Skoðanakannanir og niðurstöður kosninga

Enginn fjölmiðill fylgdi fordæmi N.Y. Times og fékk einhvern til að halda almennilega utan um skoðanakannanir sem gerðar hafa verið fyrir þessar kosningar. Morgunblaðið hefur þó staðið sig áberandi best. Maður getur skoðað kökurit yfir kannanir langt aftur í tímann og þar að auki hafa þeir safnað þessum niðurstöðum í CSV skrá sem klárara fólk en ég gæti gert eitthvað með.

Það sem sést í þessum könnunum er að það eru bara sex flokkar sem hafa möguleika á að ná þingmönnum (Píratar eru líklega óöruggastir). Enginn af hinum framboðunum hafa nokkru sinni náð yfir 4%. Það eina sem gæti breytt þessu er ef að eitthvað framboðið hafi óvenjumikið fylgi í einu kjördæmi og þannig ná kjördæmakjörnum þingmanni. Það er frekar ólíklegt en mögulega gæti persónufylgi einstakra frambjóðenda haft áhrif.

Ég verð að játa að ég get varla fengið af mér að reyna að sannfæra fólk ekki um að kjósa þessi framboð. Ég tel einfaldlega að kjósendur þeirra séu bara svo sannfærðir um ágæti þeirra (eða hafi slíka andúð á „fjórflokknum“ sem heitir núna stundum „fimmflokkurinn“) að þeim er sama hvaða áhrif atkvæði þeirra hafa á heildarniðurstöðuna. Ég er nær vonlaus um að næsta ríkisstjórn verði nokkuð annað en hræðilegt afturhvarf til þeirrar stefnu sem leiddi til hrunsins.

Stóri vandinn er ekki litlu framboðin heldur einfaldlega hve margir ætla að kjósa Framsókn og Sjálfstæðisflokk. Niðurstaðan er sú að vinstristjórn sem var rétt komin af stað nær ekki skriðþunga til að draga kerfið almennilega til vinstri.