Myndskreytt af tölvu

Vegna umræðu um barnabækur þá hef ég verið að velta fyrir mér myndskreytingum. Í dag er hræódýrt að finna sér listamenn á netinu og láta þá sjá um að teikna myndir í bækur.

Ég held að myndir í barnabókum séu mikilvægar, alveg eins og sagan og textinn. Ef myndskreytingar í íslenskum barnabókum endurspegla ekki raunveruleika sem börnin geta tengt við þá er eiginlega alveg eins hægt að þýða og staðfæra bækurnar.

Ég ætla ekki að halda því fram að þetta sé einfalt val í bókaútgáfu. Það eru ekki miklir peningar í að gefa út bækur, hvað þá barnabækur, og ef þú getur fengið ódýra myndskreytingu í útlöndum þá hækka launin allavega eitthvað.

En ef myndskreyting er bara útvistað verkefni til einhvers sem skilur ekki einu sinni textann þá verður listamaðurinn ekki slíkur meðhöfundur sem svona verkefni krefst.

Síðan er líka málið að ef þú borgar bara 15-25 dollara fyrir mynd þá ertu ekkert endilega að fá neitt annað en mynd sem er meira og minna búinn til af forriti sem býr til persónur á sama hátt og tölvuleikir. Það er bara valið um mismunandi hár, augu, húðlit, föt og svo framvegis og síðan skellt inn á staðlaðan bakgrunn. Það læðist að manni sá grunnur að slíkum dúkkulísuleik þá sé auðvelt að velja hjúkrunarkonubúning eins og voru víst algengir löngu fyrir mína tíð.

Ég held að í þessu gildi, eins og í flestu, að frjáls markaður sé ekki líklegastur til að gefa góðar lausnir heldur ódýrar lausnir. Við getum aldrei treyst frjálsum markaði að leysa nokkuð sem skiptir máli.

Gagnslaust Facebook: skrýtinn heimur podkastsins

Ragnar Loðbrók er umfjöllunarefnið í nýjasta þættinum mínum
Ragnar Loðbrók er umfjöllunarefnið í nýjasta þættinum mínum

Ég var að setja á netið áttunda þáttinn í podkastinu mínu Stories of Iceland í gær. Í morgun fór ég að kíkja á hve mikið niðurhalið á honum væri og varð steinhissa. Ástæðan er að á fimmtudaginn kom allt í einu stór kippur. Þar voru 600 niðurhöl en á venjulegum degi, sérstaklega í miðri viku, eru þau 150. Það var enginn nýr þáttur kominn í þessum mánuði en á birtingardögum kemur alltaf kippur frá áskrifendum mínum.

Ég veit ekkert hvað olli þessum kipp. Líklegast þykir mér að einhver podkastveitan hafi sett mig á forsíðuna hjá sér. Vandinn er að þessar veitur nota almennt ekki rekjanlega hlekkinn sem gefur mér upplýsingar heldur vísa beint á skrá hjá mér. Vissulega fæ ég ýmsar upplýsingar samt sem áður en ég sé ekkert sem skýrir þetta þar.

Á sama tíma og ég er að fá öll þessi niðurhöl þá er áhugavert að Facebook-síða podkastsins míns er algjörlega dauð. Ég er með rétt rúmlega 100 læk og tók alveg eftir því að það bættust nokkur svoleiðis við á fimmtudaginn á sama tíma og stóri niðurhalskippurinn kom. En Facebook er líka gagnslaus því að þeir sýna ekki nema örfáum þá pósta sem ég birti á síðunni þar. Ég er ekki alveg viss um hvort ég ætti yfirhöfuð nokkuð að púkka upp á Facebook.

En málið er að podkastheimurinn er allt öðruvísi en flest á netinu. Ég bara skráði strauminn minn hjá podkastveitum og forritum og fékk síðan fullt af niðurhlöðum án þess að vita nokkuð um það hverjir eru að hlusta.

Glæpatíðni í byssubænum og byssulausabænum

Geir Ágústsson er með undarlegar skoðanir á hlutunum. Ég rakst á bloggfærslu þar sem hann skrifaði.

Í einni frétt er sagt frá bæ nokkrum í fylkinu Georgíu í Bandaríkjunum.

Þar á bæ voru menn orðnir þreyttir á ofbeldi og morðum. Bærinn setti því ákvæði í lög sem skylduðu eða hvöttu almenning til að ganga um með skotvopn. Hvað gerðist? Glæpatíðni hríðféll.

Ég ákvað að skoða þessa staðhæfingu aðeins. Ég byrjaði á „fréttinni“ sem hann vísaði á. Það vekur strax atriði að það greinin var birt af Tyler Durden úr Fight Club en þó er vísað á upprunalegan höfund líka. Þetta er svona bókstaflega copy/paste grein á einhverjum brjálæðisvef sem byggir á copy/paste grein sem byggði á frétt hjá CNN.

Ég skannaði greinina og sá hvergi staðhæfinguna að glæpatíðni hefði lækkað eftir byssuskylduna. Það er hins vegar staðhæft að það sem lægri glæpatíðni en í meðalborg í Bandaríkjunum. Þetta kemur þó ekki fram í greininni sem CNN birti um málið. Þar kemur bara fram að það hafi bara verið eitt morð síðustu sex ár í þessum þrjátíuþúsundíbúabæ. Sú tala er ekki borin saman við eitt eða neitt.

En það sem kemur fram er að upprunalega hafi byssuskyldan verið sett vegna þess að annar bandarískur bær hafi bannað byssur innan bæjarmarka. Sá bær þurfti reyndar að aflétta byssubanninu eftir um aldarfjórðung.

Það lá því beint við að bera saman glæpatíðnina* í þessum tveimur bæjum.

Violent Property Total
Number of Crimes 92 841 933
Crime Rate
(per 1,000 residents)
2.74 25.01 27.75
Violent Property Total
Number of Crimes 11 208 219
Crime Rate
(per 1,000 residents)
0.47 8.96 9.43

Þið skulið endilega giska í hvorum bænum byssueign sé skylda og í hvorum bænum hafi byssueign verið bönnuð þar til fyrir tíu árum.

Búin að giska? Kenneshaw er öruggari en 21% bandarískra bæja en Morton Grove er öruggari en 71% bandarískra bæja.

Það var Kennesaw sem gerði byssueign að skyldu og þar eru margfalt fleiri glæpir. Nú gætu allir íbúar Morton Grove hafa hoppað út í næstu byssubúð og keypt sér byssu til að tryggja öryggi sitt en ég efast um það.

En skoðum aðeins ferlið. CNN skrifar grein þar sem er ekki farið nægilega vel ofan í staðreyndir málsins. Rugludallur skrifar grein þar sem er haldið fram að CNN hafi dregið of litlar ályktanir – án þess að kafa dýpra í málið. Sú grein er afrituð og síðan tekur Geir síðasta skrefið í þessum vefvæddasímaleik og bætir við eigin ályktunum sem byggja bókstaflega ekki á neinu.

Snopes hefur líka fjallað um þetta.

* NeighborhoodScout tekur saman glæpatölfræði og fleiri upplýsingar fyrir fólk sem er að skoða hvar er best að búa.

Jupiter Hollow Рmisheyr̡ur texti

Lagið Higher Love með Steve Winwood er voðalegt níunda áratugs lag. Það fór á toppinn á milli Madonnu og Bananarama. Það festist í hausnum á manni. Ég hélt samt alltaf að þar væri sungið „Jupiter Hollow“ en ekki „Bring me a higher love“.

Það er ekki langt síðan að ég heyrði þetta lag aftur og var að reyna að syngja með. Mér fannst það ganga illa og leitaði að textanum og sá að það var kolvitlaust hjá mér. Það er ekkert verið að syngja um Jupiter Hollow. En ég mundi hvar ég lærði textann.

Big Business er gamanmynd sem er líka síns áratugs, þess níunda. Bette Midler og Lily Tomlin leika þar systur – eins og sést í þessu atriði.

Í myndinni er smábærinn Jupiter Hollow í aðalhlutverki og ég mundi sterkt eftir því að hafa heyrt lagið þarna og hugsað með sjálfum mér, „já, það er verið að syngja um þennan bæ“. Í kjölfarið festist textinn í hausnum á mér. Ég var voðalega glaður að ég mundi allavega nafnið á bænum rétt.

YouTube sökkar og Disney rokkar – fyrir íslensku

Fyrir íslenskt tungumál þá er YouTube hræðilegt fyrirbæri. Þó að á yfirborðinu þá sé jafnræði tækifæri þar þá er það ekki í raun. Stóra ástæðan er ekki (bara) sú að þarna er mikill aðgangur að efni á ensku heldur að aðgengið fyrir íslenskt efni er lélegt. Lengst af þá var ekki möguleiki á því fyrir framleiðendur að græða peninga fyrir að setja inn efni á íslensku. Jútúbarar græða með því að láta birta auglýsingar með efni sínu en það var ekki hægt með efni á íslensku. Því var breytt tiltölulega nýlega en það hjálpar ekki mikið þar sem…

YouTube krefst þess að það komi ákveðið mikið grunnáhorf á efni áður en hægt sé að fá nokkurn pening fyrir auglýsingar. Það sem er verra er að þessi mörk er færð ár frá ári. Þannig að áhorf sem dugðu í fyrra til að komast á auglýsingasamning duga ekki lengur og við vitum ekkert hvernig þessi mörk verða á næsta ári. Á sama tíma henda mörg íslensk fyrirtæki peningum í auglýsingar á YouTube. Þannig að YouTube sýgur peninga frá Íslandi og gefur lítið til baka.

Þetta er auðvitað sama vandamál og íslenskt efni glímir alltaf við. Tónlistarveitur borga oft ekkert út fyrr en hlustun hefur farið yfir mörk sem fæstir tónlistarmenn sem flytja efni á íslensku ná í.

Á sama tíma þá er Disney dásamlegt fyrirbæri. Ég fer á Pixar/Disney myndir í bíó og þá er ekki bara talmálið á íslensku heldur líka ritmálið. Þannig eru skilti oft á tíðum með íslenskum orðum.

Þetta skapar þá undarlegu stöðu að YouTube sem virðist vera lýðræðislegt og opið lokar fyrir íslenskuna en Disney sem virðist oft hálffasískt fyrirbæri opnar dyrnar fyrir íslensku.

Ég hef oft sagt að okkur vanti fleiri Jútúbara á Íslandi en kannski að það þurfi frekar einhvers konar íslenska útgáfu af slíkri veitu sem myndi höfða bæði til auglýsingakaupenda og til framleiðenda efnis. Það hefur aldrei verið auðveldara að framleiða efni, hvort sem það eru hlaðvörp, grínmyndbönd eða fræðsla en það er mun erfiðara að græða á slíku.

Ég er með podcast á ensku* og þó ég sé ekki enn farinn að setja auglýsingar þar inn þá gæti ég með lítilli fyrirhöfn gengið inn í samning hjá hlaðvarpsveitu og fengið borgað ákveðið mikið fyrir hvert niðurhal. Ég hef ekki ennþá farið þá leið af því að ég veit að ég get fengið meira borgað fyrir að selja auglýsingar sjálfur – þó það sé erfiðara.

Það þarf að vera svona möguleiki fyrir íslenskt efni. Einhver milliliður sem kemur saman framleiðendum og auglýsendum. En það er ekkert svoleiðis í dag þannig að ef framleiðendur eru ekki líka góðir sölumenn þá er lítið að græða á íslenskunni.

* Stories of Iceland. Í síðasta mánuði þá voru um þúsund niðurhöl á hvern þátt þó ég hafi ekki sett nýjan þátt í loftið frá desember fram í febrúar.

Hvernig dó He-Man?

Ég var að horfa á þættina The Toys That Made Us á Netflix. Mér þótti auðvitað mest spennandi að horfa á þáttinn um Masters of the Universe. Það voru leikföng minnar kynslóðar. Við sem vorum aðeins of ung til að ná öllu Star Wars dótinu.

Það skýrðist margt í þáttunum. Í fyrsta lagi þá var hugmyndin aldrei að þetta væri hópur sem myndaði samstæða heild sem þreifst í einum ákveðnum heimi. Þetta var svona hippsum happs. Það var bara reynt að búa til eitthvað sem myndi höfða til stráka. Síðan var ákveðið að láta litlu teiknimyndablöðin sem fylgdu með móta baksöguna. Svo voru teiknimyndirnar framleiddar af allt öðru fólki sem bjó til öðruvísi heim og bjuggu til persónuna Adam sem gjörbreytti He-Man. Það er líka magnað að Skeletor byggi á reynslu teiknara af því að sjá alvöru beinagrind. En það sem var áhugaverðast voru pælingarnar um hvers vegna leikföngin hættu skyndilega að seljast.

Ég vil þó byrja á að vísa á hinn dásamlega vef He-Man.org þaðan sem ég stal öllum þessum myndum. Þar er hægt að finna myndir af eiginlega öllu sem gefið hefur verið út af þessum leikföngum og upplýsingar um allt sem þessu tengist.

Fyrsta kynslóð

Upprunalegi He-Man
Upprunalegi He-Man

Upprunalegi Skeletor
Upprunalegi Skeletor

Stratos var kannski ekki svo merkilegur en hann Starri frændi minn náði einhvern veginn að gera hann goðumlíkan
Stratos var kannski ekki svo merkilegur en hann Starri frændi minn náði einhvern veginn að gera hann goðumlíkan

Man At Arms
Man At Arms

Sú skýring sem mér fannst ríma best við mína reynslu var að framleiðandinn, Mattel, hafi lagt of mikla áherslu á að búa til nýjar fígúrur í stað þess að framleiða fleiri af grunntýpunum. Ég fékk minn fyrsta Masterskall jólin 1984. Það var Trap Jaw sem var fyrsta persónan af annarri kynslóð. Hann er ótrúlega flottur en ég eignaðist aldrei upprunlega He-Man. Ég fékk í staðinn He-Man sem var hægt pota í þannig að það birtust rispur á honum.

Ég eignaðist ekki heldur upprunalegan Skeletor. Það var áberandi gap í annars glæsilegu safni. Það voru fleiri af þessum upprunalegu fígúrum sem maður get aldrei fengið. Þeir sem voru yngri en ég hafa væntanlega átt enn erfiðara en ég að eignast þessa kalla.

Önnur kynslóð

Ram-Man þótti mér alltaf frekar asnalegur en það var hægt að ýta honum niður og skjóta honum aftur upp.
Ram-Man þótti mér alltaf frekar asnalegur en það var hægt að ýta honum niður og skjóta honum aftur upp.

Evil-Lyn vakti ákveðnar hvatir hjá mér
Evil-Lyn vakti ákveðnar kenndir hjá mér

Man-E-Faces (ég átti tvo svoleiðis)
Man-E-Faces gat skipt um andlit (ég átti tvo svoleiðis)

 Tri-Klops
Tri-Klops gat skipt um auga

Þriðja kynslóð

He-Man varð ekki hetjulegri við að fá brynju
He-Man varð ekki hetjulegri við að fá brynju

Kobra Khan gat spítt vatni.
Kobra Khan gat spítt vatni.

Orko gat dansað um þegar hann hafði verið trekktur upp.
Orko gat dansað um þegar hann hafði verið trekktur upp.

Buzz-Off var vængjaður
Buzz-Off var vængjaður

Vandinn við nýrri fígúrur var líka að þær komu ekki fram í upprunalega teiknimyndunum. Þessar teiknimyndir voru grunnatriðið í allri markaðsetningunni. Hordak og aðrar persónur sem komu fram í myndinni The Secret of the Sword (sem fjallar um He-Man og tvíburasystur hans sem heitir She-Ra) voru í raun nægilega kynntar til að gera þær spennandi.

Hordak og Snákmenni (fjórða og fimmta kynslóð)

Hordak var flottur vondur kall
Hordak var flottur vondur kall

Grizzlor er eins og Beast-Man á sterum og hárvaxtarkremi
Grizzlor er eins og Beast-Man á sterum og hárvaxtarkremi

Ég á Rattlor ofan í kassa. Hann gat skotið höfðinu fram
Ég á Rattlor ofan í kassa. Hann gat skotið höfðinu fram

 Tung Lashor
Tung Lashor

En það komu fullt af fígúrum sem ekkert voru kynntar. Hugmyndir voru líka margnýttar þannig að það voru t.d. tveir kallar sem bjuggu yfir þeim frábæra hæfileika að breyta sér í stein og tveir kallar sem voru búnir til úr mörgum pörtum.

Endurtekningarsöm fimmta kynslóð

Stonedar
Stonedar

Rokkon
Rokkon

Multi-Bot
Multi-Bot

Modulok var upprunalegi partakallinn
Modulok var upprunalegi partakallinn

Leikföngin sem tengdust Dolph Lundgren myndinni voru jafn ómerkileg og myndin sjálf ku vera. Ég hef sjálfur látið vera að horfa á myndina. Það eitt að sjá hve asnalegir He-Man og Skeletor eru var nóg til að gera mig afhuga henni.

 

Sjötta og versta kynslóðin

Gwildor - Orko fátæka mannsins
Gwildor – Orko fátæka mannsins

Egg sem breytist í asnalegt tígrisdýr
Egg sem breytist í asnalegt tígrisdýr. Þriðja flokks Transformer.

Mosquitor
Mosquitor er reyndar eftirlætið mitt af þessari kynslóð. Hann „saug“ blóð og bringan hans varð rauð.

Þegar Masters voru upp á sitt besta þá var það mögnuð tilfinning að koma inn í Sigga Gumm og skoða alla kallana sem voru í boði. Ég man hins vegar eftir vonbrigðunum sem ég fann fyrir þegar ég kom inn í leikfangadeildina í Amaró, líklega árið 1989, og sá nýju útgáfuna af He-Man og Skeletor. Það var gjörsamlega búið að eyðileggja þá. Ég var tíu ára og áttaði mig á að þeirri gleði að eignast nýja Masterskalla væri endanlega lokið.

Nýi He-Man

Ljóti He-Man
Ljóti He-Man

Ekki ógnvekjandi Skeletor
Ekki ógnvekjandi Skeletor

 

Rick & Morty og He-Man

Roboto var uppfullur af tannhjólum sem snerust fram og til baka
Roboto var uppfullur af tannhjólum sem snerust fram og til baka

Gearhead í Rick & Morty er af plánetu sem er full af fólki sem eru uppfullt af tannhjólum.
Gearhead í Rick & Morty er af plánetu sem er full af fólki sem eru uppfullt af tannhjólum.

 

Góða skemmtun gjöra skal

Ég er ennþá að glugga í Íslenzk þjóðlög eftir Bjarna Þorsteinsson. Þar varð fyrir valinu Góða skemmtun gjöra skal sem er oftar sungið sem Góða veislu gjöra skal.

Það vakti athygli mína að það sé til færeysk útgáfa af þessu lagi þannig að ég potaði í félaga Heri Joensen (Týr) og spurði hvaða kvæði það væri. Það stóð ekki á svörum.

Òluvu kvæði
1.
Góða skemtun gera skàl,
hvàr eg gengi í dans:
kvøði um kong Pipping
og Óluvu dottur hans.

Viðgangur:
Stígum fast á várt golv, spàrum ei vár skó!
Gud mann ráða, hvàr vær drekkum onnur jól.

2.
Pipping kongur àf Fraklandi
Gertruð heitir hans frúgv,
væn er Óluva dottir teirra,
higgin og so trúgv.

3.
Karlamagnus Pippingsson
bróðir er hann àt fljóði,
væl eru tey af ættum komin,
Jóhannis hinn góði.

Þetta heldur áfram upp í 178. erindi. Það sem mér fannst áhugaverðast var að þarna er talað um að drekka næstu jól en ekki dansa um næstu jól. Það að drekka jól er auðvitað mjög gamalt orðalag þannig að hvort sem kvæðið hafi verið til í heild sinni á íslensku eða það hafi komið hingað í gegnum Færeyjar þá myndi ég veðja á að „drekka“ væri upprunalegra.

En spurningin er auðvitað hver þessi feðgin eru, Pípin og Ólöf. Fyrsta giskið mitt var, áður en ég sá færeyska kvæðið, að þetta væri Pipin faðir Karlamagnúsar og það var rétt. Kvæðið virðist hafa verið ort upp úr riddarasögunni Af frú Olif ok Landres syni hennar sem er hluti af Karlamagnús saga ok kappa hans. Þetta er þýðing af enskri riddarasögu sem er nú glötuð. Ég játa að ég hef ekki farið nægilega vel í gegnum söguna og kvæðið til að þekkja efnið nægilega vel (mér leiðast riddarasögur alveg hrikalega) en bæði sagan og kvæðið endar á að Ólöf gengur í klaustur. Út frá þessu er freistandi að tengja Ólöfu við Gisele systur Karlamagnúsar sem endaði í klaustri.

Mér finnst í raun alveg rosalega skemmtilegt að Íslendingar og Færeyingar skuli syngja um franska konungsdóttur frá áttundu öld. Ég hafði ekkert pælt almennilega í þessu áður.

En ekkert í rannsóknum mínum veitti mér innsýn í það hvers vegna þetta er jólalag.

Íslendingar syngja síðan auðvitað kvæðið Álfadans eftir Jón Ólafsson við sama lag.

Álfadans

Máninn hátt á himni skín,
hrímfölur og grár.
Líf og tími líður
og liðið er nú ár.

Bregðum blysum á loft
bleika lýsum grund.
Glottir tungl og hrín við hrönn
og hratt flýr stund.

Kyndla vora hefjum hátt,
horfið kveðjum ár.
Dátt hér dansinn stígum,
dunar ísinn grár.

Komi hver sem koma vill
komdu nýja ár.
Dönsum dátt á svelli,
dunar ísinn blár.

Ég tók mig til og setti upp nóturnar frá Bjarna í Musescore til að ég gæti spilað fyrir sjálfan mig og jafnvel notað í podcastinu mínu. Ég lét síðan Musescore spila það með flautuhermi til þess að ég gæti látið það fylgja með færslunni án þess að það væri bara í ískrandi midi-formi.

Ég þarf greinilega að láta wordpress samþykkja að setja inn svona staðlaða nótnaskrá en hérna er mynd af þessu sem ég setti upp – sem ég hefði ekki getað gert án Telmu. Nóturnar eru líka á Musescore þar sem hver sem er ætti að geta halað þeim niður og notað að vild.

 

Fram á regin fjallaslóð

Helsti gallinn við að hlusta á tónlist á Spotify er að maður fær engar upplýsingar um lögin, ekki texta og ekki nöfn höfunda. Ég var að hlusta á Þjóðlög Ragnheiðar Gröndal og lagið Fram á Reginfjallaslóð stendur upp úr.

Ég gúgglaði og fékk litlar upplýsingar en fann þessa útgáfu á Ísmús. Í Gegni stendur að þetta sé þjóðvísa og þjóðlag (þær upplýsingar eru væntanlega fengnar úr bæklingnum með disknum).

Kristján Árnason syngur Fram á reginfjallaslóð

Ég tók aðeins dýpri leit og fann að vísuna í handriti leikritsins Skugga-Sveins. Þar eru þrjú erindi en bæði á Ísmús og hjá Ragnheiði er bara eitt.

Fram á regin-fjallaslóð
firðar ljótir búa;
þeirra bygð er þeygi góð,
þyrstir mjög í sauðablóð
eru þeir og engan guð á trúa.

Kunna þeir með kænsku sið
kvikfé ná í haga,
kveykja eld við kletta-rið,
kjötið steikja logann við,
síðan stolnar sauðahnútur naga.

Þegar bóndi burtu frá
býli fer og vífi,
koma fram úr fylgsnum þá
fólin leið og bæjum á
æra fljóð og ota löngum hnífi.

Samdi Matthías öll erindin eða bætti hann tveimur við eldra kvæði? Hvaðan kemur lagið?

Þegar maður hefur áttað sig á að „Reginfjallaslóð“ er oft ritað „regin fjallaslóð“ eða „regin-fjallaslóð“ þá nær maður að kafa dýpra og þá fann ég lagið í Íslenskum þjóðlögum Bjarna Þorsteinssonar.

Bjarni Þorsteinsson fæddist sama ár og Skugga-Sveinn var frumfluttur, árið 1861, og safnaði þjóðlögum sínum á árunum 1880-1905. Það er ólíklegt að hann hafi ekki vitað af tengslum lagsins við Matthías.

En hér sést auðvitað ástæðan fyrir því að ég kafaði aldrei djúpt í þjóðlög. Ég get ekki lesið nótur. Er annað hvort lagið sem Bjarni birtir hér það sama og Ragnheiður og Kristján Árnason syngja? Fjallar kvæðið upprunalega um útilegumenn eða kannski bara tröll?

Viðbót 6. desember

Ég ákvað að læra aðeins á nótur og setti þetta upp í forritinu Musescore (með hjálp frá Telmu). Hérna er lagið með einföldum hörpuhermi.

Hérna eru nóturnar. Ég sett #1 við þær af því að Bjarni hafði líka annað lag við þær.

Fram á regin fjallaslóð nótur

Ég setti nóturnar líka inn á opna gagnagrunn Musescore þar sem er hægt að hala því niður og breyta að vild.

Cork – Dublin – Queen+ Adam Lambert

Uppáhaldsmyndefnið mitt í Cork. Brian Boru brú.
Uppáhaldsmyndefnið mitt í Cork. Brian Boru brú.

Þegar tónleikaferð Queen+ Adam Lambert um Evrópu var tilkynnt fór ég strax að plana að fara á tónleika. Við Eygló pældum í að fara saman en við ákváðum að ég myndi bara fara einn. Þá var líka augljóst að velja Dublin. Ég hafði nefnilega ekki komið til Írlands, allavega lýðveldisins, síðan árið 2007 þegar ég var þar eina önn í University College Cork.

Með hjálp góðs fólks á Queenzone náði ég að næla mér í miða á besta stað, standandi á svæðinu í kringum sviðið. Ég var að vona að ég gæti flogið til Cork og síðan til baka frá Dublin en WOW flaug bara til Cork út október og tónleikarnir voru 25. nóvember. Ég bókaði því flug til og frá Dublin. Ég sleppti því að borga aukalega fyrir að innrita tösku en splæsti smá aukapeningum í fótapláss.

Þannig að á fimmtudaginn var þá vaknaði ég um klukkan þrjú um nóttina til að taka leigubíl og síðan rútu út á flugvöll. Það var dásemd að innrita sig bara í símanum og rölta síðan með bakpokann í gegnum öryggisleitina. Ég var reyndar tekinn sérstaklega fyrir og leitað að leyfum af sprengjugerðarefnum á mér. Áhugavert að ég er reglulega tekinn í svoleiðis tékk en aldrei athugaður í tollinum. Sumsé, ekki smyglari en kannski hryðjuverkamaður.

Ég afrekaði ekkert á flugvellinum enda of þreyttur og róandi töflurnar sem ég er með við flughræðslunni gerðu mig ekki hressari. Þegar ég kom í vélina þá tók ég upp ferðakoddann minn og stillti á podcastið Sleep with Me sem er sérstaklega ætlað til að hjálpa fólki að sofa. Saman svínvirkaði þetta allt og ég tók varla eftir flugferðinni.

Ég hafði smá tíma í Dublin og gerði heiðarlega tilraun til að kaupa mat. Hann var ekki góður. Það er margt til að elska við Íra en matargerðarlistin er ekki lystug. Þar sem ég beið eftir rútunni til Cork hitti ég dreng sem hafði misst af flugvélinni sinni af því að hann vissi ekki, frekar en ég, að Írar eru orðnir svo hrifnir af Þakkargjörðarhátíðinni að umferðin er gríðarleg á þessum degi. Rútan kom og ég hoppaði um borð. Það var svona þriggja tíma ferð en svæfandi podcast og áframhaldandi þreyta gerðu þetta bara notalegt.

Í skuggasundinu þar sem ég hitti Carlos svo oft.
Í skuggasundinu þar sem ég hitti Carlos svo oft.

Þvílík og önnur eins skrýtin nostalgía var að koma til Cork. Ég rölti beint á hótelið og fór þar sama húsasund og ég fór alltaf á leiðinni heim á stúdentagarðana mína. Þar var enginn Carlos en samt einhver að betla þar. Hótelið mitt var um fimmtíu metrar frá mínu gamla heimili og var mjög gott. Ég fleygði af mér farangrinum og fór út að rölta.

Hluti af ferðamálamarkaðsherferð.
Hluti af ferðamálamarkaðsherferð.

Fyrsta stoppið var í Dunnes Store af því að Eygló hafði beðið mig um að líta þar eftir toppum sem hún var svo hrifin af. Ég fann þá og keypti. Ég keypti líka buxur á mig. En síðan var ráfað áfram.

Ég var glaður að finna Centra á Oliver Plunkett stræti. Sú búð var í uppáhaldi. Ég var ennþá glaðari að sjá að þar var ennþá langlokubar. Ég reyndar klúðraði og bað fyrst um samloku en leiðrétti mig síðan og bað um roll. Ég var auðvitað fyrst spurður hvort ég vildi smjör eða majónes. Ég valdi smjör, síðan kjúkling (cajun), stuffing (sem ég veit ekki nákvæmlega hvað er), ost og sæta chili sósu. Það er töfrablandan sem ég gat alltaf treyst á í þessu matargerðartómi sem Írland er. Og þetta var bara eins og þetta var GOTT.

Auglýsing sem sýnir húmor Corkbúa dálítið vel.
Auglýsing sem sýnir húmor Corkbúa dálítið vel.

Ég skoðaði í hinar og þessar búðir. Alls staðar var auglýstur svartur fössarri. Ég var hneykslaður á Írum að vera jafn ófrumlegir og Íslendingar. Afrek mín á þessum degi voru ekki mikil. Það var gaur að kyrja Echo, Echo, Evening Echo en það var ekki sami gamli kall og var fasti þarna fyrir tíu árum. Geisladiska og dvd-búðirnar sem ég sótti hart á sínum tíma voru allar horfnar. En ég fann skemmtilega túristaauglýsingu þar sem Íslendingar voru boðnir Velkomin í Cork. Það var greinilega hluti af stærri herferð.

Cork er stolt af sínum óþokkum.
Cork er stolt af sínum óþokkum.

Það sem var verst að sjá var allt heimilislausa fólkið. Fyrst þegar ég sá fólk sem hafði komið sér fyrir í svefnpokum í skotum fyrir framan verslanir datt mér í hug að þetta væri fólk sem vildi ná bestu tilboðunum þegar búðirnar opnuðu daginn eftir en ég sá fljótt svo var ekki. Þetta var orðið svo miklu verra en fyrir tíu árum. Miklu fleiri betlarar og miklu fleiri heimilislausir.

Dagurinn endaði á hótelinu þar sem ég fór í sturtu og horfði á The Punisher.

Ég tók föstudaginn rólega. Ég gerði heiðarlega tilraun til að borða írskan morgunverð en fyrir utan bakaðar baunir, egg og beikon þá var þetta óætt ógeð. Ég tók því sem smá bröns á skyndibitastað í miðbænum. Falafel.

En meginmarkmið dagsins var að fara í hádegismat með Cliona sem kenndi mér þjóðfræði fyrir tíu árum. Við höfum haldið sambandi í gegnum árin. Það var sama skrýtna tilfinningin að ganga í skólann. Sviðsmynd lífs míns eina önn fyrir tíu árum. Ég trítlaði aðeins um. Tók mynd af mér með nýrri brjóstmynd af helstu hetju UCC, honum George Boole. Graham Norton er hins vegar frægasti fyrrverandi nemi skólans.

Aðkoma háskólans míns gamla er falleg. Hliðið,
Aðkoma háskólans míns gamla er falleg. Hliðið,
brúin,
brúin,
gróðurinn
og áin.
og áin.
Þessi stytta af George Boole er ný.
Þessi stytta af George Boole er ný.
Aðalbyggingin
Aðalbyggingin
Skjaldarmerki háskólans. Þar sem Finbar kenndi skal Munster læra.
Skjaldarmerki háskólans. Þar sem Finbar kenndi skal Munster læra.

 

Ég labbaði um gömlu fallegu aðalbygginguna meðan ég beið eftir Cliona. Þar eru frægir steinar með fornri írskri stafagerð sem heitir Ogham.

Cliona fór síðan með mig upp í matsal starfsfólks sem er glæsilegur og gamaldags salur. Við borðuðum súpu í skugga Viktoríu drottningar. Það var sumsé stytta sem var upphaflega á gafli byggingarinnar (sem hét upprunalega Queen’s College Cork) en var tekin niður þegar Írland fékk sjálfstæði. Styttan var síðan grafin niður en síðan grafin aftur upp í lok síðustu aldar. Hún situr núna þarna og horfir á kennarana og heiðraða gesti þeirra borða. Hún er líka fræg fyrir hve ung Viktoría var þegar styttan var gerð.

Dómshúsið. Á tröppum þess kvaddi ég flesta Cork-vini mína fyrir tíu árum.
Dómshúsið. Á tröppum þess kvaddi ég flesta Cork-vini mína fyrir tíu árum.

Þegar ég var í Cork þá voru vinir mínir meira og minni aðrir erlendir nemar þannig að Cliona er helsta mannlega tenging mín við borgina. Við áttum langt og gott spjall um hitt og þetta. Hún hvatti mig áfram í heimildarmyndargerð og sagði mér að koma til þeirra og sýna hana þegar hún verður til. Mér fannst það vel boðið.

Ég átti ekki mikið eftir af Cork-dvölinni en ég ákvað að kaupa peysur á strákana þó það myndi þýða að ég þyrfti að kaupa auka handfarangursheimild á leiðinni heim. Það rigndi dáltið vel á föstudeginum sem rifjaði upp gamla tíð. En ég ráfaði líka bara mest. Síðan hótelið, pakka og sofa.

Það er svolítið undarlegt að þó ég hafi búið við Kent lestarstöðina í Cork þá fór ég þarna í fyrsta skiptið í lest þar.
Það er svolítið undarlegt að þó ég hafi búið við Kent lestarstöðina í Cork þá fór ég þarna í fyrsta skiptið í lest þar.

Ég vaknaði snemma á laugardagsmorgun. Skráði mig út af þessu fína gistiheimili og trítlaði þessa örfáu metra á lestarstöðina. Það var reyndar sjokk þegar ég kom í lestina og sá að ég hafði klúðrað einhverju þegar ég pantaði þannig að sætið mitt sneri aftur. Ég var skíthræddur um að ég fengi mígrenisógeð en sólgleraugun björguðu mestu.

Frá lestarstöðinni í Dublin tók ég sporvagn, Luas, í átt að gistiheimilinu. Vagninn var reyndar troðinn og ég með bakpoka á mér sem ég gat ekki losað vegna þrengsla. Fólk rakst endalaust í mig lítil gömul kona muldraði alltaf illilega og ýtti í mig ef ég kom of nálægt henni.

Þegar ég fór úr sporvagninum þá ákvað ég að treysta á Google Maps til að leiðbeina mér. Það voru mistök að treysta forritinu of mikið í Dublin því ég náði aldrei að átta mig. Það er svo nauðsynlegt þegar maður er að læra að rata. En ég endaði á gistiheimilinu og var sagt að herbergið mitt yrði laust eftir 20 mínútur. Ég hugsaði með sjálfum mér að það væri bara fínt. Ég ákvað að hoppa út að reyna að finna mér æti.

Ég hafði spottað út veitingastað með fína dóma en fann hann bara alls ekki. Að lokum kom í ljós að hann var inn á hóteli og ekkert merktur utan frá. Síðan þegar ég kom inn þá var enginn matur framreiddur þar inni heldur inn á barnum þannig að ég fór á barinn en enginn sýndi mér áhuga þar. Ég var búinn að sóa of miklum tíma og hélt að hótelherbergið mitt væri orðið tilbúið þannig að ég fór bara aftur þangað.

En hótelherbergið var ekki til. Tuttugu mínúturnar tvöfölduðust. En ég fékk lykilkortið mitt og náði að koma mér inn á herbergi og fleygja öllum óþarfa af mér. Næst var að koma mér niður í bæ og kíkja á nokkra staði sem ég var spenntur fyrir.

Ég kom mér niður í bæ og kíkti í búðir. Ég lenti í veseni með kortin mín í einni búð og þurfti að fara í hraðbanka til að redda mér. Ég kom sigri hrósandi aftur í búðina og glotti yfir því að geta sannað fyrir afgreiðslumanninum að ég ætti í raun og veru peninga til að láta þá fá. Ég fékk mér beikon og ostafranskar á stað sem heitir Eddie Rockets og þá rifjaðist upp fyrir mér að við Eygló hefðum örugglega borðað þar, fyrir eiginlega akkúrat nákvæmlega upp á dag (!) tíu árum, og fundist óspennandi.

Í bókasafninu í Trinity College
Í bókasafninu í Trinity College

Á leiðinni úr bænum náði ég að ruglast á áttum með hjálp Google Maps. En ég náði að finna Trinity College þar sem ég kíkti snöggt á Book of Kells en mér fannst eiginlega meira spennandi að kíkja á bókasafnið fræga. Það var ógurlega fyndið í bókasafnsfræðinni í gamla daga að tala um stærð bóka sem grundvöll flokkunarkerfis en þarna er kerfið bókstaflega þannig. Öllum bókum raðað eftir stærð og staðsetningin síðan skráð til að geta fundið bækurnar.

Ég var í stuði fyrir smá drama þannig að ég spilaði Óðinn til gleðinnar meðan ég rölti þarna um. Ég náði að láta einhverjum grey konum bregða með því að smella fingrunum ósjálfrátt í takt við tónlistina. En þetta var sumsé svolítið flott.

Næsta skref var að finna mér eitthvað gott að borða fyrir kvöldið. Ég ákvað að finna næstu Centra verslun og kaupa mér langloku. Ég notaði Google Maps og fann rétta staðinn en þá var komin Spar verslun í staðinn fyrir Centra. Ég setti því næstu Centra verslun sem áfangastað og sú var á sínum stað en samlokubarinn lokaður. Ég hafði því ekkert nesti fyrir kvöldið.

Ég kom mér aftur á hótelið Jacobs Inn til að henda af mér drasli. Þegar þangað var komið virkaði ekki lykilkortið. Ég þurfti að fara aftur niður og láta strauja það aftur. Þegar ég var aftur kominn í herbergið var engin handsápa. Ég hugsaði með mér að ég gæti þá bara notað sjampó eða baðsápu til að þvo mér um hendurnar. En nei. Engar slíkar sápur heldur. Bögg.

Ég kom mér síðan af stað í átt að tónleikahöllinni með einungis eina flösku af sódavatni í nesti. Þegar ég kom að 3Arena þá sá ég að það var sölubás þarna en ég sá ekkert spennandi og þar að auki var ekki í boði að borga með korti og ég átti bara fimmevruseðlil eftir.

Fyrir utan 3Arena
Fyrir utan 3Arena

Ég fór því bara í röðina. Hún var ekki löng en það var um klukkutími fyrir opnun. Ég spjallaði örlítið við fólkið þarna úti. Hitti tvær gamlar bandarískar konur sem virtust hafa ferðast um allan heim til að sjá Queen+. Þegar á leið vorum við beðin um að kynjaskipta röðinni til að láta káfa aðeins á okkur. Það voru fleiri karlar að káfa og okkur var öllum hleypt framar í röðina. Við reyndum margir að rýma svolítið til svo konurnar gætu komið sér aftur á sinn stað í röðinni en okkur var skipað að þétt okkur fram á við. Þannig að það voru aðallega karlar fremst.

Beint fyrir framan sviðið.
Beint fyrir framan sviðið.

Þegar okkur var hleypt af stað þá var okkur bannað að hlaupa þannig að þetta var eins og ólympíukeppni í hraðgöngu. Ég kom mér inn og tók mér stöðu fremst við sviðið – plássið í kringum rampinn fylltist fyrst. Reyndar var ég ekki við sviðið beint heldur fyrir framan gryfjuna sem öryggisverðir og ýmis tæki voru í en ég var ekki langt frá sviðinu.

Allt fólkið sem ég var að skyggja á.
Allt fólkið sem ég var að skyggja á.

Ég byrjaði á að setjast. Síðan byrjaði ég að kynnast fólkinu í kringum mig. Þarna var japönsk kona búsett í Dublin með 11 ára strákinn sinn, sem heitir Roger í höfuðið á trommaranum, með sér. Ég gaf þeim upp nafnið á podcastinu mínu. Þá voru líka tvær írskar konur frá Limerick. Önnur þeirra talaði mjög mikið og vildi helst vita hvort ég þekkti Thor. Ég var smá tíma að fatta að hún átti við kraftakarlinn Hafþór. Hún var sjálf systir sterkasta manns Írlands og reyndi að fá mig til að skipuleggja kraftakeppni á Íslandi og Suður-Írlandi. Hún ætlaði líka að segja öllum að hún hefði hitt besta vin sterkasta manns Íslands. Þeim fannst öllum fyndið að ég væri skólabókavörður.

Tónleikarnir byrjuðu um klukkan átta. Ég var mjög varfærinn í tilhlökkun. Stóri munurinn á þessum tónleikum og þeim sem ég fór á árið 2005 og 2008 með Queen+ Paul Rodgers var að þetta var miklu meiri sýning. Það var allskonar skemmtilegt að gerast og þar var vélmennið Frank, sem þið munið eftir framan af plötuumslagi News of the World. Þá er Adam Lambert alveg að leika sér að því að vera „camp“.

Satt best að segja fannst mér langmesta fjörið þegar hljómsveitin spilaði Stone Cold Crazy. Alveg ógurlega flott. Adam er mjög fínn söngvari en það var alveg punktur þar sem röddin hans kippti mér úr notalega ástandinu sem fylgdi tónlistinni og minnti mig á að hann er engin Freddie. Ekkert að honum sjálfum samt.

Við Roger með lagalistann og hann með trommukjuðann sinn
Við Roger með lagalistann og hann með trommukjuðann sinn

Í lok tónleikana þá kom rótari til Rogers litla tónleikafélaga míns og lét hann fá eintak af lagalista kvöldsins. Örskömmu seinna fékk hann líka trommukjuða frá Tyler Warren (sem var í Queen Experience þegar sú sýning kom til Íslands) sem trommar til viðbótar við Roger. Drengurinn var dáltið kátur og ég fyrir hans hönd. Ég kallaði hann lucky little bastard.

Brian í sviðsljósinu
Brian í sviðsljósinu
Roger gat ekki alltaf séð það sem gerðist á rampinum þannig að ég lyfti honum upp svo hann gæti séð trommusólóið hjá nafna sínum. Öryggisvörður bað mig síðan um að setja hann niður þannig að það reyndi ekki lengi á mig. En sá litli var glaður.
Roger gat ekki alltaf séð það sem gerðist á rampinum þannig að ég lyfti honum upp svo hann gæti séð trommusólóið hjá nafna sínum. Öryggisvörður bað mig síðan um að setja hann niður þannig að það reyndi ekki lengi á mig. En sá litli var glaður.
Glambert og Frank
Glambert og Frank
Það að vera fremst við sviðið var mjög gott að flestu leyti en Brian sneri baki í okkur þegar hann spilaði Love of my Life.
Það að vera fremst við sviðið var mjög gott að flestu leyti en Brian sneri baki í okkur þegar hann spilaði Love of my Life.
Brian að pósa fyrir mig
Brian að pósa fyrir mig
Roger að syngja
Roger að syngja
Pappírsstrimlum var skotið í lok tónleika og ég var næstum í skotlínu.
Pappírsstrimlum var skotið í lok tónleika og ég var næstum í skotlínu.
Roger með þeim írsku
Roger með þeim írsku

Þegar tónleikarnir voru búnir var ég svangur og þyrstur. Ég tók eftir nýjum matarvagni. Þar var úrvalið aðeins betra og ég gat keypt lítinn skammt af frönskum og kókdós. Það bjargaði mér alveg. Ég rölti heim meðfram Liffey sem er ekki nærri jafn fögur og Lee og íhugaði að bregða íslenskum tónleikagestum í brún með því að ávarpa þá á hinu ylhýra en ég var alls ekki í spjallstuði þannig að ég sleppti því.

Ég kom loksins að opinni kjörbúð þar sem ég gat keypt mér sódavatn, bæði til að drekka þá og fyrir morguninn. Ég bætti líka við Twixi til að hafa eitthvað svona aukalega ef ég yrði svangur. Afgreiðslumaðurinn spurði mig hvort tónleikarnir hefðu verið góðir. Sú spurning kom svolítið á óvart enda var ég búinn að ganga um kílómeter frá tónleikahöllinni. Afgreiðslumaðurinn spurði mig líka hvort að þetta hefði verið sama hljómsveit og kvöldið áður – bara með öðrum söngvara. Ég fattaði að hann var að vísa í að Queens of the Stone Age höfðu verið að spila þarna á föstudagskvöldið. Ég útskýrði fyrir honum að hljómsveitirnar væru alls ótengdar.

Þegar ég kom á hótelið bað ég um sápu og spurði eftir sjampói. Ég fékk loforð um sápu þó að ég hafi hváð þegar ég heyrði talað um „súpp“. Ég komst síðan ekki inn af því að lykilkortið mitt virkaði ekki heldur núna. Þá fékk ég skýringuna sem gott hefði verið að fá fyrr um daginn – kortið getur afhlaðist við návist við síma. Ég var sjampólaus þannig að ég notaði umrædda handsápu í sturtunni. Hún var ekki einu sinni spennandi af handsápu að vera.

Ég vaknaði um sjöleytið á sunnudagsmorgni. Ég ákvað að prufa létta morgunverðinn á hótelinu. Það kom í ljós að var aðallega ristað brauð og morgunkorn. Ég ákvað að borða bara á flugvelllinum. Ég hafði vandað mig við að velja mér rútuferð frá stað sem var nálægt hótelinu en ég átti greinilega við þann vanda að stríða að rugla saman O’Connell (gata) og Connelly (lestarstöð) þannig að ég þurfti að ganga dálítið til að ná rútunni.

Flugvöllurinn var eitthvað undarlega skipulagður þannig að mér sýndist á merkingunum að ég væri að fara í aðra flugstöð (terminal) en ekki að öryggishliðinu og ráfaði dáltið aukalega um. Írar virðast ekki telja mig líklegan hryðjuverkamann þannig að ég var tiltölulega fljótur í gegn.

Þá ætlaði ég að finna mér eitthvað að borða. Mér þótti allt svo óspennandi að ég ákvað að gefa Burger King séns. Ég valdi mér eitthvað góðgæti sem var síðan ekki til þegar ég kom að kassanum ég bað þá kjúklinganagga í staðinn. Þegar kom að því að borga var báðum kortunum mínum hafnað eins og daginn áður. Ég nennti ekki að eltast við mat sem ég var ekki spenntur fyrir og ákvað að fara nær hliðinu mínu þar sem merkingar bentu til þess að þar væru fleiri veitingastaðir í boði. En þá kom í ljós að þeir voru óspennandi og dýrir. En þá mundi ég eftir Twixinu sem ég keypti kvöldið áður og keypti mér bara sódavatn með og lét það duga til Íslands.

Flugið gekk vel með hjálp lyfja og svefnhlaðvarpsþáttar. Ég er ekkert ósáttur við Wow eftir þessa reynslu. Ég keypti ekkert nema nammi í fríhöfninni. Lukkulega er enginn áhugasamur um að fá sígarettur lengur og Eygló á sjálf vínbirgðir fram í tímann af því að hún drekkur ekki einu sinni það sem hún kaupir sjálf í tollinum.

Lentur
Lentur

Ég tók síðan rútu út í Holtagarða þar sem fjölskyldan tók glöð á móti mér.

Kjósum betur

Í dag kjósum við. Ég ætla að kjósa VG – enda er ég í framboði í Reykjavíkurkjördæmi suður. Ég treysti VG best fyrir menntamálum, heilbrigðismálum, velferðarmálum og, síðast en ekki síst, loftslagsmálum.

VG er ekki fullkominn flokkur. Ég játa það alveg. En mér finnst samt valið mjög skýrt. Fólk segir að slagorðið „Gerum betur“ segi ekki nóg en ég hef allavega mínar eigin skýringar á því. VG getur gert betur en núverandi ríkisstjórn en VG getur líka gert betur en í ríkisstjórninni 2009-2013. Allavega ef flokkurinn fær nægan stuðning. Í þeirri ríkisstjórn þurfti að takast á við ótrúlega mörg og erfið mál en það tókst nægilega vel til þess að leggja grunn að uppgangi síðustu ára.

Sá uppgangur hefur ekki verið nýttur í neitt af viti. Það er einkavæðing í mennta- og heilbrigðiskerfinu og niðurskurður í velferðarmálum. Það er grátlegt.

VG þarf tækifæri til að stjórna í uppsveiflu og byggja upp menntakerfið, heilbrigðiskerfið og velferðarkerfið. Ég treysti engum betur í það verkefni.

Ég vona að VG leiði ríkisstjórn með Pírötum og Samfylkingu. Það væri óskastaða. Það væri langbest ef þú myndir kjósa VG. En ef þú ert heitur ESB-sinni þá geturðu kosið Samfylkinguna. Ef þér finnst VG ekki nógu dugleg í stjórnarskrármálum þá geturðu kosið Pírata.

Ef þú kýst Sjálfstæðisflokkinn þá skil ég þig ekki – nema að þú sért milljónamæringur sem hatar fátækt fólk. Ef þú ætlar að kjósa Miðflokkinn þá bið ég þig um að finna leið til að gera atkvæðið þitt ógilt eða bara kjósa Framsókn í staðinn. Ef þú vilt Viðreisn þá ættirðu eiginlega frekar að kjósa Bjarta framtíð (sami flokkur með færri milljónamæringum).

Eða kjóstu bara VG. Það er langbesti kosturinn.