Nokkur atriði um stjórnarskrármálið

Það myndaðist hérna ákaflega erfið stemming í kringum stjórnarskrármálið sem gerði erfitt að ræða það. Það þarf eiginlega að nefna nokkur atriði um það.

  • Stjórnlagaráð fór í alltof veigamiklar breytingar á stjórnarskránni. Ef ráðið hefði bara lagt áherslu á nokkur lykilatriði þá stæðum við í dag uppi með stórbætta stjórnarskrá. Í staðinn var lögð fram stjórnarskrá sem var alveg fyrirsjáanlegt að yrði aldrei samþykkt af Alþingi.
  • Kosningarnar um stjórnarskrána höfðu ekkert stjórnskipulagslegt gildi (ekki frekar en kosningarnar um hvort Reykjavíkurflugvöllur ætti að vera í Vatnsmýrinni). Það vissu menn fyrirfram og sumir kjósendur nefndu það sem afsökun fyrir að taka ekki þátt í þeim. Það að tala um að það sé valdarán að fara ekki eftir niðurstöðum kosningana er út í hött. Þingið hefur löggjafavald og þá skiptir engu hvaða álit menn hafa á þingræðinu.
  • Þingmenn sækja umboð sitt til kjósenda í þingkosningum. Höfuðskylda þeirra er að breyta eftir eigin sannfæringu. Þar af leiðandi var galið að ætlast til þess t.d. að þingmenn Sjálfstæðisflokksins ættu að kjósa gegn eigin sannfæringu út frá niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána.
  • Ef gömlu þingmenn Borgarahreyfingarinnar hefðu verið til í að hjálpa þá hefði mögulega verið hægt að ná fram ágætum breytingum á stjórnarskránni á lokametrunum. En hér gildir að vilja heldur þann versta en þann næstbesta. Síðan gæti líka verið að sumir hafa áttað sig á að það væri gott fyrir komandi kosningabaráttu að slá sig til riddara.
  • Það var aldrei hægt að nota 71. gr. þingskaparlaga því andstæðingar frumvarpsins hefðu einungis þurft að yfirgefa þingsal til að koma í veg fyrir atkvæðagreiðslu (helmingur þingmanna þarf að vera viðstaddur atkvæðagreiðslu). Ég tel líka beitingu 71. greinarinnar almennt ólýðræðislega. Hér og í næsta atriði á undan gef ég mér reyndar að það hafi leynst andstæðingar frumvarpsins í þingliði stjórnarflokkana sem ég er ekki alveg viss um að sé rétt.
  • Þau sem unnu harðast að því að bjarga leifunum af stjórnarskrárfrumvarpinu voru Katrín Jakobsdóttir og Árni Páll Árnason og fengu engar þakkir fyrir.
  • Það að keyra stjórnarskrármálið af krafti í þrot og þar með koma í veg fyrir að nokkrar breytingar yrðu hefði komið miklu betur út fyrir ríkisstjórnina. Þá hefði orðið endalaust málþóf, ekki bara um þetta mál heldur öll önnur mál sem átti eftir að samþykkja. Það hefði líka náð afhjúpa þá þingmenn ríkisstjórnarinnar sem voru mótfallnir breytingunum sem hefði verið gott.
  • Allar málamiðlanir um breytingar á stjórnarskrárfrumvarpinu þurftu að vera á þann veg að öruggur meirihluti yrði fyrir þeim eftir kosningar. Það var löngu fyrirsjáanlegt að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur yrðu með meirihluta og ef málið hefði verið þvingað í gegn í heild sinni gegn vilja þeirra þá hefðu þeir flokkar einfaldlega fellt breytingarnar á næsta þingi.