Gremlins

Í gærkvöld horfði ég á Gremlins í fyrsta skipti í mörg ár. Á meðan ég mundi nákvæm smáatriði í mörgum senum, meiraðsegja tónfall sumra setninga, þá var ýmislegt annað sem ég hafði ekki veitt sérstaka athygli fyrren nú:

• Þemalag myndarinnar er miklu meira eitís en ég hafði gert mér grein fyrir, þó vissi ég alltaf að myndin var gerð árið 1984.

• Corey Feldman er í henni, í sínu næstminnst pirrandi hlutverki; það minnst pirrandi var í Stand By Me. Persónan er engu að síður flöt og óþörf. Eina hlutverk hans í myndinni er að bleyta Gizmo en hver sem er hefði á endanum getað slysast til þess.

• Þegar Gizmo engist um af sársauka eftir að hafa blotnað svo hárkúlur skjótast úr honum fríkar Billy hvorki út né skammar Corey Feldman fyrir að skaða dýrið (og lengst framan af virðist hann hafa gleymt því að það má alls ekki bleyta svona dýr, ekki síst þegar pabbi hans fær dollaramerki í augun og hugsar sér að rækta dýrin fyrir alheimsmarkaðinn, þá virðist Billy bara finnast það vera góð hugmynd).

• Það kemur hvorki fram hvort mogwai fjölgi sér eingöngu með vatni né hvort þeir sem þannig verði til séu alltaf vondir. Hvaðan kemur Gizmo til dæmis? Hvernig má það svo vera að fullvaxinn púki fæði af sér fullvaxna púka en ekki litla mogwaia einsog Gizmo fæðir? (einhver bjáni skrifaði skáldsögu eftir myndinni sem útskýrir allt þetta á heimskulegasta mögulega hátt – ekki leita það uppi!)

• Kingston Falls er svo lítið og krúttlegt bæjarfélag að fremsti vísindamaðurinn sem Billy getur farið með mogwaiana til er barnaskólakennari. „Fokk vísindasamfélagið,“ hugsar hann (áreiðanlega) og rannsakar dýrið sjálfur.

• Það að mogwaiarnir eru algerlega óþekktir í Bandaríkjunum sýnir stereótýpíska ímynd af hinni mystísku Kína. Gamli karlinn sem á Gizmo veit allt um þessar skepnur, einsog ábyggilega margir Kínverjar, en samt hefur ekkert spurst út til umheimsins um tilvist þessara dýra (eða réttara sagt álfa). Það meikaði ekkert meira sens árið 1984 en í dag.

• Frú Deagle er algjörlega byggð á herra Potter úr It’s a Wonderful Life, sem mamma Billys sést einmitt horfa á í annarri senu. Þeirri senu mundi ég raunar vel eftir enda var ég alinn upp á klassískum bíómyndum.

• Mogwaiarnir eru fljótir að læra tungumál og hugsa ekki um neitt annað en að éta. Púkarnir eru varla fyrr skriðnir úr púpunum en þeir vaða í eldhúsið með orðunum „Yum yum“. Þegar Gizmo fyrst kemur heim til þeirra er hann fljótur að æpa „Bright light!“ þótt hann hafi fram að þessu aðeins búið meðal kínverskra.

• Þau eru ótrúlega fljót að grípa til vopna og hefjast handa við að drepa fyrrum gæludýr sín miðað við forsendur.

• Púkarnir eru mikið fyrir að fikta í farartækjum og skemma tækjabúnað, sbr. vélarbilanir sem nefndar voru gremlins í síðari heimsstyrjöldinni. Þetta er rætt í myndinni, en þegar ég var barn gerði ég alltaf ráð fyrir að persóna Dicks Millers í myndinni væri bara full og að bulla.

• Það er ein sú allra fallegasta og yndislegasta sena sem ég hef séð í kvikmynd þegar púkarnir skemmta sér yfir Mjallhvíti og syngja með.

Sjálfsagt var það eitthvað fleira en þetta er svona það helsta.

No Trackbacks

11 Comments