Samhæft Kodi og Android tónlistarkerfi

Ég keypti mér síma um daginn. Fyrir valinu varð Moto G5 Plus sem ég pantaði mér frá Amazon. Frábær sími, glæný týpa með Android 7 og kostaði rétt um 32 þúsund með gjöldum og sendingarkostnaði.

Að vanda þá þurfti ég að pæla í því hvernig best væri að spila tónlist í honum. Ég er með tónlistarsafnið mitt á flakkara sem er tengdur við Raspberry Pi 3 sem keyrir Kodi. Þó ég noti Spotify reglulega þá er þetta alltaf besta safnið. Þarna eru t.d. allar sólóútgáfur meðlima Queen en margar þeirra vantar á Spotify.

Ég hef lengi notað forritið Yatse til að tengja Kodi við símann minn. Þaðan getur með bæði hlustað og horft á efni úr Kodi í símanum. Yatse getur bæði streymt efni úr Kodi en líka hlaðið því niður. Hér áður fyrr var þetta ekki sérstaklega mikils virði af því að minniskortin voru ekki nógu stór fyrir mikið efni. Núna er ég með 128GB kort þannig að ég geti sett mikið af tónlist þarna inn. Þá minnkar þörfin á að nota streymiþjónustur eins og Spotify.

Ein ástæðan fyrir því að ég nota sjaldan Yatse til að hlusta á tónlist í símanum er að viðmótið er ekki neitt sérstaklega þægilegt fyrir tónlistarspilun. Lukkulega er það þannig að tónlistarsafnið mitt er vel skráð og öll lýsigögn í lagi. Það þýðir að þó að Yatse búi ekki til þægilegt skrárkerfi fyrir tónlistina þegar það hleður henni inn á minniskortið þá getur gott tónlistarforrit lesið lýsigögnin beint og gert efnið aðgengilegt. Í lýsigögnunum hjá mér er ég t.d. með innbyggð plötuumslög þannig að þau birtast vandaræðalaust.

Síminn minn er svo indæll að það fylgdu ákaflega fá forrit frá framleiðandanum. Þarna eru aðallega bara aðal Android forritin. Mér finnst Google Play Music ekki spennandi þannig að ég er að prufa Pi Music Player (ótengt Pæinu í Raspberry Pi held ég). Mér lýst ágætlega á það.

Ég skipti nýlega út fimm diska og einnar kassettu bílgræjunum mínum og setti í staðinn ódýran Aliexpress spilara. Hann er lélegur að mörgu leyti, og ég mæli ekkert með honum almennt, en hann getur skammlaust spilað tónlist í gegnum (Pi Music Player) Bluetooth. Ég nota því forritið MacroDroid, sem framkvæmir sjálfvirkt fyrirfram skráðar skipanir fyrir ákveðnar aðstæður, til þess að ræsa tónlistarspilarann og setja af stað tónlist þegar ég tengist bílgræjunum með Bluetooth.

Það er hægt að gera svipað með önnur tæki. Þannig get ég sagt MacroDroid að kveikja á tónlistinni þegar ég er búinn að ræsa íþróttaforritið mitt og tengja Bluetooth heyrnartólin mín. Maður gæti líka bætt við skipunum þannig að maður gæti sagt spilaranum hvaða tónlist hann ætti að spila. Raddstýringar eru orðnar nógu góðar til að maður geti sagt spilaranum nöfn á spilarlistum eða plötum á ensku en ég er ekki viss um að ég komist upp með að segja honum að spila Ekki verður á allt kosið með Ný Dönsk.

Ég er sumsé á því að framtíðin sé bara núna en ekki alveg á íslensku.