Vodafone stelur af mér

Nú í vikunni fékk ég tilkynningu frá Vodafone um að „Risafrelsið“ sem ég keypti mér væri að renna út. Ég var hissa af því að ég hef aldrei keypt svoleiðis af því að það er ógeðslega vont tilboð og gagnamagnið rennur út á mánuði. Ég keypti hins vegar 5 gígabæta skammt af venjulegu frelsi sem rennur út á hálfu ári. Ég sendi þeim harðorða kvörtun, enda þá er þetta ekki í fyrsta skiptið sem fyrirtækið rukkar mig vitlaust og ég efast mjög um að það sé óvart. Allavega hef ég aldrei verið óvart rukkaður um of lítið.

Í gær fékk ég síðan þetta svar:

Þetta er bara ósatt. Ég athugaði í heimabankanum og þar sést, svart á hvítu (eða öllu held í þessum ömurlega ljósgráa lit sem fólk heldur í alvörunni að sé boðlegt að nota í staðinn fyrir svart), að ég borgaði 2980 sem er verðið fyrir venjulegt 5 gígabæta niðurhalsfrelsi (og 2000 kr. fyrir símafrelsi). Þarna var ég að undirbúa mig fyrir ferðalag um landið.

Það sem meira er þá var ég líka búinn að kíkja í Vodafone appið og þar stendur greinilega að ég fékk bara 5 gígabæta niðurhal og átti nóg eftir.

Ég sendi þeim þessi tvö skjáskot en fékk ekkert svar. Í staðinn fékk ég símtal sem ég svaraði ekki af því að ég var í vinnunni og líka bara af því að mér líkar betur að hafa alla svona hluti skriflega (sérstaklega ef ég fer lengra með málið).

Í dag kíkti ég síðan á Vodafone-appið og sá að ég á engan niðurhalskvóta eftir þar. Vodafone stal honum.

Það sem mér finnst skrýtnast í öllum mínum samskiptum við Vodafone í gegnum árin er að þeir virðast halda að þeir geti grætt á því að svindla á viðskiptavinum sínum. Þeir virðast ekki telja neins virði að gera viðskiptavini sína ánægða og koma vel fram við þá.

Ég tók það hamingjuskref fyrir nokkru að færa ljósleiðaratenginguna mína til Hringdu. En ég hélt áfram að vera með símann hjá Vodafone (Voðafón) af því að það hentaði að ýmsu leyti vel og mér líkar einfaldleikinn að vera með frelsi. Ætli þetta hafi verið lokahnykkurinn?

Ég hef tvær spurningar fyrir þá sem lásu þetta:

  • Hvaða kæruleiðir eru í boði?
  • Hvar er gott að vera með farsíma þegar maður notar síma alveg voðalega lítið?

Ein athugasemd við “Vodafone stelur af mér”

Lokað er fyrir athugasemdir.