Sjálfsritskoðunin er (einn) stærsti óvinur blaðamanna

Ég er ekki alveg sammála því sem Halla segir hér en mér finnst það hins vegar áhugavert sjónarhorni. Það sem hún neglir hins vegar í greininni er að sú almenna trú að Ólafur Stephensen sé öðruvísi ritstjóri en þeir sem ólu hann upp sé vafasöm (hún orðar það svona):

Eftir að Ólafur tók við upplifði ég í fyrsta sinn í starfi sem þingfréttaritari þætti sem leiddu til þess að ég missti traustið á því að ritstjórinn stæði með mér gegn þeim öflum og einstaklingum sem vildu ekki aðeins hafa áhrif á fréttaflutning Morgunblaðsins, heldur líka mannaval. Fyrir vikið varð sjálfsritskoðun mín meiri en nokkru sinni fyrr, en hún er einn af stærstu óvinum blaðamannsins.

Sjálfsritskoðunarpunkturinn er sá besti í greininni.

Ég hef svo oft heyrt blaðamenn svara gagnrýni á ritstjórnarstefnu síns blaðs með því að segja að þeir hafi aldrei fengið fyrirmæli um að fjalla á ákveðinn hátt um ákveðin mál. Ég hef aldrei ímyndað mér að svoleiðis færi það fram. Ég held að þetta fari þannig fram að ritstjórar hafi mjög augljósar skoðanir og að eigendur (og auglýsendur) hafi mjög augljósa hagsmuni og blaðamenn fari, án fyrirskipanna, að móta skrif sín eftir þeim skoðunum og hagsmunum.

Ég held að blaðamönnum sé sérstaklega hætt við svona vinnubrögðum vegna þess að þeir vita hve auðvelt er að skipta þeim út. Það er alltaf til ungt fólk sem er spennt fyrir þessu starfi og jafnvel tilbúið að vinna fyrir lægri laun en þeir sem eru fyrir í stéttinni.

Í kjölfarið af þessu má nefna að ég tel ekkert sérstakt gæðamerki á blaðamönnum að þeir hafi unnið lengi á sama fjölmiðli. Ég tel það ákveðið, en ekki endanlegt, merki um að þeir kunni að þjóna sínum herrum. Þó má ekki alveg misskilja mig þannig að allir þeir blaðamenn sem hafa flakkað á milli fjölmiðla séu í hæsta gæðaflokki. En sumir kannski.