Ruglið um 5% regluna

Enn eru rugludallar að kenna 5% reglunni um vandamál kjördæmakerfisins. Sérstaklega er sársaukafullt að heyra menn halda því fram að hún sé sett til þess að níðast á litlu flokkunum.

Fyrst verð ég að útskýra eitt sem margir sem þvaðra um 5% regluna virðast ekki vita. Þessi regla snýst um úthlutun jöfnunarþingsæta og ekkert annað. Áður en 5% reglan var sett gátu engin framboð fengið jöfnunarþingsæti án þess að hafa fengið kjördæmakjörinn þingmann. Þarna var sumsé litlum framboðum auðveldað til muna að komast á þing. Þetta var í raun stórkostleg framför fyrir lítil framboð og án 5% reglunnar væru t.d. Píratar ekki með neinn þingmann.

Það sem fólk hunsar í umræðunni er að jöfnunarþingsætin, sem eru takmörkuð auðlind, eru plástur á atkvæða ójafnvægið sem fylgir kjördæmaskipaninni. Ef landið væri eitt kjördæmi þá væri engin þörf á jöfnunarþingsætum og þaðan af síður reglum um hvernig þeim er úthlutað.

Í raun tel ég að jöfnunarþingsætin séu það versta við kjördæmakerfið af því að það minnkar gagnsæi. Þegar ég greiddi atkvæði Reykjavík suður í síðustu kosningum þá varð atkvæði mitt til þess að hjálpa Ásmundi Daða inn á þing í Norðvesturkjördæmi. Ég gat fyrirfram ekkert vitað um það. Það eru flóknar stærðfræðiformúlur sem liggja þar að baki. Ég hafði ekki neinn möguleika á að strika út Ásmund Daða og koma þannig í veg fyrir að hann gæti grætt á atkvæði mínu.

Þegar fólk gagnrýnir 5% regluna þá nefnir það aldrei hve flókið það væri í raun að lækka þröskuldinn eða afnema hann. Það eitt og sér er ekki nóg því það þarf fleiri jöfnunarþingsæti til að tryggja að framboðin sem þá komast í pottinn geti fengið slík þingsæti.

Ef við myndum fjölga jöfnunarþingsætum myndi gagnsæi kosningakerfisins minnka til muna. Atkvæðin sem við greiddum í okkar kjördæmum til þess að styðja frambjóðendur þar færu mun oftar til að styðja frambjóðendur í öðrum kjördæmum. Við værum sumsé frekar að kjósa flokka en einstaklinga. Þetta yrði sérstaklega absúrd þegar um er að ræða lítil framboð sem ganga oft á persónufylgi einstakra frambjóðenda.

Ef við ætluðum að halda í kjördæmaskiptinguna án þess að hafa þröskuld fyrir að fá jöfnunarþingsæti og jafnframt að tryggja að allir sem fái 1/63 af atkvæðum á landsvísu fái þingmann þá þyrftum við einfaldlega að hafa 63 jöfnunarþingsæti tiltæk. Í slíku kerfi hefðum við nákvæmlega enga stjórn á því hvert atkvæði okkar færi. Þá er í raun búið að afmá alla kosti kjördæmaskiptingarinnar. Svoleiðis er í raun það kerfi sem þeir sem segjast vilja afnema alla þröskulda við úthlutun jöfnunarþingsæta eru að biðja um.

Ég bið því alla sem eru að gagnrýna 5% regluna að pæla aðeins í málinu og beina kröftum ykkar síðan í að berjast gegn kjördæmaskiptingunni sem er raunverulega vandamálið. Í slíku kerfi myndi 1/63 af atkvæðum sjálfkrafa gefa einn þingmann og menn gætu haft nær fullkomna stjórn á því hvert atkvæði manns færi.

8 athugasemdir við “Ruglið um 5% regluna”

 1. Nú er ég fullkomlega ósammála.

  5% þröskuldurinn er versta og óréttlátasta ákvæði núverandi kosningalaga. Það er einfaldlega engin sanngirni í því að 5.844 kjósendur fái ekki sína fulltrúa á þing. Þetta eru einu rökin sem skipta máli í þessu samhengi.

  Og það er ágætt að hafa í huga að einu rökin sem færð voru fyrir þessu ákvæði þegar það var sett var að fækka þingflokkum og auðvelda stjórnarmyndun. Það var enginn að hugsa um gagnsæi eða hvort atkvæði væru líklegri eða ekki til að styðja frambjóðendur í öðrum kjördæmum eða ekki.

  Enda breytir 5% reglan nefnilega engu til eða frá um gagnsæi. Aðferðin við úthlutunina er sú skársta sem hægt er að nota, en henni getur fylgt ákveðin happa og glappa úthlutun. Fjöldi framboða sem koma til greina skiptir engu – úthlutunin er ekki gagnsæ.

  Það er ekki langt síðan að litlu munaði (staðan var þannig við næst síðustu tölur) að Framsókn fengi tvo þingmenn í Suðvestur kjördæmi, þrátt fyrir að eiga engan kjördæmakjörinn. Það er ekkert gagnsæi innbyggt í úthlutun jöfnunarsæta. Það tókst þokkalega vel til núna, en til dæmis fá 1.895 kjósendur Bjartrar Framtíðar í Reykjavík suður sinn fulltrúa á þing á meðan 1.927 kjósendur Dögunar í Suðvestur fá engan.

  En það eina sem skiptir máli er að það er auðvitað ekkert réttlæti í því að 2.430 kjósendur Framsóknarflokks fái sinn fulltrúa á þing á meðan 5.855 kjósendur Dögunar fá engan fulltrúa á þing. Gagnsæi úthlutunar skiptir þess kjósendur engu máli.

  Reglan var sett til þess eins að styrkja stöðu þeirra flokka sem áttu sæti á þingi þegar reglan var sett. Þessi regla er einmitt æpandi dæmi um hvers vegna þingmenn eiga ekki að setja kosningalög og misnota þau þannig í eigin þágu.

 2. Fyrirgefðu Valli en það er sturlað rugl að halda því fram að 5% reglan hafi verið sett til að styrkja þá flokka sem þar voru á þingi. Þetta kom þeim ekki að neinu gagni. Þetta var stórt skref til þess að hjálpa litlum framboðum. Hið einfalda dæmi sem sannar það er að hvorki Píratar né Björt framtíð væru annars með þingmenn.

  Hver hélt því fram að breytingin frá setja 5% regluna í stað þess að krefjast kjördæmakjörins þingmanns myndi fækka flokkum?

  Útdeiling jöfnunarsæta er ógagnsæ og ég gagnrýndi það einmitt (lastu yfirhöfuð færsluna í heild sinni) – 5% reglan kemur í veg fyrir að það sé verra. Svaraðu mér hvað jöfnunarþingsætin þyrftu að vera mörg til þess að hægt væri að lækka þröskuldinn og tryggja minni framboðum þingmann?

  Þú og hinir sem eruð að gagnrýna 5% regluna eruð bara að draga athyglinni frá því að kjördæmakerfið er vandamálið.

 3. En já, sem björgunaraðgerð á kjördæmakerfið þá er 5% reglan að hjálpa þeim flokkum sem græða á því kerfi en reglan er bara einkenni á vandamálinu en ekki vandamálið sjálft.

 4. 5% reglan hjálpar engum nema stórum flokkum, þetta er einfalt reikningsdæmi.

  Það að afnema regluna um kjördæmakjörinn mann til að fá jöfnunarmann hjálpaði litlum flokkum. En það er ekki eins og það sé eitthvert náttúrulögmál að það hafi þurft að setja einhver mörk í staðinn. Þetta er auðvitað hrein rökleysa að segja að fyrst þetta tvennt hafi gerst á sama tíma, þeas. afnám kjördæmaþingmanns (A) sem hjálpaði litlum framboðum og 5% þröskuldurinn (B) sem vinnur gegn litlum framboðum, þýði að 5% þröskuldurinn hjálpi þeim litlu.

  Björt framtíð og Píratar eru með þingmenn vegna (A) ekki (B).

  Þetta voru upphafleg rök þingmanna sem sátu í nefndinni sem hannaði kosningalögin sem unnin voru 1984 vegna kosninganna 1987, ákvæðið datt reyndar út úr endanlegri útgáfu en kom inn 2000. Ég kynntist þetta ágætlega vegna vinnunnar.

  Hvaða rök heldurðu eiginlega að hafa verið fyrir að hafa þennan þröskuld?

  Já, ég las færsluna. Það er rétt að úthlutun jöfnunarsæta er ógagnsæ, en þröskuldurinn hefur nákvæmlega engin áhrif á það, heldurðu virkilega að einhver skilji þetta frekar með 5% þröskuld en án hans?

  Fjöldi jöfnunarsæta ætti auðvitað að vera meiri, en það þýðir ekki að það þurfi að hafa einhvern þröskuld þó þau séu bara 9. Hvernig færðu út að það sé eitthvert samhengi þarna á milli? Fjöldi jöfnunarsæta má vera óbreyttur þó þröskuldurinn sé felldur niður. Það er einhver rosalegur misskilningur þarna í gangi. Fjöldi jöfnunarsæta sem þarf til að ná jafnvægi hangir á misræmi á vægi atkvæða.

  Ég er ekki að draga athygli frá einu eða neinu. Ég er sammála að kjördæmin eru vandamál sem er löngu tímabært að leggja af. Það breytir því ekki að það er sjálfsagt og eðlilegt að benda á óréttlæti.

  Finnst þér dæmin sem ég nefni í alvöru ekki stórt óréttlæti sem er mikilvægt að fjalla um?

 5. Jú, ég tel mikilvægt að leiðrétta þetta en ekki með plástri á núverandi kerfi heldur með því að henda kjördæmakerfinu.

 6. Ef það bætast ekki við uppbótarþingsæti þá get ég ekki séð annað en fyrr eða síðar muni kerfið lenda í vandræðum.

 7. Það er rétt að besta lausnin er eitt kjördæmi.

  Þetta er hins vegar plástur sem þarf að rífa af núverandi kerfi.. það er óþarfi að verja þetta óréttlæti.

 8. Ég er að verja núverandi kerfi fyrir þeim árásum að því hafi verið komið á til að níðast á litlum framboðum. Það að vísa í skoðanir manna frá 1985 til þess að rökstyðja að aðrir hafi árið 2000 ætlað að níðast á litlum framboðum þykir mér langsótt. 5% reglan er framför frá því að krefjast kjördæmakjörins þingmanns.

Lokað er fyrir athugasemdir.