red

Seinna uppklapp.

Running Up That Hill

Þess má geta að ég sá mynd af áætluðum lagalista frá kvöldinu áður og þar var lagið Meds inni. Það hefði verið of viðeigandi miðað við heilsuvandræði Brian og ég giska að það sé ástæðan fyrir að því var sleppt.

Þetta var innilega þess virði. Eygló vildi kíkja á eitthvað “eftirpartí” en ég var alveg búinn þannig að við röltum bara heim á hótel.

Eygló á gömlum slóðum
Eygló á gömlum slóðum

Eftir að hafa farið aftur á Just Thai á Fiskitorginu fórum við á gamlar slóðir Eyglóar frá því í tíundabekkjarferðalaginu hennar. Hún fékk mig með á lúmskan hátt – hún stakk upp á hjólatúr. Við fórum sumsé að Bellehöjfarfuglaheimilinu og röltum síðan í kringum einhverja tjörn þarna. Nostalgíutúrnum lauk með því að fara á bakaríið sem hún heimsótti á hverjum degi í útskriftarferðinni.

Eftir þetta hjóluðum við á Kóngsins nýja torg þar sem ég skildi Eygló eftir þannig að hún gæti fengið útrás fyrir magasínblæti sitt. Þessir hjólatúrar voru stórskemmtilegir og það er bara ekkert mál að hjóla þarna. Ég var reyndar stundum smá óviss með vinstri beygjurnar og síðan var leiðsöguforritið dáltið ruglandi. Sjálfur fór ég bara og skilaði hjólinu rétt við hótelið og kom aftur við í lágverðsversluninni Aldi þar sem ég keypti fjórar sódavatnsflöskur á fimmtán danskar. Afgreiðslumaðurinn spurði mig hvaðan ég væri og þegar ég sagðist vera frá Íslandi þá klappaði hann höndunum fyrir ofan höfuðið og sagði “húh”. Ég held að ég hafi aldrei verið glaðari með fótbolta en akkúrat þá. Á hótelinu kannaði ég úrvalið á danska Netflix.

Eftir að hafa sent mér mörg villandi skilaboð komst Eygló loksins aftur á hótelið. Hún hafði þá treyst leiðbeiningum Google um hve lengi hún væri að labba en herra Google hélt að hún væri hjólandi.

Vafasamur maður á Shezan
Vafasamur maður á Shezan

Við fundum pakistanska staðinn Shezan á Istegade og borðuðum kvöldmat þar. Hann var góður en ekki jafn góður og dómarnir höfðu gefið til kynna. Sem fyrr þá dáðist Eygló að því hve duglegur ég væri að nota dönskuna mína á meðan hún treysti mest á ensku. Ég sagði henni að hún þyrfti að segja Hafdísi systur minni það.

Við höfðum ætlað að eyða kvöldinu í Tívolí en því var aflýst vegna rigningar. Í staðinn fórum við á hótelið eftir að hafa athugað hvort það væri nokkuð spennandi í bíó.

Eins og allir góðir foreldrar sem eru í fríi frá börnum sínum þá notuðum við aftur tækifærið á sunnudagsmorgni til að sofa út. Við tékkuðum okkur út alveg á síðustu mínútu og skildum farangurinn eftir á hótelinu.

Senjóríta á Senorita
Senjóríta á Senorita

Hádegismaturinn var borðaður af hlaðborði á notalengum stað sem heitir Senorita. Reyndar átti ég eftir að sjá eftir Tacokjötsáti mínu því ég var aumur í maganum það sem eftir var dagsins. Ekkert hræðilegt og líklega ekkert að matnum nema að hann var fullkryddaður fyrir maga minn sem var mögulega þreyttur á sterkum mat í öll mál.

Við galloppuðum á Galloppen
Við galloppuðum á Galloppen

Eygló vildi næst rölta að Tívolí og þegar þar kom þá plataði hún mig inn þó við hefðum varla nema klukkutíma þar. Hápunkturinn frá mínu sjónarhorni var þegar við spiluðum Gallopen alveg eins og Richard Ayoade. Hápunktur Eyglóar var væntanlega þegar hún sveiflaðist um tugi metra upp í loftinu á nornapriki á meðan ég stressborðaði ristaðar möndlur.

Til að vera róleg síðustu tvo klukkutímana fórum við á Fiskitorgið og skoðuðum búðir. Þar keypti ég það eina sem ég keypti fyrir sjálfan mig, Chromecast Audio sem ég ætla segja við hátalarana í svefnherberginu.

Hótelið næst, síðan lestarstöðin, næst troðfull lest með miða sem við höfðum óvart keypt of snemma þannig að þeir voru útrunnir. Mér leið illa. Á Kastrup byrjuðum við á því að elta uppi Global Blue Tax Free dæmið og voru send fram og til baka. Í leiðinni lentum við á meinhæðnum tollverði sem nennti greinilega ekki túristum sem ekki vissu hvað þeir væru að gera.

Þegar við vorum komin inn á fríhafnarsvæðið reddaði ég mér bara kóki til að sötra á meðan Eygló reyndi að finna sér eitthvað til að kaupa. Ég endaði með að bíða eftir henni sitjandi á gólfinu við hliðið okkar. Lukkulega var fyrst hleypt inn pakkinu á Saga Class og síðan fólkinu aftast í vélinni þannig að við, sem höfðum sæti við innganginn (og neyðarútganginn) máttum hvort eð er ekki fara inn fyrren síðast.

Kominn aftur á Leifsstöð.
Kominn aftur á Leifsstöð.

Ég naut þess að hafa pláss fyrir fæturna mína í vélinni. Eygló fékk síðan það hlutverk að benda villuráfandi farþegum á að þó dyrnar væru lokaðar þá væri salernið ekki endilega upptekið. Við hlið mér sat ágæt kona að öðru leyti en því að hún át endalaust einhverjar hnetur. Ég hefði líklega dáið ef ég hefði ofnæmi en í staðinn fékk ég bara meiri óþægindi í magann (of dramatískt?).

Það var lukkulega lítið að gera á Leifsstöð. Ég keypti nammi fyrir vinnuna og beið síðan bara eftir töskunum. Á leiðinni út greip Tollurinn mig ekki. Ég veit ekki hvernig ég á að taka þessu sinnuleysi Tollsins í minn garð. Ætli þeir séu svona klárir og sjái bara á mér að ég er ekki smyglaratýpan?

Hérna eru síðan fleiri myndir.

Ráfað um Manhattan

Óli og bókasafnsljóniðVið höfðum lengi talað um að skreppa til New York. Hvorugt okkar hafði heimsótt Bandaríkin. Við gerðum alvöru úr þessu á fimmtudaginn, afmælisdaginn minn.

Á Leifsstöð fékk ég sérmeðferð. Nafnið mitt var á einhverjum sérstökum lista yfir fólk sem þyrfti að fara í auka leit. Hvort það var handahófskennt eða tengt mínum róttæka bakgrunni. Annars sást að ég yrði skoðaður sérstaklega af því að stóð SSSS á miðanum mínum.

Við lentum á JFK um sjöleytið og tókum leigubíl á Edison Hotel sem er alveg við Times Square. Við höfðum skoðað nágrennið og ákváðum að byrja á að fara á ekta bandarískan keðjustað, Olive Garden. Hann var svona nokkurn veginn eins og maður bjóst við. Góður matur en ekki fínn. Svona bara eins og ég. Mér fannst ég innilega vera kominn til Bandaríkjanna þegar þjónn kom með nýtt kókglas handa mér áður en ég hafði klárað það fyrsta.

Við afrekuðum ekki mikið fyrsta kvöldið. Við röltum aðeins um og komum við í verslun sem heitir Danny’s og er við hliðina á hótelinu. Hann varð fastur áfangastaður meðan við vorum í borginni. Alls konar sérstakur matur þarna. Þetta var annars lengsti afmælisdagur sem ég hef upplifað.

Hótelið var annars ágætt. Við ætluðumst ekki til mikils. Verst var reyndar klósettið sjálft sem var bara eins og öll klósett sem ég sá þarna í New York. Það var mjög lágt og með þessum undarlegu setum. Síðan er vatnsborðið óþægilega hátt í þeim.

Á föstudaginn röltum við frekar stefnulaust. Ég fékk steik í morgunmat. Á aðalútibúi New York Public Library, sem þið munið eftir úr Ghostbusters, var mjög indælt andrúmsloft. Síðan var ókeypis þráðlaust net þar líka. Við tókum síðan smá rúnt um Grand Central Station, sem þið munið eftir úr myndum eins og The Fisher King. Næsta máltíð var úr svona matsöluvagni sem seldi arabískan mat. Þar fékk ég dásamlegt falafel. Stemmingin var svoltið skemmd af undarlegum manni sem minnti mig á Adam Sandler að leika heimskan mann. Sá var mjög aðgangsharður og pirrandi í betli.

Við röltum næst að Empire State Building. Við urðum ásátt um að Eygló færi upp meðan lofthræddi ég myndi rölta um nágrennið, aðallega í stóra en mjög óskipulagða spilabúð. Eygló var mjög glöð með útsýnið úr turninum og ég var mjög glaður með útsýnið af götunni.

Við fórum aftur á hótelið til að undirbúa kvöldið. Þá fórum við á örlítið fínni ítalskan veitingastað sem var með þolanlegum en ekkert spes mat.

Þá var komið að leikhúsinu. Við höfðum farið í leikhúsið snemma um daginn og keypt miða á Vesalingana. Það voru smá vonbrigði að Alfie Boe væri ekki að syngja vegna bakmeiðsla en við keyptum samt miða. Konan í miðasölunni, sem var voðaleg New York týpa, náði að sannfæra mig um að eyða tvöfalt meiru í miða heldur en ég ætlaði. Hún sagðist vera að gefa okkur einhvern afslátt en ég var eftir á að spá hvort hún hefði platað mig. Þegar við komum inn í leikhúsið og var vísað til sætis hvarf þessi tilfinning. Við vorum á fjórða bekk. Leikararnir voru bara rétt hjá okkur og maður gat fylgst ákaflega vel með.

Uppfærslan var voðalega skemmtileg. Hún var smá umdeild í fyrra þegar svartur leikari fékk aðalhlutverið. Hann dó síðan mjög óvænt. En það voru einmitt fleiri svartir leikarar með stór hlutverk. Þar bar helst sú sem lék Éponine. Hún var alveg yndisleg. Sem minnir mig á að mér finnst Les Mis alltaf enda voða dapurlega. Ekkert fer eins og maður vildi. Mér fannst annars meira gert úr trúarlega hlut sýningarinnar en bæði í London og kvikmyndinni. Síðan fannst mér eins og uppáhaldslínuna mína vantaði en hún varðar gildi þess að drepa kónga. Já, pólitíkin minna áberandi og trúin meira áberandi. Samt gaman að sjá menn veifa rauðum fánum á Broadway.

Laugardagurinn byrjaði hægt og rólega. Við fórum á Ellen’s Stardust Diner sem margir hafa mælt með. Þar syngja þjónarnir. Það var ágætt. Maturinn minn var ekkert spes en Eygló var mjög glöð. Það var mjög þröngt þarna og smá bið til að komast að. En þjónarnir sungu einmitt lag úr Vesalingunum.

Næst var stefnan tekin á Central Park. Við röltum þar heillengi um. Það er magnað hvernig garðurinn er rammaður af með þessum háhýsum. Við enduðum á Strawberry Fields þar sem er smá minnismerki um John Lennon sem bjó þarna rétt hjá í Dakota byggingunni (sem sást ekki vel vegna framkvæmda) og var auðvitað myrtur þar. Þarna var einn maður að spila á gítar. Hann bað okkur um að syngja með sem ég gerði, en ekki of hátt samt. Þarna var líka dópaður/fullur/klikkaður náungi sem var eins og maður sá í öllum myndum sem gerðust í New York 1980-1990. Hann lét okkur í friði en ákvað að einhverjir menn með arabískt yfirbragð væru talibanar og tjáði það ítrekað.

Það voru sumsé fullt af New York týpum í New York. Kvikmyndir og sjónvarp ljúga ekki. En það var líka fullt af fólki sem var bara almennilegt og söng, eins og ég, þegar lög með Cyndi Lauper voru spiluð í hljóðkerfum verslana. Síðan hafði afgreiðslufólkið húmor fyrir því þegar ég brosti meðan það skoðaði myndina á greiðslukortinu mínu.

Við Central Park er American Museum of Natural History. Þar ráfuðum við heillengi um. Margt spennandi. Ég náði að fá gæsahúð þegar ég skoðaði nýju stóru risaeðluna og var að ímynda mér hana lifandi. Það hefði verið hægt að eyða gríðarlegum tíma þarna.

Eftir safnið fórum við á indverskan stað sem við höfðum fundið á Google Maps. Sá heitir Savoury. Hann var frekar ódýr, eitthvað síðdegistilboð, og maturinn alveg frábær. Eftir það þræddum við heim á leið aðallega skóbúðir.

Um kvöldið ráfuðum við um Times Square. Ég hafði gaman af Disney búðinni. Það er nefnilega þannig að Prúðuleikararnir eru Disney og Star Wars líka. Þannig að það var meira þar en ég bjóst við fyrir mig. Ég keypti Kermitbangsa handa mér. Það er draumur úr æsku. Síðan eitthvað fyrir drengina líka. Ég sendi síðan Eygló í H&M meðan ég fékk mér aftur falafel. Ég gæti lifað af með því að borða bara úr þessum arabísku matsöluvögnum.

Þegar við komum heim á hótelið kveiktum við á NBC til að sjá Saturday Night Life. Reyndar bara í smá tíma en nógu lengi til að sjá Larry David og Bernie Sanders.

Sunnudagurinn varð að hálftilgangslitlu ráfi. Við ætluðum að fara alveg „Downtown“ en það gekk lítið. Við enduðum með að borða á Chipotle sem er svona bandarískur Serrano nema að því leyti að maturinn er ekki góður. Ég verslaði mér föt! Síðan fékk ég afslátt af því að það var dregið uppúr mér að ég hefði haldið einu sinni með Arsenal.

Við ákváðum að gefa niðurbæjardrauminn upp á bátinn og fórum þess í stað að Austuránni. Þar var skemmtilegt útsýni. Við röltum þá áfram þar til við vorum komin framhjá höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna.

Þá þræddum við okkur í átt að Rockafeller Center. Það var voðalega notalegur staður. Þar var maður með stóra myndavél sem kallaði eftirminnilega á samferðamann sinn sem þvældis eitthvað fyrir „You’re killing my work John“. Síðan fékk ég að taka mynd af þessu fólki öllu með stóru myndavélinni. Það var reyndar hálfgert þema að ég tæki myndir fyrir fólk í New York. Ég á mikinn höfundaréttarfjársjóð sem ég ætti að fara að rukka fyrir.

En 30 Rock er auðvitað höfuðskip NBC. Við kíktum í minjagripabúð. Hún var ömurleg. Bara NBC lógóið og eitthvað Today Show. En konan þarna sá að við höfðum ekki áhuga á þessu og benti okkur á að það væri nýrri betri verslun annars staðar. Við fórum þangað. Ég rölti um og sá ekkert áhugavert. Ég ætlaði að segja Eygló það en þá var hún búin að finna Community-deildina. Ég sá þar Troy & Abed in the Morning könnu og keypti strax. Ég gleymdi meira að segja að skamma afgreiðslufólkið fyrir að reka Dan Harmon og hætta síðanmeð Community eftir að hafa ráðið Harmon aftur.

Það var lítið eftir að afreka annað en að fá sér að borða og taka leigubíl á flugvöllinn. Þar fékk ég enga aukaleit. Ég þurfti hins vegar að nota salerni sem varð til þess að ég hefði helst viljað sótthreinsa mig. Flugleiðir/Icelandair ákvað að við Eygló gætum bara ekki fengið að sitja saman á heimleiðinni. Ég notaði hins vegar hinar ýmsu töflur og Emilíönu Torrini til að vinna á flughræðslu minni. Það gekk allt vel. Við lentum klukkan sex á mánudagsmorgun og ég var kominn í vinnuna klukkan átta.

Það gekk auðvitað vel að rata nema að Broadway ruglaði mig. Stundum er Broadway ein gata og stundum tvær í einu.

New York var eiginlega eins og ég bjóst við. Auðvitað er öðruvísi að sjá þessi háhýsi sjálfur en það kom fátt á óvart. Það besta við New York er auðvitað það sem er best við Bandaríkin. Þetta er fjölmenningarsamfélag. Við getum vælt, réttilega, yfir því að amerísk menning sé að taka yfir allt en það má ekki gleyma að þessi einsleita bandaríska menning er líka alþjóðleg.

Svíþjóðarferð 2014 (Gaiman, Vasa, Säter og fleira)

Við höfðum haft þessa ferð lengi á áætlun en fyrir hana var mikið um vafa og efa. Ég vissi ekki hvort verkfall kennara yrði til þess að ég væri enn að vinna í lok maí. Síðan voru kjaradeilur flugmanna og flugfreyja með verkföllum, vinnustöðvunum og yfirvinnubanni að valda seinkunum og auðvitað því að flug féllu niður. Lukkulega var það flest komið á góðan kjöl þegar við fórum af stað.

Rétt um viku áður en við fórum út kom annað upp sem breytti plönum okkar. Ég kíkti á heimasíðu uppáhaldsbúðarinnar minnar í Svíþjóð, Science Fiction Bokhandeln, og sá þar að Neil Gaiman myndi árita bækur þann 28. maí. Þann dag höfðum við ætlað að vera komin frá Stokkhólmi en þeim plönum var snarlega breytt til að ég gæti hitt minn uppáhaldsrithöfund.

Við lögðum af stað um miðja nótt. Fórum á flugvöllinn og flugum. Á Arlanda vorum við rosalega lengi að fatta að það væri best að fara með Arlanda Express. Við ruddumst í gegnum lestarstöðina og fundum línuna til Sigga og Sigrúnar. Þau tóku á móti okkur þar og hjálpuðu okkur upp þar sem lyfturnar voru bilaðar. Við grilluðum og höfðum það næs út í garði þar sem krakkarnir gátu leikið sér. Hitinn fyrstu daganna var yfirleitt yfir 25°.

Á sunnudaginn fórum við í bakgarð Konunglega bókasafnsins en þar er bæði hægt að slappa af og mjög skemmtilegir leikvellir. Leikvellirnir voru vel nýttir af drengjunum sem og útisturtan. Við borðuðum á ítölskum stað áður en við fórum heim. Um kvöldið spiluðum við.

Á mánudaginn vorum við ekki rosalega fljót að koma okkur af stað. Þegar við komum á aðallestarstöðina keyptum við eitt Stokkhólmskort sem er hægt að nota í almenningssamgöngur og líka inn á mörg söfn. Við keyptum eitt því það hefði ekki borgað sig að kaupa tvö þar sem við ætluðum ekki að fara öll á alla staði. Eftir gönguferð um Gamla bæinn fórum við með sporvagni út á Djurbacken og beint á Skansinn. Við Gunnsteinn nýttum kortið til að komast inn í Akvarium þarna sem er af einhverjum ástæðum með öpum og fleiri óvatnsvæddum dýrum. Gunnsteini þótti lemúrar æðislegir þegar þeir voru að kúra en mér þóttu þeir frábærir þegar þeir voru að klifra á fólki. Ég sannfærði þá þó ekki um að klifra á mér og var Gunnsteinn glaður með það. Þarna voru líka krókódílar og slöngur. Ég reyndi að plata Gunnstein til að pota í slöngu sem mátti pota í en hann sannfærðist ekki. Ég potaði hins vegar mér að meinalausu. Gunnsteinn hafði annars helst áhuga á að láta taka myndir af sér með dýrastyttum.

Við hittum síðan mæðginin fyrir utan og röltum aðeins um. Ég settist niður og ætlaði að gefa Ingimari smá muffinsbita en þá kom páfugl og ætlaði að skoða muffinsið. Ég henti smá bita í burtu sem fuglinn náði í en það gerði hann bara aðgangsharðari. Með smá lagni náði ég að koma okkur undan þessu villidýri. Grísirnir voru það skemmtilegasta sem drengirnir sáu þarna. Eygló og Gunnsteinn stungu síðan af yfir í Grænalundartívolíið (þar sem þau fóru sex sinnum í maríuhænurússíbanann, fimm sinnum í “upp og niður tækið”, einu sinni í óþarflega draugalegu draugalestina og fullt af öðrum tækjum) en við Ingimar röltum meira um. Hann sá þó mest lítið. Ég hafði hins vegar gaman af að sjá úlfa.

Ég og litli enduðum inni í Gallerien inn í bæ og þá vaknaði hann og var hálfóhuggandi þar til ég gaf honum frjálsan aðgang að stafakexi. Annars átti ég líka smástund þarna þar sem ég var að hósta, við vorum öll með einhverja pest allan tímann, og sá fyrir mér að ég væri svona „patient zero“ sem kæmi einhverri plágu af stað í Svíþjóð.

Eygló og Gunnsteinn hittu okkur síðan þarna og ég reyndi að nota eitthvað TripAdvisor app til að leiða okkur að ákveðnum veitingastað. Það gekk ekkert því við hoppuðum frá því að vera hundrað metra frá staðnum í að vera komin hundrað metra framhjá honum. Ekkert vit var í þessu. Við enduðum á einhverjum indverskum stað sem var ágætur. Þar náði Gunnsteinn að sofna. Við drifum okkur síðan heim til Sigga og Sigrúnar til að missa ekki af Game of Thrones. Drengirnir voru háttaðir í hvelli og allir settust fyrir framan sjónvarp en þá var enginn þáttur og allir fóru að sofa í staðinn.

Á þriðjudaginn byrjuðum við á Junibacken. Það var voðalega gaman. Þar var hamstrahjól og húsið hans Einars Áskells. Síðan var „lestarferðin“ rosalega skemmtileg, þó frekar fyrir foreldrana. Svo var leikið sér í húsinu hennar Línu og horft á leikrit á sænsku sem ég reyndi að þýða jafnóðum fyrir Gunnstein. Hann var mjög áhugasamur þrátt fyrir samhengisleysið.

Eftir þetta hleypti ég Eygló í frí og við feðgar fórum allir í Vasasafnið. Ég gerð ráð fyrir að það yrði snögg ferð þar sem ég myndi benda Gunnsteini á stóra skipið og síðan færum við út. Það var ekki svo. Gunnsteinn heillaðist gjörsamlega og heimtaði að skoða á öllum hæðum. Ég útskýrði fyrir honum sögu skipsins og hann virðist alveg hafa meðtekið hana. Best þótti honum reyndar myndband þar sem sýnt var hvernig var búið til andlit á hauskúpurnar sem hafa fundist í skipinu, hann horfði á það ítrekað. Sneri meiraðsegja við til að sjá það aftur. Honum fannst líka frábært að vera efst í safninu og horfa yfir skipið. Við enduðum með að sleppa að fara í eitthvað sædýrasafn sem er víst þarna rétt hjá af því við vorum svo lengi þarna. Við hittum Eygló aftur í Gallerien og borðuðum á stað sem heitir líklega Edelweiss. Það var merkilega gott og væntanlega eini staðurinn þarna með ætan mat. Við afrekuðum ekki mikið meira áður en við snerum aftur heim til Solna.

Ég vaknaði eldsnemma á miðvikudagsmorgun, eins og við öll alltaf, og stakk af út í Science Fiction Bokhandeln. Þar var ég mættur klukkan 7 um morguninn og líklega númer 15 í röðinni. Það var skítkalt. Ég lifði í von um að sólin myndi ná að hita upp þessa þröngu götu en skýin breiddu fyrir hana áður en það gat gerst. Fyrsta klukkutímann horfði ég á Father Ted í símanum mínum en næstu tvo tíma spjallaði ég við raðfélaga mína sem voru mjög indælir. Ein stúlka kom seint út af einhverjum vandræðum með lestirnar. Ég fékk miða af dagatali en þegar ég spurðist fyrir fékk ég þau svör að það myndi ekki tryggja að ég yrði snemma í röðinni heldur bara að ég kæmist að.

Ég dreif mig til Solna þar sem við tókum okkur saman í rólegheitum. Við tókum allt okkar hafurtask og fórum með í neðanjarðarlest – frá stöð sem var með virka lyftu – og enduðum á aðallestarstöðinni. Þar villtumst við innilega um. Ætluðum að enda þar sem Vasagatan er en fórum þess í stað upp hjá Sergelstorgi. Við fórum bara ofanjarðarleiðina að Vasagötunni og fundum um leið Zocalo (Serrano) en vorum ekki svöng þannig að við stoppuðum ekki. Við náðum að lokum að koma töskum í skápa og kaupa miða bæði frá Stokkhólmi um sexleytið og til Arlanda á sunnudag.

Við röltum næst inn í Gamla bæ og borðuðum á Hurry Curry sem er við hliðina á SF. Ég hafði einmitt fundið staðinn af því ég sat í dyragættinni þar um morguninn. Maturinn þarna var í lagi en ekkert meira en það.

Við eyddum um klukkutíma í SF áður en Gaiman átti að mæta. Á meðan ég beið heyrði ég afgreiðslumann halda því fram að búðin ætti allar bækur sem Gaiman hefði skrifað. Ég ákvað að koma með mína hótfyndni og bað um bókina hans um Duran Duran. En ég fékk líka, lukkulega fyrir mig, að vita að reglunum hafði verið breytt og janúar fékk að vera fyrst í röðinni. Í þeirri röð hitti ég indæla bókasafnsfræðinema og spjallaði við. Ég planaði líka myndatökur sem voru að lokum framkvæmdar af starfsmanni búðarinnar. Gaiman var reyndar svoltið seinn en varla honum að kenna. Þetta var síðan allt mjög skipulagt. Ég skrifaði nafnið mitt á post-it miða sem var settur til móts við titilsíðu bókarinnar. Ég valdi að fá áritun á útjaskaða eintakið mitt af American Gods sem er uppáhaldið mitt. Ef ég hefði mátt láta árita tvær bækur hefði ég fengið tvær af Ocean at the End of the Lane og látið árita þær til Ingimars og Gunnsteins.

Þegar kom að mér spurði ég Neil strax hvenær hann kæmi til Íslands. Hann sagði að hann vildi endilega koma en ekkert hefði nokkurn tímann orðið af því. Hann leit við fyrir tíu árum, þá sendi ég honum einmitt tölvupóst, en hafði engan tíma fyrir neitt. Hann sagðist vera hrifinn af öllu íslensku nema hákarli. Ég sagði að hákarlinn væri bara eitthvað sem við gæfum túristum. Ég sagði honum að ef hann kæmi til Íslands gæti hann komið og lesið í skólanum mínum og fengið rakstur og klippingu hjá nemendunum mínum. Hann sagði já við tilboðinu en ég veit ekki hve hátíðlega ég á að taka því. Ég var allavega ógurlega glaður með þetta. Kátur sem skólastelpa.

Við röltum síðan bara á lestarstöðina. Versluðum, fundum okkar lest, fórum af stað og stoppuðum. Það kom í ljós að það voru gríðarlegar tafir á lestunum. Við stoppuðum ítrekað. Stoppuðum lengst í Västerås og hefðum örugglega getað spjallað vel við Eirík Örn ef við hefðum vitað hve löng töfin yrði. Miðað við það sem ég sá þar sem ég rölti yfir í veitingavagninn var stemmingin langbest hjá okkur. Við eignuðumst líka sameiginlegan óvin, mjög fullann gaur sem kom aftur og aftur til að laumast til að reykja, eða reyna að reykja, í enda lestarinnar. Að lokum var hann tekinn fyrir og samviskusamur sænskur drengur og eldri kona tóku hann að sér. Upplýsingagjöf til okkar ill-sænskumælandi var afar takmörkuð en við komumst á leiðarenda, um þremur tímum of seint, til Säter þar sem Anna systir tók á móti okkur.

Það var minni dagskrá í Säter. Fimmtudeginum eyddum við að mestu í Säterdalnum þar sem eru rosalega skemmtileg leiktæki fyrir Gunnstein. Þar er líka húsdýragarður m.a. með lamadýrum. Gunnsteinn fékk að fara á hestbak á smáhesti.

Á föstudaginn fórum við í Kupolen verslunarmiðstöðina, veðrið var ekkert spennandi. Við heimsóttum líka IKEA og drengirnir fengu sér báðir kjötbollur.

Veðrið á laugardaginn var ekkert spennandi þannig að við fórum aftur í Kupolen og versluðum loksins eitthvað. Ég leyfði mér að kaupa Chromecast sem tengir sjónvarp við net/tölvur/snjalltæki. Ég náði að stríða íslenskum stúlkum frekar vel í leikfangabúðinni. Þær voru rétt hjá okkur og önnur spurði hina hvort „fólkið“ (við) værum í röð. Ég sagði þá við þær að við værum ekki í röðinni. Fyrst svöruðu þær voðalega eðlilega en skríktu síðan þegar þær föttuðu að ég hefði talað íslensku. Anna systir náði líka að góðum árangri þegar hún fór allt í einu að tala íslensku á fullu við afgreiðslustúlku á Sushistað. Annars Þegar við komum út var veðrið voðalega fínt þannig að við hefðum kannski frekar átt að vera úti.

Eftir lestarreynslu miðvikudagsins höfðum við miklar áhyggjur af því hvernig við myndum komast á flugvöllinn. Anna reddaði okkur breyttum miðum sem fór fjallabaksleið til að fara framhjá vandræðasvæðum. Við fórum með lest frá Borlänge klukkan hálfsjö að morgni og áttum að fara út í Enköping þar sem rúta færi til Arlanda. Við höfðum ekki verið lengi í lestinni þegar allt stoppaði, vandamál með merkjakerfið. En það stóð ekki lengi. Hins vegar leit allt út fyrir að við myndum missa af rútunni. Sérstaklega eftir að við þurftum að stoppa aftur til að lest sem var að koma á móti gæti skipt um teina. Við vorum farin að búa til B-plan um að fara alveg til Stokkhólms og þaðan til Arlanda. En lukkulega hafði átt að vera smá biðtími í Västerås sem var sleppt. Við þutum því áfram og komum nokkrum mínútum of seint til Enköping. Þar notaði ég smá frekju til að ná lyftunni fyrir okkur. Satt best að segja fáránlegt að fullfrískt fólk sem hefði alveg getað farið tröppurnar hafi ætlað að fara í lyftuna á undan fólki með barnavagn.

Rútuferðin hefði getað verið indælli ef ákveðinn farþegi hefði haft vit á að skammta sér rakspíra á hóflegri hátt. Mér þótti fnykurinn yfirgengilegur og held að hann hafi farið illa í Ingimar sem gubbaði. Ég greip lukkulega gubbið í poka og því þurfti engin fataskipti. Á Arlanda höfðum við nægan tíma. Við borðuðum vel á Alfredos. Þegar innritun lauk keyptum við okkur rándýrt vatn/sódavatn og að lokum fengu drengirnir að leika sér á smá Junibacken leiksvæði.

Flugferðin gekk ágætlega. Ég velti fyrir mér hvort það sé kennt í flugfreyjuskólum hvernig maður á að keyra vagninn harkalega í farþega sem sofa við ganginn til að eiga möguleika á að selja þeim eitthvað – allavega lendi ég oft í því. Ég gekk í míluhæðarklúbb þeirra sem hafa skipt um kúkableyju í flugvél.

Ég hafði æft sænskuna aðeins fyrir ferðina og gat skilið töluvert meira en almennt en væntanlega þyrfti ég einhverja mánuði þarna til að ná einhverri færni.

Annars bara þakkir til Sigga og Sigrúnu og Önnu og Martin fyrir að hýsa og hugsa svona vel um okkur.

Stóra hjólaferðin

Í vor fjárfesti ég í hjólafestingu sem er fest á skottið á bílnum. Það hefur nokkrum sinnum komið sér vel en aðalástæðan fyrir kaupunum var sú að mig langaði að hafa hjólið með mér í ferð í kringum landið.

Ég hjólaði smá á Akureyri og þegar ég var kominn á Vopnafjörð hjólaði ég í sund – sem er þægilegur 20 km rúntur sem endar á góðri afslöppun. Við vorum eina nótt í sumarbústað í Svartaskógi þar sem amma Eyglóar var að halda upp á afmæli sitt. Ég tók mig þá til og hjólaði þaðan inn á Egilsstaði. Það var ekkert sérstaklega langur túr (33 km) en þetta var í fyrsta skiptið sem ég hjóla einhverja leið á hringveginum og það er frekar brött brekka þarna um leið og maður kemur inn á þjóðveginn. Það er, skv. mælingum mínum, um 140 metra hækkun á rétt rúmlega tveimur kílómetrum. En þetta gekk bara vel. Á leiðinni mældist ég líka á hæsta hraða sem ég hef komist á sem var um 50 kmh. Yfirleitt er mér farið að líða frekar óþægilega þegar ég kemst nálægt 40 kmh. Á leiðinni tók Strætó frammúr mér. Ég held ég hafi ekkert hjólað á Neskaupsstað en þegar ég kom á Vopnafjörð tók ég nokkra 20 km rúnta.

Í vor, þegar ég var að ná mér eftir smávægilega aðgerð sem ég fór í, var ég að lesa mér til um forfeður mína á Langanesi. Aðallega hann Jóhannes Gíslason sem átti í útistöðum við einhverja Frakka. Ég var líka að skoða Árbók Ferðafélagsins sem fjallar um þennan landshluta (ótengt þessu þá er þar vísað í grein sem ég skrifaði fyrir nokkrum árum). Mig langaði að heimsækja þennan landshluta. Ég man ekki eftir að hafa farið meira en á Þórshöfn. Ég fékk þá flugu í höfuðið að hjóla ofan af Langanesi niður á Vopnafjörð. Ég skoðaði vegalengdir og sá að þetta var geranlegt. Eygló var reyndar efins enda var ég ekki í miklu hjólaformi á þessum tíma.

Þann 19. júlí fórum við Eygló með drengina og Steinu tengdamömmu út á Langanes með hjólið fest aftan á bílinn. Við borðuðum á Grillskálanum á Þórshöfn sem má hiklaust mæla með. Þar skolaði ég líka Brekknaheiðina af hjólinu. Síðan keyrðum við aðeins lengra. Við ætluðum upprunalega að fara upp á Heiðarfjall (Hrolllaugsstaðafjall) þar sem ætti að sjást yfir gamla bæjarstæði langalangafa að Hrolllaugsstöðum og hefja túrinn þar. En við beygðum eitthvað vitlaust og síðan var vegurinn ekkert frábær þannig að mér var hleypt út úr bílnum dáltið frá rótum fjallsins. Þar hellti ég í mig vatni áður en ég lagði af stað. Veðrið var alveg ákaflega gott, eiginlega of hlýtt.

Ég bað Eygló að keyra á undan mér af stað en síðan náði ég henni strax aftur enda hjólið betra farartæki á svona slökum vegum en fólksbíll. En þegar vegurinn skánaði stakk hún mig af. Það er ákaflega fallegt þarna á Langanesi og ég efast ekki um að ég fari þangað aftur. Á leiðinni upplifði ég gleði að vera varinn með hjálm enda kríurnar mjög aðgangsharðar á köflum. Gargið samt eiginlega verra þannig að ég hækkaði í tónlistinni.

Á leiðinni frá Þórshöfn hafði ég séð smá veg sem leiddi út að Grenjanesi þar sem Jóhannes á að hafa lent í sínum útistöðum en ég komst ekki langt þar því það var hlið fyrir. Ég hjólaði því til baka. Fór síðan aftur framhjá Sauðanesi þar sem hann kallinn fæddist. Ég veit ekki til þess að kotið þar sem hann bjó með foreldrum sínum standi enn.

Þegar ég kom til Þórshafnar hafði ég augun opin og horfði eftir Freyju vinkonu okkar sem við vissum að væri á Þórshöfn og viti menn, þarna var hún úti á röltinni með krökkunum. Hún var augnablik að fatta því hún bjóst ekki við mér þarna og þar að auki var ég fúlskeggjaður með hjálm og sólgleraugu. Hún er ekki fyrst til að verða ringluð á því dulargervi. Ég spjallaði aðeins og fór síðan að skila aftur vatni á sjoppunni.

Þegar maður er að fara frá Þórshöfn til Vopnafjarðar byrjar maður á því að fara yfir Brekknaheiðina sem er ómalbikið (leið mín þennan dag var svona að hálfu leyti malbikuð). Það var ekki svo erfitt enda er hún ekki svo há. Ég man ekki eftir neinu sérstöku á leiðinni þar nema að Eygló tók frammúr mér.

Erfiðasti vegurinn á leiðinni var í kringum Miðfjörð. Þar var leirinn í veginum ennþá blautur þannig að mér leið eins og ég væri að sökkva ofan í hann. Ég tók stuttu eftir þetta og stoppaði við minnismerki um Kristján frá Djúpalæk. Það hitti í mark hjá mér því annars vegar er þar ákaflega trúleysislegt ljóð sem heitir Mitt faðirvor og hins vegar Strengir úr Pílu Pínu. Ég tók mig meiraðsegja til og söng Strengi fyrir sjálfan mig þarna. Þess ber að geta að Djúpilækur virtist ekkert sérstaklega djúpur.

Þegar ég byrjaði að klífa Sandvíkurheiðinni varð ferðin fyrst í alvörunni erfið. Hún er 275 m. og þó hún sé malbikuð eru brekkurnar dáltið þungar. Ég var líka búinn með vatnið mitt og leyst ekki alveg nóg á vatnið í lækjum og ám. Ég prufaði smá úr einni á og það var frekar slæmt (Gunnsteinn afi Eyglóar sagði mér eftir á að það væri ekkert gott vatn þarna á leiðinni). Verst var samt að mótvindurinn var orðinn svoltið kröftugur (Trausti sagði að það hefði víst verið verst 10-12 m/s). Ég tók og settist niður í smá tíma út í móa og hringdi í Eygló. Langaði smá að gefast upp en gerði það ekki. Ég neyddist á verstu köflunum að reiða hjólið sem ég geri annars aldrei. Það segist eiginlega mest að þegar ég var farinn að renna niðureftir aftur þá þurfti ég ekkert að vera á bremsunum – mótvindurinn hægði nógu mikið á mér.

Ég var alveg drepast á afleggjaranum út að Selárdalslaug en harkaði áfram. Eygló keyrði framhjá mér en ef hún hefði stoppað þá hefði ég gefist upp og þegið farið. Sem betur fer gerði hún það ekki og ég kom mér alla leið. Þegar ég kom á bílastæðið bað ég Eygló um vatn og hellti örugglega hátt í lítra í mig í einum teyg. Það var verulega gott að komast í sund og þá aðallega að slappa af í heita pottinum. Mér leið eiginlega bara vel eftir og fann varla fyrir neinum eftirköstum dagana á eftir.

Kort af leiðinni
Kort af leiðinni

Fyrir þetta hafði ég mest hjólað 50 km til Grindavíkur en þetta voru 83 km sem ég hjólaði með litlum stoppum. Þetta voru um 5 klukkutímar sem þetta tók miðað við þann tíma sem ég var að hjóla. Meðalhraðinn hefði verið mikið hærri ef ég hefði stoppað fyrir Sandvíkurheiðina.

Það er svolítið gaman að skoða þessa myndrænu framsetningu á leiðinni minni sem sést á þessum tveimur myndum. Á fyrri er fjarlægðin kvarðinn en á hinni tíminn. Það þýðir að landslagið sést nokkuð rétt á efri myndinni en á þeirri neðri sést ágætlega hve erfitt það var. Takið eftir hve Sandvíkurheiðin er mikið erfiðari heldur en Brekknaheiðin sem lítur mjög svipað út á myndunum. Rétt er að taka fram að hæðarmælingar í forritinu sem ég nota eru nokkuð vafasamar með tilliti til hæðar yfir sjávarmáli þó mér sýnist það vera fínt í að mæla hve hátt maður er að fara upp og niður.

83-fjarl83-timi

Þetta var gaman. Reyni aftur seinna í minni mótvindi, með meira vatn, betur sofinn og byrja þá kannski upp á fjallinu.

Árósaferð

Á miðvikudagskvöld lögðum við af stað til Árósa. Reyndar seinkaði fluginu dáltið þannig að við lentum seint og síðarmeir (tvö um nóttina cirka). Við vorum í vél með Svövu og Völu frænkum mínum.

Hafdís náði í okkur á flugvöllinn í Billund og keyrði okkur til Árósa. Ég kannaðist aðeins við mig og mig grunar að ég hafi keyrt framhjá gamla hverfinu hans Arngríms miðað við hve hryllingslýsingar hans og Hafdísar fóru vel saman.

Fimmtudagurinn byrjaði með hressleika eins fjölskyldumeðlims sem hafði þó sofið ákaflega lítið. Við röltum um hverfið þeirra og enduðum á ströndinni. Við Gunnsteinn og Sóley óðum út í sjó.  Buxurnar mínar rennblotnuðu en þetta var voða fjör. Sjórinn voða þægilegur. Það var lítið afrekað meira um daginn enda við dauðþreytt. Jú, fórum reyndar í matvöruverslun og horfðum á Júróvisjón um kvöldið. Við Mummi spjölluðum reyndar yfir fyrsta hlutann. Gott að geta setið í hlýjum garði fram á kvöld.

Á föstudag fórum við niður í miðbæ. Ég verslaði mér ákaflega fína skó með stífum sólum. Við borðuðum líka kebab. Gunnsteinn tilkynnti okkur líka á ákveðnum tímapunkti að mömmu hans og pabba langaði í ís. Reyndar var það rétt hjá honum en ég ætla samt ekki að reyna að láta hann vinna milljónina hans Randi fyrir hugsanalestur. Um kvöldið spiluðum við en vorum líka bara dösuð af sólinni.

Á laugardag fórum við seint og síðarmeir af stað niður á strönd. Ekki jafn hlýtt og á fimmtudag en ég lét mig hafa það og eyddi þónokkrum tíma í sjónum að skvetta á Sóleyju frænku. Dösuð eftir á. Júróvisjón um kvöldið. Ég hafði spáð keppni milli Rússlands, Svíþjóðar og Tyrklands um sigurinn. Nennti ekki að spá tíu efstu sætunum eins og sumir.

Á sunnudag fórum við í Tívolí Friheden. Ég er ekki tívolíkall en lét mig hafa það og hafði merkilega gaman af. Líklega er skemmtilegra að sjá barnið sitt skemmta sér í tækjum heldur en vini sína. Ég fór í eitt tæki og fraus að sjálfsögðu. Það var samt þannig að litlir krakkar máttu fara einir í það. Gunnsteinn fór hins vegar í mörg tæki og hafði mjög gaman af. Skemmtilegast þótti mér að fara í Svanahjólabát. Þar sá reyndar Sóley frænka um að hjóla því ég átti erfitt með af því að ég var full stór, í sandölum og þurfti að sitja cirka á miðjunni til þess að hafa jafnvægi á milli okkar.

Drengurinn er búinn að vera með jarðarberjabragð á heilanum undanfarið og það kom meira að segja drama í tívolíinu þegar hann fékk bara hvítan ís (það stóð stutt reyndar). Honum finnst jarðarber hins vegar voðalega ógeðfelld og spítti þeim út úr sér, hvort sem þau voru eintóm eða í jógúrt.

Annars var rosalega gaman hjá honum og Sunnu og Sóleyju. Þau náðu mjög vel saman. Sunna er rosa fyndin með sitt óhóflega danska næj.

Í morgun dúlluðum við okkur þar til Hafdís skutlaði okkur á flugvöllinn. Ég mæli ekki með veitingastaðnum á flugvellinum. Samlokan þar var skelfileg. Ég skil ekki hvernig flugvallarmatsölustaðir geta verið svona staðfastir í að hafa bæði dýran og vondan mat.

Flugið heim var ódramatískt. Ég lét Kindle lesa fyrir mig Augu drekans og var ekkert óhóflega panikkaður í lendingu. Þutum síðan fljótt út af flugvellinum og það var ljúft að koma heim.

Sé eftir því að hafa ekki elt uppi vini mína og skólafélaga í borginni en svona er þetta þegar maður er með fjölskyldunni.

Skotlandsferð númer tvö

Skotland 2008

Snemma á þessu ári kom til tals að vinnan hennar Eyglóar færi í utanlandsferð. Að lokum var ákveðið að fara til Edinborgar. Á svipuðum tíma kom tilkynning um að Queen + Paul Rodgers yrðu á ferð um Evrópu og yrðu í Glasgow um það leyti sem átti að fara. Við stukkum til og keyptum miða á tónleikana í byrjun apríl án þess að vita hvort það myndi passa akkúrat við Edinborgarferðina. Þegar sú dagsetning var ákveðin kom í ljós að það var næsta helgi við. Þá tók við smá tími þar sem við Eygló reyndum að ákveða hvað gera skyldi, vera í Skotlandi í viku eða bara fara á tónleikana. En þá breyttust skyndilega plönin hjá vinnunni hennar þannig að allt passaði saman. Við myndum fara út fimmtudaginn 9. október með vinnufélögum hennar, vera með þeim fram á laugardag þar sem við færum til Glasgow á tónleika og að lokum hitta þau í flugvellinum aftur.

Ég fylgdist vel með gengisþróuninni fyrir ferðina. Sem betur fer voru hótelin í Edinborg og Glasgow borguð fyrirfram þannig að við þurftum bara að hugsa um eyðslupeninga. Mánudaginn 6. október keyptum við 150 pund á 227 þegar kerfið virtist vera að riða til falls. Ég sagði við sjálfan mig að ég yrði bara ánægður fyrir hönd landsins ef þetta væru vond kaup og ég held að ég hafi bara verið það. Við keyptum ekki meiri gjaldeyri næstu daga af því að bankarnir voru fullir af fólki sem var ekki skilja hvernig bankakerfið virkar.

Við pökkuðum létt fyrir ferðina. Eitt af því sem við tókum með var matur. Ég smurði samlokur og keypti appelsín og topp í Bónus, það borgaði sig. Við fórum að heima rétt um fjögur á fimmtudagsmorgni og keyrðum til móts við rútuna sem færði okkur til Keflavíkur. Ég man lítið um flugferðina annað en að flugsokkarnir mínir svínvirka og Valdimar fær þakkir fyrir þá kaupráðleggingu. Á flugvellinum í Glasgow tók við önnur rúta til Edinborgar. Á leiðinni fengum við þau ráð að fara í Boots apótekið og kaupa okkur Meal Deal. Það er samloka/salat, drykkur og snakk fyrir þrjú pund. Þegar við komum til borgarinnar á okkar fjögra stjörnu hótel tóku líka flestir sig til og nýttu það tilboð.

Ég ráfaði aðeins um meðan Eygló var að vinnuvesenast. Ég skoðaði búðir sem ég hafði ákveðið að heimsækja og bara umhverfið almennt. Ég tjékkaði mig síðan inn á hótelið þegar það var hægt. Eygló kom skömmu seinna. Við sofnuðum fljótlega. Þegar við vöknuðum aftur var komið kvöld. Við fórum út að rölta. Keyptum smá mat í kjörbúð og fórum aftur heim. Við horfðum síðan á endalausar fréttir af Íslandi í sjónvarpsfréttunum. Það var hrikalegt.

Við vöknuðum til að fara í morgunverðinn á föstudaginn. Ég tróð vel og vandlega í mig til að þurfa ekki að kaupa dýran mat. Eygló fór síðan út eftir það í vinnuves og ég í rölt. Það sem er skemmtilegt við Edinborg er að hún er eiginlega á mörgum hæðum. Ég tók því lyftuna á hæð mínus 4 og endaði þá hjá lestarstöðinni. Ég fann út allt um miðakaup og ráfaði síðan aðeins. Ég kíkti í Tesco og man eftir að hafa staðið í röð hugsandi bara um ástandið á Íslandi. Við Eygló hittumst síðan og fórum síðan niður í skoska þingið. Þar vorum við tekin í túr. Það var sérstaklega gaman að sjá salinn aftur sem við höfðum séð í sjónvarpinu kvöldið áður. Þá ræddu þingmenn um Ísland.

Eftir erfiðar umræður fórum við með Berglindi og Ásgeiri Bryndísarbróður upp á Calton hill. Því miður var eitthvað verið að setja upp hjá National Monument þannig að við gátum ekki farið upp á það. Hins vegar er útsýnið þarna frábært hvorteðer. Við fórum síðan í Boots til að kaupa samlokur og í bolabúð að kaupa boli áður en við fórum í draugagönguna.

Ég var augljóslega spenntur að sjá hvernig draugagangan væri. Ég hafði séð finnskan þjóðfræðing tala um göngur þar í borg og þótt hann frekar naívur þegar hann ræddi um hvað þar fór fram. Ég var líka spenntur að sjá hvort mér þætti túrgædinn ganga of langt í að ljúga að fólki. En ég hafði bara gaman af þessu. Hann sýndi okkur hvar John Knox er líklega grafinn og ég passaði mig að ganga yfir gröf kalviníska bastarðsins.

Síðan fórum við niður í einhverja kjallara sem höfðu verið lokaðir heillengi. Þar áttu að vera hinir og þessir draugar. Í einu herberginu spurði gædinn hópinn hvort þeim þætti það ekki kaldara en það sem á undan hafði komið. Ég hafði ekki tekið eftir neinu en flestir sögðu já. Það hefði verið áhugavert að vita hvort hópnum þótti það kaldara áður en hann minntist á það. En það kemur reyndar málinu lítið við þar sem það er ekkert undarlegt við að herbergi séu misköld. En þetta átti að túlka sem áhrif drauga. Þar var líka eitt horn með steinahrúgu sem menn höfðu víst orðið varir við mikil óþægindi og sumir dottið eins og þeim hefði verið hrynt. Ég tók náttúrulega áskoruninni og fór þangað. Ég passaði mig reyndar á steinunum því þeir sem passa sig ekki gætu alveg dottið á þeim…

Eftir þetta fórum við út að borða á Pizza Express. Það er greinilegt að þar á maður bara að borða pizzur því við sem fengum okkur eitthvað annað vorum ekki glöð. Seinna um kvöldið var síðan smá partí á einu herberginu og hópur á hótelbarnum.

Á laugardagsmorgni vöknuðum við og tróðum í okkur morgunmat. Við fórum síðan og keyptum lestarmiða áður en við röltum stefnulaust um borgina. Að lokum enduðum við á þjóðminjasafninu og skoðuðum Dolly og ýmsa vísindaleiki fyrir börn. Síðan aftur á hótelið, niður lyftuna og út á lestarstöð. Við tókum lest sem stoppaði alveg ógurlega oft. Sjálfur svaf ég aðallega eftir að hafa borðað Boots nestið okkar. Í Glasgow vorum við fljót að finna hótelið okkar og tékka okkur inn. Við veltum fyrir okkur hvort Noregur eða Skotland hefði unnið fótboltann en þótti jafntefli líklegast miðað við ástand tartanhersins. Við borðuðum á ágætum ítölskum stað við Hope street og röltum síðan út í átt að ráðstefnuhöllinni. En tónleikana mun ég fjalla um í sér færslu. Eftir þá gengum við alltof lang leið heim á hótelið til að finna búð til að geta keypt snarl í.

Það var lítið planað á sunnudagsmorgni. Við vöknuðum snemma fyrir morgunverð sem var mikið betri en sá á hótelinu í Edinborg. Þó var þetta hótel, Alexander Thomson, bara tveggja stjörnu. Við tékkuðum okkur út, létum farangur í geymslu og ráfuðum um. Við enduðum upp á Buchanan. Ég keypti mér sjálfsævisögu Steve Martin áður en Eygló fann H&M. Eygló bað fyrst um hálftíma þar en það endaði í klukkutíma. Þá var gott að hafa keypt bókina. Við ráfuðum meira um. Keyptum Meal Deal í hinsta sinn. Fundum skemmtilega spilabúð sem var raunar á svæði með ótal nördaverslunum. Eygló keypti sér síðan skó áður en við enduðum á því að borða á Bella Italia mjög sátt. Við náðum síðan í farangurinn okkar og fórum út á flugvöll þar sem við hittum hópinn.

Á flugvellinum gerðum við lítið nema að bíða. Við reyndum að fara á netið, við höfðum ekki gert slíkt í ferðinni, en það virkaði ekki þó vélin hafi hirt peninginn okkar. Síðan reyndum við að fara í þythokkí en sú vél át líka pundið okkar. Við erum ekki glöð með þennan peningaætuflugvöll.

Ég hata IcelandAir. Ég hef aldrei áður setið svona þröngt þó ég hafi ítrekað flogið með RyanAir. Það sem meira er ákvað konan fyrir framan mig að halla sér aftur. Það munað minnstu að hún bara skemmdi bókina mína með þessu. Ég endaði með því að ýta bara reglulega á sætið hennar með hnjánum þar til hún gafst upp á tilrauninni. Ég kláraði Steve Martin bókina sem var góð.

Í fríhöfninni eyddi ég á fullu. Eða allavega smá. Engar sígarettur voru keyptar á minn toll frekar en fyrri daginn og ég tek fram að ef ég myndi gera slíkt þá væri það fyrir tengdapabba og engan annan. En ég er andsnúinn reykingum og geri það því ekki. Tollverðirnir gerðu enga athugasemd við mig frekar en fyrri daginn þannig að við gátum hoppað fljótt upp í rútuna. Þegar ég kom heim náði ég þeim glæsta árangri að fá lyklaborð í hausinn.

End of Story.

Kynnisferðir kunna sig ekki

Eftir að hafa beðið í heillangri röð og verið send í fýluferð út í rútu til að kaupa miða komst Eygló loks að í miðasölubásnum hjá Kynnisferðum. Það var ekki þjónusta með brosi heldur harkaleg ólund. Ég get ekki ímyndað mér að ferðamenn sem koma til landsins fái jákvæða fyrstu sýn á Íslendinga þegar móttökurnar eru svona. Eins og til að bæta fyrir þetta sat fyrir framan mig íslensk stelpa sem var að kynna landið fyrir ísraelskri stúlku sem var í sófaferðalagi. Það var skemmtilegt að hlera.